Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls, þá Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og tók 2. varaforseti Kristinn Andersen við stjórn fundarins undir ræðu hennar.
Gunnar Axel Axelsson tók síðan til máls, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari við ræðu Gunnars Axel Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari öðru sinni, Rósa Guðbjartsdóttir kom að stuttri athugasemd, Gunnar Axel Axelsson kom einnig að stuttri athugasemd.
Einar Birkir Einarsson tók þessu næst til máls, Gunnar Axel Axelsson koma að andsvari við ræðu Einars Birkis Einarssonar, Einar Birkir Einarsson svaraði andsvari, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari öðru sinni.
Rósa Guðbjartsdóttir tók þá til máls, Gunnar Axel Axelsson koma að andsvari við ræðu Rósu Guðbjartsdóttur. Kristinn Andersen tók síðan til máls.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þá til máls og tók Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan.
Gunnar Axel Axelson tók þessu næst til máls.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti fyrirliggjandi tillögu með 7 atkvæðum gegn 4.
Rósa Guðbjartsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar:
"Þegar auglýst var eftir bæjarstjóra Hafnarfjarðar í júní sl. voru gerðar kröfur um menntun og sérhæfða reynslu. Nánar tiltekið farsæla reynslu af rekstri og stjórnun, menntun sem nýttist í starfi og reynslu og þekkingu af opinberri stjórnsýslu. Tekið var tillit til þessara þátta við ákvörðun launa bæjarstjóra. Jafnframt var gerður samanburður á launakjörum bæjarstjóra eða framkvæmdastjóra annarra sambærilegra sveitarfélaga. Miðað var við að Hafnarfjörður færi ekki fram úr öðrum sveitarfélögum, en væri þeim heldur ekki langt að baki hvað laun bæjarstjóra varðar. Launakjör nýskipaðs bæjarstjóra eru nú sambærileg launakjörum bæjarstjóra í nágrannasveitarfélögunum, eins og þau voru við lok síðasta kjörtímabils.Einnig var horft til launa fyrrum bæjarstjóra Hafnarfjarðar síðustu áratugina, uppreiknuð samkvæmt vísitölum.
Grunnlaun bæjarstjóra, að frátöldum greiðslum vegna setu í bæjarstjórn og eftir atvikum ráðum, voru árið 2005 kr. 876.502.
Framreiknuð miðað við launavísitölu starfsmanna sveitarfélaga væru þau laun árið 2014 kr. 1.535.660, en ef stuðst er við vísitölu neysluverðs kr. 1.523.985. Sé launum fyrir setu í bæjarstjórn (án annarra ráða) bætt við grunnlaun, væru launin í dag kr. 1.759.598 (launavísitala starfsmanna sveitarfélaga) eða 1.756.220 (VNV).
Laun nýráðins bæjarstjóra Hafnarfjarðar eru heildarlaun, ekki er greitt sérstaklega fyrir setu á bæjarstjórnarfundum eða bæjarráðsfundum. Innifalið í heildarlaununum eru jafnframt greiðslur vegna aksturs. Heildarlaunin eru kr. 1.480.000.
Í ráðningarsamningi við bæjarstjóra voru gerðar fleiri breytingar. Ákvæðum um uppsagnarfrest var breytt, á þann veg að gagnkvæmur uppsagnarfrestur er nú 6 mánuðir, en í fyrri ráðningarsamningum var gert ráð fyrir að bæjarstjóri sem segði upp störfum gæti gert kröfu um laun út kjörtímabilið. Það svigrúm hefur nú verið þrengt. Einnig er nú fallið frá því að greiða orlof af yfirvinnu, sem áður var gert."
Gunnar Axel Axelsson lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Vegna vinnubragða fulltrúa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sagði fulltrúi minnihlutans í valnefnd um ráðningu bæjarstjóra sig frá störfum nefndarinnar, enda ljóst að ekki er um faglega ráðningu að ræða heldur pólitíska ákvörðun meirihlutans. Fulltrúar minnihluta sátu því hjá við afgreiðslu tillögu meirihluta bæjarráðs en óska engu að síður nýráðnum bæjarstjóra farsældar í sínum störfum og vonast til þess að eiga við hann gott samstarf.
Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að ráðningasamningi er gert ráð fyrir að laun bæjarstjóra hækki um 31,5% miðað við núgildandi starfskjör. Þessi tillaga um launahækkun er lögð fram án allrar umræðu og aðkomu bæjarstjórnar. Fulltrúar minnihlutans eru mjög hugsi yfir því hvaða skilaboð felast í slíkri hækkun á launum æðsta embættismanns sveitarfélagsins."
Adda María Jóhannsdóttir
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Gunnar Axel Axelsson
Ófeigur Friðriksson