Iðnskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn, sameining
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3426
11. febrúar, 2016
Annað
Fyrirspurn
Skipan fulltrúa í hóp
Svar

Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til eftirfarandi:

Bæjarráð áréttar að aðkoma Hafnarfjarðarbæjar að stjórn og fjármögnun Iðnskólans í Hafnarfirði grundvallaðist á því að um væri að ræða opinberan framhaldsskóla. Um aðkomu sveitarfélaga að slíkum skólum er kveðið í lögum um framhaldsskóla. Ráðherra hefur tekið einhliða ákvörðun um niðurlagningu skólans og hefur fengið einkafyrirtæki framkvæmd þeirra verkefna sem hann hafði með höndum. Ekkert samráð var haft við sveitarfélagið um þá ákvörðun, fyrir utan samráð við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem tók þátt í undirbúningi málsins.

Þrátt fyrir að Iðnskólinn sé ekki lengur stafandi hefur Tækniskólinn ehf. sent Hafnarfjarðarbæ reikninga vegna húsaleigu og þannig krafist þátttöku sveitarfélagsins í fjármögnun hennar. Mikilvægt er að bæjarráð árétti að Iðnskólinn sé ekki lengur starfandi sem opinber framhaldsskóli og engin skilyrði séu til staðar sem réttlæti þátttöku sveitarfélagsins í rekstrarkostnaði Tækniskólans.

Í ljósi framangreinds er sömuleiðis ástæðulaust að skipa kjörna fulltrúa í nefnd ráðherra til að ræða húsnæðismál Tækniskólans. Eðlilegt er að bæjarstjóri sinni þeim samskiptum við embætissmenn ráðuneytisins fyrir hönd bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.

Fundarhlé var gert kl. 11.
Fundi fram haldið kl. 11:35.

Tillaga er felld.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:

Bæjarráð áréttar að aðkoma Hafnarfjarðarbæjar að stjórn og fjármögnun Iðnskólans í Hafnarfirði grundvallaðist á því að um væri að ræða opinberan framhaldsskóla. Um aðkomu sveitarfélaga að slíkum skólum er kveðið í lögum um framhaldsskóla. Menntamálaráðneytið tók ákvörðun um niðurlagningu skólans, án samráðs við sveitarfélagið, og hefur fengið einkahlutafélag í framkvæmd þeirra verkefna sem hann hafði með höndum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara í viðræður við menntamálaráðuneytið um fyrirkomulag verknáms og aðkomu bæjarins að þeirri starfsemi. Áréttað er að Iðnskólinn er ekki lengur starfandi sem opinber framhaldsskóli og því þarf að fá niðurstöðu í hvort og þá hver þátttaka sveitarfélagsins eigi að vera í rekstrarkostnaði Tækniskólans.

Fundarhlé gert kl. 11:40.
Fundi fram haldið kl. 11:45.

Tillagan samþykkt með atkvæðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar. Fulltrúar Samfylkingar sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.