Flensborgarskóli fjárhagsstaða
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 11 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1715
27. nóvember, 2013
Annað
Fyrirspurn
Í upphafi fundar afhentu fulltrúar nemenda og starfsfólks framhaldsskólanna í Hafnarfirði bæjarstjórn áskorun vegna stöðu skólanna og þar sem jafnframt er boðað til borgarafundar vegna þessa.
Svar

Bæjarstjóri Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls og kynnti ofangreinda áskorun.

Jafnframt lagði bæjarstjóri fram svohljóðandi ályktunartillögu bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmælir niðurskurði í fjárveitingum til Flensborgarskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða fjárframlög til Flensborgarskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði til að tryggja skólunum eðlilegan rekstrargrundvöll. Krafa um tafarlausa leiðréttingu á rekstrarhalla skólanna er harkaleg þegar horft er til raunverulegrar fjárhagsþarfar þessarra tveggja menntastofnana og er víst að ef miðað er við núverandi fjárveitingar til skólanna samhliða kröfu um leiðrettingu rekstrarhalla á svo skömmum tima sem hér um ræðir, mun það skerða til mikilla muna möguleika ungmenna í Hafnarfirði til að velja sér nám sem þeim hentar. Það ýtir svo enn og aftur undir enn frekara brotthvarf ungmenna úr námi í framhaldsskólum. Uppbygging aukins námsvals og sérhæfingar skólanna, svo sem fjölmiðladeildar Flensborgar undanfarin fimm ár, er þannig að engu höfð."

Rósa Guðbjartsdóttir tók þessu næst til máls, síðan Eyjólfur Sæmundsson, þá Rósa Guðbjartsdóttir, Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við ræðu Rósu Guðbjartsdóttur, Rósa Guðbjartsdóttir svaraði andsvari, Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari öðru sinni, Rósa Guðbjartsdóttir svaraði andsvari öðru sinni, Eyjólfur Sæmundsson kom að stuttri athugasemd, bæjarstjóri Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom einnig að athugasemd við upphaflegri ræðu Rósu Guðbjartsdóttur, Rósa Guðbjartsdóttir svaraði andsvari.
Næstur tók til máls Geir Jónsson, Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við ræðu Geirs Jónssonar, bæjarstjóri Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom einnig að andsvari við ræðu Geirs Jónssonar, Gunnar Axel Axelsson kom sömuleiðis að andsvari við ræðu Geirs Jónssonar.
Þá tók til máls Kristinn Andersen og tók Sigríður Björk Jónsdóttir við stjórnar fundarins, bæjarstjóri Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari, Kristinn Andersen svarið andsvari, Gunnar Axel Axelsson kom einnig að andsvari, Kristinn Andersen svarið andsvari og tók síðan við stjórn fundarins að nýju.

Forseti bar síðan upp framkomna ályktunartillögu og samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar tillöguna með 6 atkvæðumm.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá og lögð fram svohljóðandi bókun:
"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af þröngri fjárhagsstöðu framhaldsskóla í Hafnarfirði og hafa tekið undir hvatningarorð til ráðherra um að beita sér fyrir því að skólunum verði gert fjárhagslega kleift að sinna nemendum sínum í samræmi við lög og reglugerðir. En fullyrðingar um niðurskurð til skólanna reynast hins vegar ekki réttar þegar frumvarp til fjárlaga er skoðað. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á framlagi til Flensborgarskóla úr 611.7 milljónum króna á yfirstandandi ári í 629 milljónir króna á komandi fjárlagaári. Gert er ráð fyrir óbreyttum nemendafjölda og stafar hækkunin af verðlagsuppfærslu.
Vandinn sem Flensborg glímir við felst í því að ekki hefur tekist að laga reksturinn að fjárheimildum skólans á undanförnum árum og uppsafnaður rekstrarhalli hefur hlaðist upp. Stjórnendur skólans eru sjálfir að reyna að bregðast við því með aðgerðum sem m.a. felast í sársaukafullum uppsögnum á starfsfólki. Vandi Iðnskólans er af öðrum toga en þar hefur nemendafjöldi verið talsvert undir forsendum fjárlaga. Einnig höfðu framlög til húsaleigu verið ofáætluð á yfirstandandi fjárlagaári.
Því eru fullyrðingar fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn um niðurskurð til þessara skóla ekki réttar. Hefði bæjarfulltrúum Samfylkingar og VG verið nær að líta sér nær og bregðast við á ríkisstjórnartímabili eigin flokka þegar fjallað er um núverandi stöðu þessara skóla.
Stjórnendum, starfsmönnum og nemendum skólanna er annars óskað velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum og námi um ókomna tíð.
Lagt er til að stofnaður verði starfshópur um framtíð framhaldsskóla í Hafnarfirði þar sem lögð verði áhersla á að styrkja framhaldsskóla bæjarins til frambúðar og sú vinna verði hafin sem fyrst og unnin í samráði við alla hagsmunaaðila."

Gert var stutt fundarhlé og síðan tekinn fyrir næsti dagskrárliður.