Helga Ingólfsdóttir tók til máls, þá Gunnar Axel Axelsson, síðan Helga Ingólfsdóttir öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson tók þá til máls öðru sinni.
Adda María Jóhannsdóttir tók síðan til máls, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari við ræðu Öddu Maríu Jóhannsdóttur, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari öðru sinni, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari öðru sinni.
Gunnar Axel Axelsson kom að stuttri athugasemd.
Ófeigur Friðriksson tók þá til máls, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari, Ófeigur Friðriksson svaraði andsvari, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari öðru sinni.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti tillögu fjölskylduráðs með 7 samhljóða atkvæðum.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Með þessari ákvörðun er kastað á glæ fjármunum og margra ára undirbúningsvinnu sem hefur frá upphafi einkennst af virku samráði, samstarfi við hagsmunaaðila og þvert á stjórnmálaflokka. Með samþykkt þessarar tillögu er einnig ljóst að verulegar tafir verða á að því að löngu tímabærar úrbætur verði gerðar á aðbúnaði þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum í Hafnarfirði.
Miðað við fyrirliggjandi forsendur virðist sem þessi ákvörðun meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks snúist öðru fremur um að snúa við ákvörðunum sem teknar voru í tíð fyrri meirihluta. Vönduð undirbúningsvinna sem staðið hefur yfir um langt árabil, þverpólitísk sátt og samstaða sem verið hefur um verkefnið frá upphafi og þeir miklu fjármunir sem lagðir hafa verið í verkefnið nú þegar virðast engu máli skipta.
Þegar nýr meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks tók við ári síðan var það eitt af fyrstu verkum hans að stöðva byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Skarðashlíð. Það var gert með þeim rökum að kanna þyrfti að nýju hagkvæmni þeirrar staðsetningar sem ákveðin hafði verið og þverpólitísk sátt var um. Á grundvelli aðkeyptrar ráðgjafar komst meirihlutinn að þeirri niðurstöðu að vænlegasta staðsetning nýs hjúkrunarheimilis væri hvorki í Skarðshlíð né á Sólvangssvæðinu, heldur við Hrafnistu. Á grundvelli þess var bæjarstjóra falið að hefja viðræður við rekstraraðila Hrafnistu um viðbyggingu við hjúkrunharheimilið í stað nýs heimilis á nýjum hugmyndafræðilegum forsendum í Skarðshlíð. Þegar kynna átti niðurstöður þeirra viðræðna, sem þá höfðu staðið yfir í 6 mánuði, var sett fram ný tillaga um að byggja hjúkrunarheimili á Sólvangsreitnum. Á því heila ári sem liðið er frá því að nýr meirihluti tók við hefur því ekkert gerst í byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði og verkefnið aftur komið á byrjunarreit.
Þrátt fyrir að tillagan sé hér til afgreiðslu er mörgum lykilspurningum ósvarað um hvort hún teljist raunhæf út frá hugmyndafræðilegum, skipulagslegum og fjárhagslegum forsendum verkefnisins.
Ekki liggur til að mynda fyrir hvort og þá hvernig nýtt hjúkrunarheimili rúmist innan svæðisins og engin drög að þeirri skipulagsvinnu virðast heldur liggja fyrir. Eingöngu er vísað til gamals deiliskipulags frá árinu 2001 sem gerði ráð fyrir viðbyggingu við Sólvang á þeim tíma sem aðrar og minni kröfur voru gerðar um aðbúnað á hjúkrunarheimilum og viðmið um stærð og ákjósanlegar aðstæður ólíkar þeim sem nú gilda. Þeirri skipulagstillögu hafnaði ríkið á sínum tíma og taldi hana ekki standast þær kröfur sem gerðar væru til hönnunar hjúkrunarheimila samkvæmt nútímakröfum og viðmiðum. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem staðfesta að ráðuneyti velferðarmála hafi nú samþykkt þá breytingu sem felst í viðbyggingu við Sólvang í stað nýs heimilis á grundvelli gildandi viðmiða og ráðlegginga um að byggt skuli á eini hæð þar sem því verði við komið.
Í tillögunni er heldur engum orðum vikið að uppbyggingu á Völlum og áhrifum þess á skipulag á því svæði að hætta við byggingu nýs hjúkrunarheimilis þar, heimili sem nú þegar liggur fyrir hönnun á og hefur gegnt lykilhlutverki í heildstæðu skipulagi og uppbyggingu þjónustu í þeim hluta bæjarins.
Ekkert mat liggur heldur fyrir á fjárhagslegum áhrifum breyttra forsenda á byggingamarkaði og hækkaðs byggingarkostnaðar á þeim tíma sem liðið hefur frá því að nýr meirihluti ákvað að stöðva vinnu við byggingu nýs hjúkrunarheimilis sl. vor og til dagsins í dag. Með þeirri tillögu sem hér er borin fram er gert ráð fyrir að verkefnið tefjist a.m.k um nokkur ár til viðbótar á tímum þar sem byggingaframkvæmdir eru að aukast mjög hratt.
Þrátt fyrir að í hönnunarviðmiðum velferðarráðuneytisins sé sérstaklega mælst til þess að hjúkrunarheimili séu byggð á einni hæð og önnur sveitarfélög hafi í flestum tilvikum fylgt þeim kröfum er með þessari tillögu farið í öfuga átt og komist að þeirri niðurstöðu að sú staðsetning þar sem mestar takmarkanir eru til hönnunar sé ákjósanlegust. Með því er sjónarmið um hugmyndafræði þjónustunnar og þær áherslur sem lagt var upp með um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis gerð að engu.
Með þessari ákvörðun er bæjarstjórn Hafnarfjarðar jafnframt að afsala sér heimild til byggingar hjúkrunarheimilis af sambærilegri stærð og nágrannasveitarfélögin og undirgangast þrengri viðmið sem samþykkt voru á síðasta ári og gera ráð fyrir að einkarými á hjúkrunarheimilum verði umtalsvert minni en hjúkrunarheimilum sem byggð hafa verið í öðrum sveitarfélögum síðustu ár, m.a. í Garðabæ, á Akureyri og í byggingu er á Seltjarnarnesi.
Að lokum vilja bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG árétta að tillagan sem hér er til umræðu var ekki hluti af útsendum gögnum fundar fjölskylduráðs þann 5. júní sl. Ekkert í fundarboði eða dagskrá fundarins gaf til kynna að ræða ætti tillögu um breytta staðsetningu nýs hjúkrunarheimilis. Þvert á móti máttu fulltrúar í fjölskylduráði gera ráð fyrir að þar yrðu kynntar niðurstöður samningaviðræðna bæjarstjóra við rekstraraðila Hrafnistu sem þá höfðu staðið yfir í um hálft ár, án þess að kjörnir fulltrúar væru upplýstir um gang þeirra. Við slíkar aðstæður er bæði eðlilegt og alvanalegt að óskað sé frestunar afgreiðslu, enda ekki hægt að ætlast til þess að fulltrúar bæjarbúa í nefndum og ráðum geti uppfyllt lögboðna skyldu sína til töku upplýstra ákvarðana án þess að fá eðlilegt ráðrúm til að kynna sér forsendur þeirra og gögn. Það að fulltrúar meirihlutans hafi síðan valið að reyna að gera sé pólitískan mat úr þeirri ósk sem augljóslega var bæði réttmæt og sanngjörn, líkt og skrif þeirra í Fjarðarpóstinum eru til vitnis um, dæmir sig sjálft og lýsir litlu öðru en löngu úreltum hugmyndum þeirra um meðferð opinbers valds. Það undirstrikar ennfremur innihaldsleysi yfirlýsinga þeirra um vilja til þess að vinna á grundvelli hugmynda um virkt samráð og samstarf.
Að mati fulltrúa Samfylkingar og VG eru þessi vinnubrögð í hæsta máta óeðlileg og á skjön við þá jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í bæjarstjórn Hafnarfjarðar síðustu ár þar sem markvisst hefur verið unnið að því að auka samráð og samstarf um brýn hagsmunamál."
Að ósk bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar var gert fundarhlé kl. 16:22 til 16:45,
Helga Ingólfsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
"Með ákvörðun fjölskylduráðs um staðsetningu nýs hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum er þetta mikilvæga verkefni lokstins komið af stað eftir áralanga töf. Verkefnastjórn verður skipuð á næstu vikum með fulltrúum allra flokka. Sólvangur verður þannig öldrunarmiðstöð Hafnarfjarðar og verkefnastjórn verður jafnframt falið að skoða samþættingu verkefna í öldrunarþjónustu. Að öðru leyti er vísað í greinargerð með tillögunni hér að ofan."