Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Sigurður Þ. Ragnarsson.
Til máls tekur Kristinn Andersen. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.
Einnig tekur til máls Adda María Jóhannesdóttir. Til andsvars kemur Kristinn Andersen og svarar Adda María andsvari. Kemur Kristinn þá öðru sinni til andsvars sem Adda María svarar öðru sinni. Þá kemur Kristinn að stuttri athugasemd og það gerir einnig Adda María.
Kristinn Andersen forseti tekur við fundarstjórn á ný.
Til máls tekur Kristín María Thoroddsen og leggur fram svohljóðandi bókun:
Undirrituð samþykkir með fyrirvara fyrirliggjandi samkomulag um að farið verði í undirbúning framkvæmda á yfirbyggðri knattspyrnuaðstöðu á vallarsvæði.
Fyrirvarinn byggist á því að lögð verði áhersla á að stærð og tegund byggingar á umræddu svæði samræmist þörf og iðkenndafjölda, að framkvæmt sé á sem hagkvæmasta hátt og að fjármunum sé forgangsraðað miðað við fyrirliggjandi þarfagreiningu á útdeilingu fjármagns til framkvæmda í bæjarfélaginu.
Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Adda María tekur næst til máls og leggur fram tillögu um að frestað verði afgreiðslu málsins er tillagan svohljóðandi:
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi frestunartillögu:
Þar sem Skipulagsstofnun hefur, með bréfi dags. 20. desember sl., gert athugasemdir við tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna Ásvalla, leggjum við til að afgreiðslu á samkomulagi um uppbyggingu á Ásvöllum verði frestað þar til þeim athugasemdum hefur verið svarað.
Þar sem umrædd breyting varðar byggingu íbúða sem settar eru í samhengi við uppbyggingu knatthúss á svæðinu er eðlilegt að þetta tvennt sé skoðað samhliða.
Athugasemdir sem Skipulagsstofnun gerir eru m.a. við atriði sem fulltrúar Samfylkingarinnar bentu á við afgreiðslu skipulagstillögunnar í bæjarstjórn þann 18. september 2019. Það er þó ekki síst vegna athugasemda varðandi mikilvægi þess að í tillögunni sé fjallað um möguleg áhrif á friðlýst svæði Ástjarnar sem rétt væri að staldra við.
Frestun á afgreiðslu samkomulagsins um nokkrar vikur ætti ekki að koma niður á áformum um byggingu knatthúss á Ásvöllum enda gerir fjárhagsáætlun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra lögðu fram í desember sl. ekki ráð fyrir neinu fjármagni í verkefnið á árinu. Það ætti því að vera ráðrúm til að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunnar áður en lengra er haldið, eins og stofnunin hefur raunar farið fram á. Við teljum mikilvægt að það sé gert og þannig vandað til verka frá upphafi svo ekki komi til frekari vandkvæða í ferlinu.
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Ber forseti næst upp framkomna tillögu um frestun málsins og er tillagan felld þar sem 5 fulltrúar minnihluta greiða atkvæði með tillögunni en 6 fulltrúar meirihluta greiða atkvæði gegn tillögunni.
Þá ber forseti upp til atkvæða fyrirliggjandi samkomulag og er það samþykkt með 9 atkvæðum en bæjarfulltrúar Samfylingar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
Adda María kemur að svohljóðandi bókun:
Bókun:
Til áréttingar vilja fulltrúar Samfylkingarinnar koma því skýrt á framfæri að beiðni um frestun á afgreiðslu samkomulagsins tengjast athugasemdum sem Skipulagsstofnun hefur gert við aðalskipulagstillögu um uppbyggingu á Ásvöllum en ekki afstöðu gagnvart verkefninu sjálfu.
Eins og skýrt kemur fram í bréfi Skipulagsstofnunar, afgreiðir hún ekki tillöguna til staðfestingar fyrr en brugðist hefur verið við umræddum athugasemdum. Því teljum við rétt og eðlilegt að það sé gert áður en lengra er haldið. Við leggjum enn og aftur áherslu á mikilvægi þess að vanda til verka enda eru þau vinnubrögð sem fulltrúar meirihlutans hafa viðhaft í skipulagsmálum síðustu vikur og mánuði síst til eftirbreytni og einungis til þess fallin að tefja framgang mála. Slík vinnubrögð getum við ekki fallist á og sitjum því hjá við afgreiðsluna.
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson