Guðlaug Kristánsdóttir tók til máls og tók 2. varaforseti Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þá til máls, Guðlaug Kristjánsdóttir kom að andsvari og tók síðan við stjórn fundarins að nýju.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti fyrirliggjandi tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttirn lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Það er ekki rétt sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að það hafi komið í ljós í ársbyrjun 2014 að heilbrigðisráðuneytið myndi ekki hafa not fyrir húsnæði fyrrum St. Jósefsspítala. Það lá fyrir í ársbyrjun 2013 þegar þáverandi ráðherra heilbrigðismála lýsti því yfir opinberlega að hann vildi að Hafnarfjarðarbær fengi forræði yfir fasteignunum, enda hefði ekki fundist hentugur rekstur á vegum heilbrigðisyfirvalda sem væri hægt að starfrækja í húsinu. Kallaði hann eftir hugmyndum frá Hafnarfjarðarbæ um hvernig hægt væri að nýta fasteignirnar í þágu nærsamfélagsins í Hafnarfirði.
í því samhengi var horft til sambærilegra verkefna sem ríkið hefur stutt myndarlega við í öðrum sveitarfélögum. Dæmi um slíkt vel heppnað verkefni eru breytingar gamla héraðssjúkrahússins á Ísafirði í safnahús. Þar lagði ríkið sitt af mörkum til þess að nýta mætti í þágu viðkomandi nærsamfélags byggingar sem ríkið hafði ekki lengur not fyrir.
Í framhaldinu sendu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ráðuneytinu formlegt erindi með hugmyndum um nýtingu hússins undir fjölþætta menningarstarfsemi og endurskoðun skipulags á svæðinu í heild.
Í júlí 2013 barst svar frá núverandi ráðherra sem hafnaði með öllu hugmyndum bæjarins og því að bærinn myndi eignast húsnæðið á fyrrgreindum forsendum. Vísaði ráðherra í svari sínu til skráðs fasteignamats eignanna.
Í framhaldinu var án árangurs reynt að fá heilbrigðisráðherra til að samþykkja samstarf við bæjaryfirvöld um að finna fasteignunum hlutverk í samræmi við eðli þeirra og skipulag á svæðinu. Þær tilraunir skiluðu engum árangri.
Í október 2013 svaraði ráðherrann fyrirspurn Margrétar Gauju Magnúsdóttur, varaþingmanns, sem benti á að húsnæðið væri hægt og rólega að skemmast vegna viðhaldsleysis. Aðspurður um hverjar fyrirætlanir ráðuneytisins væru í málefnum hússins svaraði ráðherra því til að hann útilokaði ekki sölu fasteignanna. Í framhaldinu vísaði hann málinu til fjármálaráðherra með ósk um að fasteignirnar yrðu seldar.
Ári síðar, eða í nóvember sl. voru fasteignirnar loks auglýstar til sölu.
Það er ástæða til þess að fagna því að taka eigi upp þráðinn að nýju á þeim forsendum sem lagt var upp með í ársbyrjun 2013 og kanna möguleika þess að Hafnarfjarðarbær geti öðlast fullt forræði yfir eignunum. Það er vonandi að erindi bæjarins þess efnis fái aðrar og jákvæðar móttökur í þessari tilraun"