Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir og leggur til að bæjarstjórn samþykki svohljóðandi bókun:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ítrekar kröfu sína um að farin verði leiguleiðin við endurbætur á „gamla“ Sólvangi ellegar skipt yfir í 85%/15% kostnaðarleiðina. Heilbrigðisráðuneytið hefur samþykkt að 33 ný hjúkrunarrými verði í Hafnarfirði og er sveitarfélagið að leita hagkvæmustu leiða til að koma þeim í notkun sem allra fyrst. Ef ráðuneytið telur fyrrgreindar leiðir við endurbætur ekki færar er óskað eftir því að ráðuneytið komi fram með útfærslu á fjármögnun endurbóta á húsnæði „gamla“ Sólvangs en ljóst er að kostnaður við endurbætur hússins fyrir rýmin 33 er margfalt lægri en ef byggja þyrfti nýtt hjúkrunarheimili frá grunni.
Einnig er lögð áhersla á að heilbrigðisráðuneytið semji við rekstraraðila um rekstur 33 nýrra rýma í „gamla“ Sólvangi.
Er það samþykkt samhljóða og telst ofangreind bókun því bókun bæjarstjórnar.