Grunnskóli, stofnun skóla, nýr skóli, Framsýn
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3433
6. maí, 2016
Annað
Svar

Fulltrúar Samfylkingar og VG lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Þar sem enginn fulltrúa meirihlutans hefur enn viljað gangast við því opinberlega að hafa samþykkt rekstur nýs einkarekins grunnskóla í Hafnarfirði óskum við eftir því að bæjarlögmaður skili bæjarráði greinargerð þar sem farið er yfir ferlið frá upphafi og gerð grein fyrir því hvernig staðið hefur verið að málinu með hliðsjón af grunnskólalögum og reglugerð nr.699 frá 25. júlí 2012.

Greinargerð:
Þann 18. Desember sl. samþykkti fræðsluráð með atkvæðum fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks eftirfarandi:

Fræðsluráð samþykkir fyrir sitt leyti umsókn frá Framsýn skólafélagi ehf. dagsettri 16. september 2014 um stofnun grunnskóla í Hafnarfirði. Samþykktin er bundin því að rekstraraðilar uppfylli öll skilyrði reglugerður nr. 699 frá 25. júlí 2012 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan og hljóti viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. henni. Samþykktin tekur til greiðslu skv. 7. gr. reglugerðarinnar fyrir allt að 45 nemendur í 8.-10. bekk skólaárið 2016-2017, en nemendum fjölgi síðan ár frá ári þar til hámarki verður náð. Fjöldi nemenda og greiðslur sveitarfélagsins verða bundin í þjónustusamningi milli Framsýnar skólafélags ehf. og Hafnarfjarðarbæjar, fáist rekstrarleyfi hjá mennta- og menningarmálaráðherra.

Þrátt fyrir að einn þriggja fulltrúa meirihlutans hafi í framhaldi af fyrrgreindri samþykkt lýst opinberlega yfir andstöðu sinni við verkefnið á þeim forsendum sem þó virðast hafa legið skýrar fyrir við samþykktina, virðist sem væntanlegir rekstraraðilar hins nýja einkarekna skóla líti svo á að hún sé skuldbindandi og feli í sér rétt viðkomandi til fjárframlaga úr bæjarsjóði, m.v. 45 nemendur á haustaönn 2016 og framvegis m.v. 120 nemendur á ári til framtíðar ótímabundið. Miðað við gildandi reglur þar um myndi viðkomandi skóli hafa kröfu um ríflega 150 milljóna króna árlegt framlag úr bæjarsjóði um ótilgreinda framtíð.

Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru til umfjöllunar teljum við mikilvægt að farið sé fyrir ferlið og úr því skorið hvaða þýðingu samþykkt fræðsluráðs frá 18. desember sl. hefur fyrir sveitarfélagið Hafnarfjörð og til hvaða fjárhagslegu skuldbindinga, ef einhverra, fræðsluráð efndi með henni gagnvart þriðja aðila. Í því sambandi er vert að benda á að engin formleg umfjöllun hefur enn farið fram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um málið, né hefur bæjarstjórn gert um það sérstaka samþykkt.