Gunnar Axel Axelsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fram fari óháð stjórnsýsluúttekt sem hafi þann tilgang að skýra stjórnsýslustöðu Hafnarfjarðarhafnar. Áhersla verði lögð á að skýra valdsvið hafnarstjórnar og hafnarstjóra með hliðsjón af gildandi hafnarreglugerð og lögum og svara þeirri spurningu hvort hvort stjórnarmenn í hafnarstjórn eða meirihluti hafnarstjórnar hafi í einhverjum tilvikum umboð til þess að hlutast til um málefni einstakra starfsmanna.
Í úttektinni verði einnig lögð sérstök áhersla á nýlegar breytingar sem gerðar hafa verið í rekstri Hafnarfjarðahafnar, það skýrt hvernig staðið var að undirbúningi þeirra og hvernig kynning á efni þeirra og tilgangi fyrir hafnarstjórn var háttað. Sannreynt verði að breytingarnar samræmist gildandi hafnarreglugerð og hafnarlögum.
Bæjarráð geri tillögu um nefnd tveggja óháðra sérfræðinga til að sinna úttektinni og skila bæjarstjórn niðurstöðu fyrir lok maí á þessu ári."
Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson kom að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari.
Unnur Lára Bryde tók þá til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
"Bæjarstjórn samþykkir að fram fari úttekt á stjórnsýslu, fjármálum og rekstri Hafnarfjarðarhafnar sl. tíu ár. Úttektin verði víðtækari á hafnarsjóði en áform voru um í áður samþykktri rekstrarúttekt á stofnunum Hafnarfjarðarbæjar. Niðurstöður verði hafðar til hliðsjónar við mótun framtíðarstefnu í málefnum hafnarinnar þar sem m.a. er horft til hagkvæmniþátta, hugsanlegra samlegðaráhrifa við hafnir á Faxaflóasvæðinu, vaxtarmöguleika og bættrar þjónustu við viðskiptavini."
Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari við ræðu Unnar Láru Bryde, Unnur Lára Bryde svaraði andsvari, Gunnar Axel Axelsson koma að andsvari öðru sinni, Unnur Lára Bryde svaraði andsvari öðru sinni.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók síðan til máls, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari við ræðu Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari.
Gert var stutt fundarhlé.
Gunnar Axel Axelsson kvaddi sér hljóðs vegna fundarskapa sem og Kristinn Andersen og Gunnar Axel Axelsson aftur, einnig Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi framkomna tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með 7 atkvæðum gegn 4.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framkomna tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar með 7 atkvæðum og hjásetu 4 fulltrúa.
Gunnar Axel Axelsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lýsa vonbrigðum sínum með að fulltrúar meirihlutans skuli ekki samþykkja þá tillögu sem lá fyrir fundinum og fjallar um úttekt á stjórnsýslulegri stöðu Hafnarfjarðarhafnar, heldur telji það augljóslega brýnna að skoða stöðu hafnarinnar eins og hún var fyrir 10 árum í stað þess að skýra stöðu hennar eins og hún er í dag. Með tillögu fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks, sem kynnt var í fyrsta skipti á fundinum, eru lagðar áherslur á atriði sem nú þegar eru til skoðunar sbr. yfirstandandi rekstrarúttekt og afgreiðslu Hafnarstjórnar frá 27. febrúar sl., þar sem tekið var fyrir erindi frá Faxaflóahöfnum og rætt um vinnu við mótun stefnu í hafnarmálum á suðvesturhorni landsins. Sú vinna hefur staðið yfir með þátttöku fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og eðlilegt að áfram sé unnið á þeim grunni.
Í ljósi þess umræðuleysis sem hefur verið í bæjarstjórn í dag þar sem fulltrúar meirihlutans hafa vikist undan því að svara spurningum um rekstur Hafnarfjarðarhafnar á þeim grundvelli að ekki hafi komið fram skirflegar fyrirspurnir leggjum við hér fram eftirfarandi spurningar sem við óskum eftir að bæjarstjóri, og eftir atvikum hafnarstjóri, taki saman svör við eftirfarandi spurningum fyrir næsta fund bæjarráðs.
1. Er það rétt sem komið hefur fram í fjölmiðlum að kjörnir fulltrúar í hafnarstjórn hafi sent starfsmanni Hafnarfjarðarhafnar bréf sem innihélt tilkynningu um fyrirhugaða áminningu?
2. Ef svo er, á grundvelli hvaða heimildar í lögum og hafnarreglugerð gerðu fulltrúarnir það?
3. Tók bæjarstjóri þátt í undirbúningi málsins?
4. Tók hafnarstjóri þátt í undirbúningi málsins?
5. Telur bæjarstjóri það samrýmast gildandi hafnarreglugerð og hafnarlögum að bæjarstjóri hafi frumkvæði að rannsókn og hlutist til um málefni starfsmanna hafnarfjarðarhafnar?
6. Í bókun oddvita Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði kemur fram að hafnarstjórn hafi notið liðsinnis lögfræðiráðgjafar af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með hvaða hætti var sú ráðgjöf og að hvaða leiti komu lögfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga að því að vinna að undirbúningi fyrirhugaðrar áminningar?
7. Hefur ráðgjafafyrirtækið R3 sem hefur veitt bæjarstjóra ráðgjöf í tengslum við yfirstandi rekstrarúttekt tekið viðtöl við starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar? Ef svo er, hvar hafa viðtölin farið fram?
8. Hefur ráðgjafafyrirtækið R3 sem hefur veitt bæjarstjóra ráðgjöf í tengslum við yfirstandi rekstrarúttekt eitthvað komið að málefnum Hafnarfjarðarhafnar, t.d. með viðtölum við starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar?
9. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á rekstri Hafnarfjarðarhafnar á undanförnum mánuðum, hver er tilgangur þeirra og hvernig hefur verið staðið að ákvörðunum um þær?
10. Var fulltrúum í hafnarstjórn kynntir kostir og gallar nýs fyrirkomulags við framkvæmd bókhalds og reikningsskila áður en ákvörðun þar að lútandi var tekin og breytingarnar gerðar?
11. Var gerður þjónustusamningur milli Hafnarfjarðarbæjar og Hafnarfjarðarhafnar vegna þeirra rekstrarþátta sem Hafnarfjarðarbær sinnir nú fyrir Hafnarfjarðarhöfn?
12. Hafa breytingar á verklagi varðandi bókhaldskerfi, launakerfi og tímaskráningarkerfi vegna Hafnarfjarðarhafnar orðið til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar fái greidd laun, reikningar gefnir út og reikningar greiddir frá kennitölu Hafnarfjarðarbæjar í stað Hafnarfjarðarhafnar ?"
Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson kvaddi sér hljóðs, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari, bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson svaraði andsvari, Gunnar Axel Axelsson koma einnig að andsvari við ræðu bæjarstjóra Haraldar L. Haraldssonar.
Gert var stutt fundarhlé.
Einar Birki Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
"Bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar árétta að samþykkt tillaga tekur til sömu þátta og framkomin tillaga samfylkingar og Vinstri Grænna en gengur auk þess lengra."