Tillögur, lagðar fram í bæjarstjórn 18.júní.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1727
18. júní, 2014
Annað
‹ 5
6
Fyrirspurn
Lagðar fram eftirfarandi tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar.
A: Hjúkrunarheimili í Hafnarfirði hagkvæmniúttekt B: Atvinnuþróun og markaðssetning Hafnarfjarðarbæjar C: Hreinn og fagur bær D: Netvæðing í skólum Hafnarfjarðar E: Heilsustefna Hafnarfjarðar
Svar

Kristinn Andersen kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
Tillaga A:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði hagkvæmniúttekt á staðsetningu nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði. Fjölskylduráði verði falin frekari útfærsla úttektarinnar."

Margrét Gauja Magnúsdóttir kvaddi sér hljóðs vegna fundarskapa og þá Gunnar Axel Axelsson.
Kristinn Andersen tók einnig til máls vegna fundarskapa. Einnig Guðrún Ágústa Guðmundsdótir. Gunnar Axel Axelsson tók aftur til máls vegna fundarskapa.

Gert var stutt fundarhlé.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að hver tillaga yrði tekin til umræðu og afgreiðslu eins og um sérstakan dagskrárlið væri að ræða og með þeim reglum sem fundarsköp leyfi varðandi ræðutíma.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þá til máls,síðan Gunnar Axel Axelsson, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari, Helga Ingólfsdóttir koma að andsvari öðru sinni.
Einar Birkir Einarsson kom að andsvari við ræðu Gunnar Axels Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls öðru sinni, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari, Helga Ingólfsdóttir koma að andsvari öðru sinni.

Margrét Gauja Magnúsdóttir tók þessu næst til máls.

Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti tillögu A: Hjúkrunarheimili í Hafnarfirði - hagkvæmniúttekt með 7 atkvæðum geng 4.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir koma að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG lýsa vonbrigðum sínum yfir því að eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta sé að setja uppbyggingu á hjúkrunarheimili í Hafnarfirði í uppnám og telja að órökstudd tillaga um hagskvæmniúttekt sé leið til að stöðva framgang verkefnisins. Þar með er rofin sú þverpólitíska sátt og samstaða sem verið hefur um þetta verkefni allt frá árinu 2006.
Arkitektahönnun heimilisins er lokið, verkfræðihönnun er hafin og gerir gildandi verkáætlun ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega og nýtt heimili taki til starfa í lok næsta árs. Sú verkefnastjórn sem hefur borið ábyrgð á verkefninu og framkvæmd þess, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn auk fulltrúa hagsmunasamtaka aldraðra, hefur látið framkvæma margþættar greiningar á forsendum verkefnisins, byggingu og rekstri nýs hjúkrunarheimilis.
Sú ákvörðun að hefja uppbyggingu á nýju hjúkrunarheimili í Skarðshlíð fjallar fyrst og fremst um hagsmuni þeirra sem þar munu búa í framtíðinni og þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar þeirri þjónustu sem þar er ætlunin að verði veitt. Í Skarðshlíð er gert ráð fyrir fjölþættri uppbyggingu, meðal annars nýrri heilsugæslustöð og þjónustuíbúðum fyrir aldraða og er bygging hemilisins mikilvægur þáttur í þróun og uppbyggingu Vallarsvæðisins."

Helga Ingólfsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

Tillaga B:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að farið verði í atvinnuþróunarverkefni sem miði að því að efla atvinnulíf í bænum. Farið verði í markvissa kynningu á þeim möguleikum sem Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða jafnt fyrir starfandi fyrirtæki sem og þeim sem hyggja á nýja atvinnustarfsemi. Einnig verði gerðar tillögur að því hvernig styrkja megi samskipti bæjaryfirvalda við fyrirtæki og atvinnulíf. Bæjarráði verði falin frekar útfærsla verkefnisins."

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þá til máls.

Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti tillögu B: Atvinnuþróun og markaðssetning Hafnarfjarðarbæjar með 11 atkvæðum.

Gunnar Axel Axelsson kom að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG styðja áframhaldandi vinnu á þessu sviði og leggja áherslu á að fyrsta verkefni bæjarráðs verði að taka saman upplýsingar um það sem þegar hefur verið gert í tengslum við atvinnuþróun og markaðssetningu Hafnarfjarðarbæjar. Meðal þess sem rétt er að benda á í því samhengi er ráðning verkefnastjóra á þessu ári sem hefur það hlutverk að kynna og selja atvinnulóðir, vinna við undirbúning að stofnun Hafnarfjarðarstofu sem bæjarstjórn samþykkti nýlega og þátttaka Hafnarfjarðarbæjar í sameiginlegri vinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við markaðssetningu svæðisins gagnvart erlendum fjárfestum og innlendum og erlendum ferðamönnum."

Kristinn Andersen tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

Tillaga C.
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði sérstök gangskör í hreinsun og fegrun bæjarins. Á meðal þess sem lögð verði áhersla á í sumar er miðbærinn, fegrun og fjölgun sælureita þar með það að markmiði að auðga og efla mannlífið. Umhverfis- og framkvæmdaráði verði falin frekari útfærsla verkefnisins."

Gunnar Axel Axelsson tók þessu næst til máls.

Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti tillögu C: Hreinn og fagur bær með 11 atkvæðum.

Ófeigur Friðriksson kom að eftirfarandi bókun bæajrfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG styðja áframhaldandi vinnu við fegrun bæjarins. Fyrir liggur ákvörðun um aukið fjármagn til hreinsunar og fegrunar bæjarins í samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2014. Þar má nefna 3 milljóna króna aukafjárveitingu til fegrunar Hellisgerðis og 15 milljónir í grænkun Valla, samþykkt hefur verið að ráðast í verkefnið Torg í biðstöðu og nú þegar hefur verið ráðist í ýmis viðhaldsverkefni í miðbænum."

Kristinn Andersen tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

Tillaga D:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði úttekt á netvæðingu skóla Hafnarfjarðarbæjar og gerð verði áætlun um hvernig hraða megi því að allir skólar verði með þráðlaust netaðgengi á komandi skólaári. Fræðsluráði er falin frekari útfærsla verkefnisins."

Gunnar Axel Axelsson tók síðan tíl máls.

Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti tillögu D: Netvæðing í skólum Hafnarfjarðar með 11 atkvæðum.

Gunnar Axel Axelsson kom að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG styðja að sjálfsögðu tillögu um netvæðingu í skólum Hafnarfjarðarbæjar en benda á að í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir verulegu fjármagni til eflingar á notkun upplýsingatækni í leik- og grunnskólum bæjarins. Til kaupa á tölvum, skjávörpum og uppsetningu þráðlauss nets í skólum eru ætlaðar 45 milljónir króna. Auk þess er gert ráð fyrir 35 milljónum króna til þróunar og nýsköpunar, sem ætla má að nýtist að stórum hluta til þessa verkefnis. Þessu til viðbótar er verulegt fjármagn hjá tölvudeild bæjarins sem ætlað er til endurnýjunar tölvukosts skólanna.
Í greinargerð með fjárhagsáætlun segir m.a.: "Á árinu verður farið í átak í tæknivæðingu leik- og grunnskóla. Með þessu er aukin notkun uppplýsingatækni í kennslu gerð möguleg og er það stefna fræðsluyfirvalda að hafnfirskir leik- og grunnskólar verði í fremstu röð hvað það varðar innan þriggja ára."
Skipaðir voru tveir starfshópar, einn fyrir leikskóla og annar fyrir grunnskóla til þess að móta stefnu og gera tillögur um þróun þessara mála í Hafnarfirði.
Á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar þann 24. febrúar sl. voru lagðar fram skýrslur starfshópanna. Þar koma fram tillögur að aðgerðum til að efla upplýsingatækni í leik- og grunnskólum bæjarins á næstu þremur árum.
Innleiðing verkefnisins er nú þegar langt á veg komin."
Einar Birkir Einarsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

Tillaga E:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerði verði ný heilsustefna fyrir Hafnarfjörð með heilsueflingu að markmiði sem nái til íbúa, fyrirtækja, félaga og stofnana. Bæjarráði verði falið að setja á laggirnar starfshóp sem setji skýr og ákveðin markmið við innleiðingu heilsustefnu bæjarins."

Margrét Gauja Magnúsdóttir tók þá til máls, síðan Gunnar Axel Axelsson, Kristinn Andersen kom að andsvari við ræðu Gunnars Axel Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari.

Gert var stutt fundarhlé.

Kristinn Andersen kom að andsvari öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari öðru sinni.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þessu næst til máls, síðan Gunnar Axel Axelson sem lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fjölskylduráði að hefja endurskoðun fjölskyldustefnu Hafnarfjarðarbæjar. Við endurskoðunina verði lögð sérstök áhersla á heilsueflingu með það að markmiði sem nái til íbúa, fyrirtækja, félaga og stofnana."

Gert var stutt fundarhlé.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi framkomna breytingartillögu með 7 atkvæðum gegn 4.

Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti tillögu E: Heilsustefna Hafnarfjarðar með 11 atkvæðum.

Gunnar Axel Axelsson kom að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG styðja það að sjálfsögðu að sveitarfélagið leggi áherslu á heilsu og heilsutengd málefni með formlegum hætti, t.d. í formi heilsustefnu og leggja um leið áherslu á mikilvægi þess að gætt sé samræmis við stefnu stjórnvalda sem lögformlega fara með heilbrigðis- og lýðsheilsumál í landinu og annarrar grundvallar stefnumörkunar sveitarfélagsins, meðal annars Fjölskyldustefnu Hafnarfjarðarbæjar sem fjallar meðal annars um lýðheilsumál. Lögðum við því til að tillögunni yrði vísað til fjölskylduráðs í stað bæjarráðs."