Bæjarstjóri skýrði frá því að starfsmannamálin væru enn í vinnslu hjá bæjarstjóra, mannauðs- og sviðsstjórum og spurningunum yrði svarað þegar þau væru til lykta leidd.
Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Engin svör voru lögð fram á fundinum við spurningum bæjarfulltrúa til bæjarstjóra. Fulltrúar minnihlutans hafa ekki verið upplýstir um uppsagnirnar, umfang þeirra og framkvæmd, heldur hafa þeir þurft að lesa um þær í fjölmiðlum. Það erfitt að sjá hvernig kjörnir fulltrúar eiga að geta sinnt hlutverki sínu við slíkar aðstæður.
Á fundinum upplýstist að ekki lægi enn fyrir endanlegt umfang uppsagna og fjöldi þeirra sem færðir verða til í starfi. Engin greining liggur heldur fyrir um áætlaðan kostnað vegna breytinganna, m.a. vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti og vegna biðlauna.
Engin svör komu fram um hvers vegna starfsfólki var aðeins tilkynnt munnlega um fyrirhugaðar uppsagnir en ekki með formlegum hætti.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Aðkoma kjörinna fulltrúa að starfsmannamálum takmarkast í samræmi við samþykktir bæjarins við ráðningu bæjarstjóra og aðra starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður. Komið hefur fram á fundinum að bæjarstjóri mun gera kjörnum fulltrúum grein fyrir stöðunni þegar hún liggur endanlega fyrir.