Vatnsendakrikar í Heiðmörk, kalt vatn, nýting
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1750
2. september, 2015
Annað
Fyrirspurn
12. liður úr fundargerð UMFRAH frá 26. ágúst sl. Lagt fram bréf Orkustofnunar frá 17. ágúst sl. varðandi nýtingarleyfi á grunnvatni í Vatnsendakrika í Heiðmörk.
Málinu frestað milli funda. Boðað er til fundar með Orkustofnun á morgun fimmtudag kl 14 þar sem úrskurðurinn verður kynntur.
Svar

Helga Ingólfsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun bæjarstjórnar:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar áréttar mikilvægi þess að við veittar heimildir til vatnstöku úr sameiginlegum grunnvatnsstofnum sé horft til heildarnýtingar, spornað við sóun, jafnræðis gætt og sérstaklega hugað að umhverfisáhrifum.
Orkustofnun hefur samkvæmt úrskurði dags. 17. ágúst 2015 heimilað aukna vatnstöku Orkuveitu Reykjavíkur og Vatnsveitu Kópavogs í samræmi við innsenda beiðni þessara sveitarfélaga dags. 24. apríl 2013. Vatnsveita Hafnarfjarðar sem fer með umboð Hafnarfjarðarkaupstaðar í þessu máli mótmælti úrskurði Skipulagsstofnunar þess efnis að beiðni um aukna vatnstöku þyrfti ekki að sæta umhverfismati og er það mál nú í ferli hjá úrskurðarnefnd Skipulagsstofnunar. Það vekur furðu að svo stór ákvörðun um heimild til aukinnar vatnstöku skuli veitt án þess að fyrir liggi umhverfismat vegna þeirra áhrifa sem aukin vatnstaka kann að hafa í för með sér fyrir Hafnarfjörð sem hefur frá árinu 1918 nýtt Kaldárstraum og Vatnsendakrika til vatnsöflunar. þau reiknilíkön sem lögð hafa verið fram um áhrif aukinnar vatnstöku Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur úr sameiginlegum stofnum sýna að vatnsbúskapur í landi Hafnarfjarðar mun breytast verulega þar sem vatnsyfirborð mun lækka bæði í Kaldá og t.d. Hvaleyrarvatni auk þess sem fyrir liggur að í stað þess að Hafnarfjörður hafi sjálfrennandi vatn eins og nú er að öllu jöfnu þá muni koma til þess að dæla þurfi drykkjarvatni til bæjarbúa. Í þessu felst grundvallarbreyting á vatnsnýtingu með tilheyrandi orkunotkun, mannvirkjum, vélbúnaði, viðhaldi og kostnaði sem gengur geng sjónarmiðum um sem sjálfbærasta vatnsöflun. Þetta er breyting sem er óafturkræf og því ákaflega mikilvægt fyrir Hafnarfjörð að aðilar að svæðisskipulagi Vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu skoði með hvaða hætti hægt er að stýra skipulagi nýtingar og vatnsverndar betur þannig að jafnræði sé með hagsmunaaðilum á svæðinu.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framkomna bókun með 11 samhljóða atkvæðum.