Bæjarstjóri skýrði frá fundi sínum með starfsmönnum fjölskylduþjónunnar í gær þar sem efni ályktunarinnar var rætt og
farið yfir ferlið framundan við úrvinnslu tillagna ráðgjafa.
Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna taka undir ályktun starfsmanna Fjölskylduþjónustunnar. Með breytingum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar á Fjölskylduþjónustunni er stefnt í voða því góða starfi sem unnið hefur verið þar undanfarin fimm ár. Árið 2011 vann Capacent í nánu samstarfi við starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar að gagngerum breytingum sem samrýmdust þeirri þróun og breytingum sem orðið höfðu á verkefnum Fjölskylduþjónustunnar.
Breytingar meirihluta Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar sem staðið er frammi fyrir nú eru ekki byggðar á faglegum grunni og eru ekki unnar í neinu samstarfi við starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar.
Munu þessar breytingar meirihlutans bitna á þeim íbúum Hafnarfjarðar sem mesta aðstoð þurfa. Gagnrýnivert er einnig að breytingar meirihlutans hafa átt sér stað á sumarleyfistíma starfsmanna, sem hafa í einhverjum tilvikum fengið símtal um að störf þeirra verði lögð niður eða að þeir verði færðir til í starfi. Þannig vinnubrögð geta ekki talist góð vinnubrögð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fagna málefnalegum ábendingum starfsfólks sem eru nauðsynlegt innlegg í þá vinnu sem framundan er við útfærslu umbótatilagna ráðgjafa. Í ljósi mikilvægis þjónustunnar verður meginmarkmiðið að viðhalda öflugri starfsemi félagsþjónustunnar og því er hræðsluáróðri og hrakspám fulltrúa minnihlutans vísað á bug. Ábyrgð bæjarfulltrúa í vinnunni framundan lítur að því að vega saman óumflýjanlega aðlögun að slæmri fjárhagsstöðu og eflingu þjónustu til bæjarbúa. Er skorað á fulltrúa minnihlutans að láta til sín taka í því verkefni.