Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar samþykkja að vísa þessum lið til umfjöllunar í forsetanefnd.
Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG benda á á á Íslandi eru í gildi sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, sem m.a. kveða á um skyldur sveitarstjórnarmanna og þann rétt sem þeir hafa m.a. til að sinna hlutverki sínu. Hvergi er gert ráð fyrir því í lögum að framkvæmdarstjórar sem ráðnir eru af sveitarstjórnum setji fulltrúum í viðkomandi sveitarstjórn starfsreglur. Þvert á móti er gert ráð fyrir að það verkefni sé í höndum sveitarstjórnarmanna sjálfra.
í upphafi síðasta kjörtímabils samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar sérstakar siðareglur kjörinna fulltrúa sem m.a. fjalla um valdmörk og verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og starfsfólks. Þrátt fyrir að kveðið sé á um það í 29. grein sveitarstjórnarlaga að slíkar reglur skuli samþykkja við upphaf hvers kjörtímabils eða þær eldri staðfestar formlega þá hefur engin slík samþykkt átt sér staðí bæjarstjórn Hafnarfjarðar eftir síðustu kosningar. Sé raunverulegur vilji til þess hjá fulltrúum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að leiðbeina öðrum kjörnum fulltrúum um hlutverk sitt væri mögulega ráð að byrja á þeim stað sem gildandi lög kveða á um að skuli gert og hefja vinnu við endurskoðun siðareglnanna.
Þá er rétt að benda fulltrúum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks á að í gildi eru sérstakar verklagsreglur hjá Hafnarfjarðarbæ um aðgengi bæjarfulltrúa að gögnum. Reglurnar sem samþykktar voru 2. júní 2009 byggja á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og fjalla m.a. um hvernig kjörnir fulltrúar eigi að bera sig að í upplýsingaöflun og samskiptum sínum við stjórnkerfi sveitarfélagsins í þeim tilgangi að geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu. Telji fulltrúar meirihlutans ástæðu til þess að taka þær reglur til endurskoðunar væri eðlilegt að þeir gerðu tillögu þess efnis til bæjarstjórnar eða tækju þær upp til meðferðar í forsetnaefnd.
Þá benda fulltrúar minnihlutans á að í tillögunni sjálfri felst slíkur skortur á skilningi á ólíkum hlutverkum kjörinna fulltrúa og embætissmanna að segja má að hún ein og sér gefi tilefni til sérstakrar skoðunar og umræðu á meðal kjörinna fulltrúa. Sú hugmynd að ætla bæjarstjóra að setja kjörnum fulltrúum reglur af þessu ber að okkar mati vott um fullkomið skilningsleysi á hlutverki kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks lýsa furðu á bókun sem tekur ekki tillit til afgreiðslu dagskrárliðarins.
Tillaga ráðgjafa til bæjarstjórnar hljóðar upp á að fela bæjarstjóra að koma umfjöllun samskiptareglna í farveg en meirihluti bæjarráðs vísar verkefninu til forsetanefndar en ekki bæjarstjóra. Því er þessi bókun minnihlutans rökleysa, sem og sú afstaða að greiða ekki atkvæði með vísun málsins til forsetanefndar frekar en bæjarstjóra.
Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar er endurskoðun siðareglna í farvegi hjá forsetanefnd, þar sem verið er að endurskoða þær reglur frá grunni. Í framhaldi af þeirri vinnu verða nýjar siðareglur samþykktar. Því er vel við hæfi að ræða mögulega gerð samskiptareglna á sama vettvangi, þar sem um skörun getur verið að ræða.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fagna hvers konar viðleitni til að skýra ferla, ákvarðanatöku og vinnulag hjá Hafnarfjarðarbæ og telja slíkt ævinlega jákvætt og til bóta. Skilningur fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks á umræddri tillögu um starfsreglur er sá að hér sé um að ræða ábendingar frá starfsfólki bæjarins sem rétt sé að bæjarfulltrúar taki til sín og ræði með yfirveguðum hætti.
Jafnframt má benda á að Kópavogsbær samþykkti samskiptareglur af þessu tagi árið 2012.
Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG benda á að tillagan er frá upphaf mjög villandi og að því er virðist lítt ígrunduð. Engin kannast við höfundarrétt á tillögunni sem frá upphafi hefur gert ráð fyrir því að bæjarstjóra verði falið að móta samskiptareglur fyrir kjörna fulltrúa.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG fagna aftur á móti þeim upplýsingum sem hér koma fram um að siðareglur bæjarfulltrúa séu til ítarlegrar endurskoðunar í forsetanefnd, sem síðast kom saman til fundar fyrir tæpum níu mánuðum síðan.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Í skýrslu Capacent um úttekt á rekstri Hafnarfjarðarbæjar, sem er að finna á vef Hafnarfjarðarbæjar, sem og í útsendum gögnum fyrir bæjarráðsfund dagsins segir á blaðsíðu 199:
„6. Samskiptareglum verði komið á
Lagt er til að mótaðar verði samskiptareglur milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins. Í viðtölum kom fram að oft væri til staðar óskýr lína á milli þess hvað telja megi hlutverk kjörinna fulltrúa annars vegar og starfsmanna hins vegar, slíkt gæti valdið töfum á afgreiðslu mála og skapað óöryggi á meðal starfsmanna. Kópavogsbær innleiddi slíkar reglur undir lok árs 2012 með ágætis árangri en þar voru markmið meðal annars að skerpa skilin, að skýra hlutverkin og tryggja enn frekar faglega afgreiðslu allra mála.
Samskiptareglur af þessu tagi þarf að semja í nánu samráði við þá sem eiga að nota þær og með það að leiðarljósi að reglurnar styðji fólk í störfum sínum.
Mögulegur ávinningur: Ávinningur felst ekki síst í faglegri stjórnsýslu og aukinni skilvirkni á milli sveitarstjórnar og stjórnsýslu.“
Um endurskoðun siðareglna og fundi forsetanefndar hafa allir oddvitar í bæjarstjórn haft jafna vitneskju og ekkert nýtt sem hér hefur komið fram í þeim efnum.