Lagt fram.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar minnihlutans harma það hvernig staðið hefur verið að uppsögnum starfsmanna í tengslum við skipulagsbreytingar meirihlutans á stjórnsýslu Hafnarfjarðar. Af svörum við spurningum minnihlutans má sjá að meðalaldur þeirra 12 starfsmanna sem sagt hefur verið upp er 55,3 ár og alls sjö starfsmenn eiga einungis 10 ár eða minna í áætluð starfslok ( sé miðað við 70 ár) . Af þessu má sjá að með þessum aðgerðum er vegið að eldra og reynslumeira starfsfólki bæjarins.
Fulltrúar Samfylkingar og VG benda á að í viðbótarskýringu sem fram kemur með svari við fyrirspurninni og því er haldið fram að niðurlagning stöðugilda skili 127 milljón króna sparnaði fyrir bæjarsjóð á ársgrundvelli hefur ekki verið tekið tillit til launakostnaður þeirra nýju embætta sem auglýst hafa verið laus til umsóknar. Það vekur furðu að svo villandi fullyrðingar séu settar fram í formlegu svari við fyrirspurn kjörinna fulltrúa og erfitt að sjá hvaða tilgangi það á að þjóna.
Fulltrúar minnihlutans benda jafnframt á að ef fulltrúar meirihlutans eða bæjarstjóri vilja koma sínum sjónarmmiðum á framfæri hafa þeir til þess sömu heimildir og fulltrúar minnihlutans með framlagningu gagna og bókana. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að þeir blandi þeim inn í formleg svör stjórnsýslunnar við fyrirspurnum annarra kjörinna fulltrúa líkt og hér er gert og önnur dæmi eru um."
Gert var fundarhlé að ósk Samfylkingar og VG kl. 14:20 - 14:35