Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi tillögur með eftirfarandi hætti:
Tillaga A1:
Bæjarráð samþykkir tillögu A1 samhljóða með 5 atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG lýsa ánægju sinni með að meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafi fallið frá fyrri ákvörðun sinni um umtalsverða hækkun á innritunaraldri leikskóla frá og með næsta hausti líkt og meirihlutinn samþykkti í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram er sú ákvörðun að mestu dregin til baka og verður inntökualdurinn nær því sem hann var haustið 2014 þegar börn fædd í janúar, febrúar og fram í mars 2013 fengu úthlutað leikskólaplássi í Hafnarfirði.
Fulltrúar minnihlutans hafa lagt áherslu á að vegna minni árganga væri svigrúm til raunverulegrar lækkunar innritunaraldurs næsta haust og hafa gert ítrekaðar tillögur þess efnis bæði i fræðsluráði og bæjarstjórn. Fyrir liggur að laus leikskólapláss eru um 30-40 talsins þegar börn fædd í janúar og febrúar hafa verið innrituð. Afgreiðslu tillagna minnihlutans hefur ýmist verið frestað eða vísað til umsagnar í starfshópum án þess að hljóta eðlilega og lýðræðislega umfjöllun í bæjarstjórn."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar benda á að samþykkt þessa nýja fyrirkomulags felur í sér varanlega lækkun á inntökualdri í hafnfirska leikskóla sem áður gat verið tilviljunum háð. Fram að þessu hefur innritun barna undir tveggja ára aldri verið frávik en ekki regla. Héðan í frá búa foreldrar við vissu um rétt barna sinna. Þetta er fyrsta formlega skrefið sem tekið er í þá átt að lækka innritunaraldur niður fyrir 2 ár, sem staðfestir styttingu hins óbrúaða bils milli fæðingarorlofs og leikskóla ekki síst í ljósi þess að verið er að auka niðurgreiðslur í dagforeldrakerfið. Ef svigrúm hefði verið fyrir hendi til að nýta enn fleiri pláss í haust hefði það verið gert."
Tillaga A2:
Bæjarráð samþykkir tillögu A2 samhljóða með 5 atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG gera athugasemd við að ekki liggi fyrir með hvaða hætti eigi að tryggja að aukin niðurgreiðsla skili sér til foreldra.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks taka undir þá skoðun að rammi utan um dagforeldrakerfið sem hingað til hefur verið í gildi hafi ekki veitt tryggingu fyrir því að niðurgreiðslan skili sér til foreldra og áréttar að vinna við breytingar þar á hefur verið sett í farveg á þessu kjörtímabili."
Tillaga A3:
Bæjarráð samþykkir tillögu A3 með 5 atkvæðum.
Tillaga A4:
Bæjarráð samþykkir tillögu A4 með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
"Tillaga um gjaldfrjálsan leikskóla er fullkomlega órökstudd og án þess að fyrir liggi nokkuð um möguleg áhrif hennar m.a. á mismunandi tekjuhópa foreldra. Í tillögunni felst að sex klukkustundir verði gjaldfrjálsir en foreldrar sem vinna fullan vinnudag þurfi eftir sem áður að greiða óbreytt leikskólagjöld. Margt bendir því til að tillögunni sé fyrst og fremst ætlað að draga úr gjöldum hjá afmörkuðum hópi þeirra sem hæstar tekjur hefur. Ekkert virðist heldur hafa verið kannað hvaða áhrif slíkt fyrirkomulag getur haft m.a. á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ef raunverulegur vilji er til að draga úr leikskólagjöldum eða afnema þau með öllu er eðlilegra að það sé gert með tilliti til aðstæðna meirihluta foreldra og með almennum lækkunum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG telja tillöguna ekki tæka til afgreiðslu og aðeins enn eitt dæmið um fullkomlega óboðleg vinnubrögð meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Í tillögunni felst að undirbúin verði tilraun um gjaldfrjálsan leikskóla í 1-2 leikskólum bæjarins til þess m.a. að kanna möguleg áhrif hennar á mismunandi tekjuhópa foreldra.
Á seinasta kjörtímabili voru gjöld fyrir tíma umfram átta klukkustunda leikskóladvöl hækkuð verulega, m.a. til að stytta leikskóladag barna. Þessi tilraun getur miðað að því sama án þess að hækka álögur á íbúa og barnafjölskyldur."
Tillaga B:
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi breytingartillögu:
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að ef næg leikskólapláss eru laus til ráðstöfunar svo hægt sé að mæta óskum foreldra barna fæddum í mars og apríl 2014, þá verði þeim plássum úthlutað frá og með september 2015.
Greinargerð:
Engin rök liggja fyrir um hvers vegna laus pláss ættu að vera til staðar í leikskólum Hafnarfjarðar í janúar á næsta ári sem ekki eru til staðar til úthlutunar í dag. Ef plássin eru laus nú þegar teljum við eðlilegt að þau séu nýtt í þágu foreldra og barna og þannig komið betur til móts við þarfir þeirra og óskir.
Bæjarráð felldi framkomna breytingartillögu með 3 atkvæðum gegn 2.
Bæjarráð samþykkir tillöguna með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Það væri óskandi að fjárhagur bæjarins leyfði framkvæmd þessarar tillögu. Fulltrúar minnihlutans vita betur."
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
"Það liggur fyrir að plássin eru til staðar til að taka inn börn fædd í mars og hluta þeirra barna sem eru fædd í apríl 2014. Engin gögn liggja fyrir sem styðja við þá fullyrðingu fulltrúa meirihlutans að umtalsverður sparnaður náist fram með því að nýta þau ekki heldur láta þau standa óúthlutuð fram til áramóta. Hér er því fyrst og fremst um að ræða ákvörðun sem byggir á pólitískum áherslum meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks og þeirri forgangsröðun sem í þeim endurspeglast."
Fulltrúar Sjálfstæðiflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
"Því fer fjarri að hér sé um pólistíska yfirlýsingu að ræða, heldur er verið að ganga eins lagt og hægt er í átt að lækkun innritunaraldurs."
Tillaga C:
Bæjarráð samþykkir tillögu C með 5 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Samfylkingar og Vg benda á að þessi tillaga er í samræmi við þá framkvæmd sem viðhörfð var við innritun leikskólabarna haustið 2014. Fulltrúar Samfylkingar og VG hafa gert ítrekaðar tillögur um lækkun inntökualdurs án þess að fulltrúar meirihlutans hafi tekið undir þær. Þrátt fyrir að hér sé ekki um slíkt að ræða ítrekum við ánægju okkar með að meirihlutinn hafi með þessu dregið til baka fyrri ákvörðun sína um hækkun innritunaraldurs leikskólabarna sem samþykkt var í desember sl. Fulltrúar Samfylkingar greiða því atkvæði með tillögunni."
Tillaga D:
Bæjarráð samþykkir tillögu D með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.
Gert var fundarhlé kl. 10:25 - 10:52 að ósk fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna.
Gert var fundarhlé að ósk Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar kl. 11:15 - 12:07.
Gert var matarhlé til kl. 12:30
Ólafur Ingi Tómasson vék af fundi kl. 11:50 og mætti Unnur Lára Bryde í hans stað.