Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkir með 3 atkvæðum fyrirliggjandi drög með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum.
Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá og leggja fram eftirfarandi bókun:
"Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa bæjaryfirvöld og einstaka bæjarfulltrúar meirihlutaflokkanna verið í samskiptum við fulltrúa ríkisins um málið allt frá því síðla sumars án þess að bæjarráði hafi verið upplýst. Erindi sem borist hafa frá m.a. fjármálaráðuneyti hafa ekki verið kynnt í bæjarráði né fjölskylduráði og ekkert samráð verið haft um málið við fulltrúa minnihlutans. Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig nýr meirihluti kýs að standa að málum þvert á yfirlýsingar um aukið samráð og samvinnu þvert á stjórnmálaflokka. Fulltrúar Samfylkingar og VG benda á að í fyrri samskiptum við ríkisvaldið vegna sama máls hefur verið haft fullt samráð við þáverandi minnihluta.
Í fyrirliggjandi drögum að auglýsingu umræddra eigna er lögð áhersla á að að eignirnar verði nýttar undir heilbrigðisstarfsemi. Kemur fram að krafa þessi sé sett fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar. Engin umræða eða samþykkt þess efnis hefur verið gerð í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða fastanefndum sveitarfélagsins, né hafa verið sett fram einhver rök fyrir þessu fyrirkomulagi. Það liggur því ekkert fyrir um hvers vegna þessi sérstaka heimild er gerð né hvernig það geti þjónað hagsmunum sveitarfélagsins og íbúum þess að þrengja með þessum hætti mögulega nýtingu umræddra fasteigna. Í því samhengi má benda á að núverandi heilbrigðisráðherra hefur tekið af öll tvímæli um að til standi að nýta umræddar byggingar undir opinbera heilbrigðisþjónustu af einhverju tagi."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Í málefnasamningi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar segir:
Leitað verði leiða til að hefja aftur starfsemi í St. Jósefsspítala í samstarfi hagsmunaaðila.
Í samræmi við þetta gerðu forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri grein fyrir stöðu mála í september sl. á óformlegum fundi með stjórn Hollvinasamtaka St. Jósefsspítala í framhaldi af umbeðnum fundi með fulltrúum Fasteigna ríkisins. Að öðru leyti hefur bæjarstjóri annast framgang málsins. Enn um sinn mun meirihlutinn leitast við að framtíðarstarfsemi í húsinu endurspegli á einhvern hátt fyrri sögu þess í bænum, þótt það sé ekki skilyrt í auglýsingunni."