Fyrirspurn
3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 20.október sl.
Lagt fram tilboð í uppbyggingu knatthúss á Ásvöllum. Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mætir til fundarins.
Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram tillögu um að bæjarráð samþykki að ganga til samninga við lægstbjóðanda í samræmi við fyrirliggjandi framkvæmdaráætlun og að málinu verði vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarráðsmenn Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: "Bæjarráð samþykkir að fresta fyrirliggjandi tillögu um staðfestingu tilboðs um gerð knatthús á Ásvöllum og felur hönnuðum og öðrum hlutaðeigandi aðilum, að yfirfara málið með það í huga, að minnka umfang hússins og leggja fram hönnun að mun ódýrara og einfaldara upphituðu húsi, sem nýtist knattspyrnufólki í bænum. Endurskoðun þessi taki eigi lengri tíma en 2 mánuði og skal við það miðað að nýtt og endurhannað mannvirki megi taka í notkun fyrir árslok 2024 eins og fyrirliggjandi áætlanir gera ráð fyrir."
Gengið til atkvæða um tillögu Samfylkingarinnar og er hún felld þar sem tveir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks greiða atkvæði gegn tillögunni.
Fulltrúar Samfylkingar koma að svohljóðandi bókun:
Það er eindregin skoðun jafnaðarmanna í Hafnarfirði, að þörf sé fyrir knatthús á Ásvöllum, þar sem knattspyrnumenn Hauka og aðrir geti iðkað íþrótt sína í skjóli fyrir veðri og vindum yfir vetrartímann. Samfylkingin sagði hins vegar í kosningabaráttunni í vor, að þyrfti að gæta að hagkvæmni og kostnaðaraðhaldi við þetta mannvirki eins og raunar aðrar nýbyggingar bæjarins. Það er ljóst að heildarkostnaður við knatthúsið mun ekki verða undir 4 milljörðum króna, þegar upp er staðið. Fyrirliggjandi tilboð lægstbjóðanda, verktakans, er 10% yfir kostnaðaráætlun bæjarins. Á sama tíma liggja upplýsingar fyrirliggjandi liggja um það, að unnt er að reisa gott upphitað hús fyrir knattspyrnufólk sem þjónar sama tilgangi fyrir helmingi lægri upphæð, eða um 2 milljarða króna.
Þessu höfum við jafnaðarmenn haldið á lofti í umræðunni, en sitjandi meirihluti skellt við skollaeyrum og ekki viljað endurmeta fyrirliggjandi áform til að unnt verði að ná niður kostnaði. Nú á þessum fundir bæjarráðs freistuðu jafnaðarmenn þess að ná breiðri sátt um verkefnið í þessu skyni, en meirihlutinn hefur felldi tillögu Samfylkingarinnar um endurmat og endurhönnun mannvirkisins með það í huga að ná niður kostnaði um helming.
Það eru vonbrigði.
Fyrir liggur einnig álit Skipulagsstofnunar, þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við málið allt. Þar er kallað eftir minna hús hvað varðar hæð og breidd, sem kæmi mjög til móts við athugasemdir sem komu fram í umhverfismatsferli. Minna hús að ummáli myndi í öllum tilvikum nýtast til æfinga og keppni allra aldurshópa.
Ennfremur er ljóst að fjárhagsgeta bæjarins er lítil varðandi nýjar fjárfestingar, eins nýlegt árshlutauppgjör ber með sér þar sem rekstrarhalli er 1,5 milljarðar króna fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Þetta verkefni hefur verið lengi á dagskrá, en samt hefur ekki borið á tilraunum til að ná niður kostnaði, né heldur að búa í haginn fjárhagslega fyrir þessi miklu fyrirliggjandi útgjöld. Vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessu máli hafa um langan tíma verið óvönduð. Rúmt ár er síðan fyrsta skóflustunga var tekin bæði að knatthúsi á Ásvöllum og reiðhöll Sörla. Þegar kosningaskjálftinn varð meirihlutanum óbærilegur var boðað var til aukafundar í bæjarráði með minnsta mögulega fyrirvara degi fyrir síðustu kosningar til þess að samþykkja útboð í þessi tvö verkefni. Samfylkingin gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans á þeim tíma.
Þessi miklu útgjöld vegna eins mannvirkis eru því alfarið á ábyrgð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
Á hinn bóginn stendur Samfylkingin við fyrri loforð um að reist verði knatthús á Ásvöllum. Með vísan til með vísan ofanverðar bókunar, og fyrri yfirlýsinga flokksins, þá samþykkja bæjarráðsmenn Samfylkingar fyrirliggjandi áform og tímalínu um byggingu hússins.
Er þá gengið til atkvæða um fyrirliggjandi tillögu frá fulltrúum meirihluta og er samþykkt samhljóða að ganga til samninga við lægstbjóðanda í samræmi við fyrirliggjandi framkvæmdaráætlun og málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kmeur að svohljóðandi bókun:
Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lýsa yfir furðu á breyttri afstöðu fulltrúa Samfylkingar frá því á bæjarstjórnarfundi 8. júní síðastliðinn þegar samþykkt var samhljóða að farið yrði í útboð á því húsi sem hér er til umfjöllunar, þá lá skýrt fyrir stærð og umfang hússins og kostnaðaráætlun. Tillaga Samfylkingarinnar sem nú er lögð fram um endurmat og endurhönnun mannvirkisins með það í huga að ná niður kostnaði um helming er því einungis lögð fram til að leggja stein í götu uppbyggingar á Ásvöllum, tefja málið og koma því öllu á byrjunarreit. Ljóst er að hér er verið að samþykkja framkvæmd að upphæð 3,4 milljarða króna og knattspyrnufélagið Haukar afsalaði sér hluta yfirráðasvæði íþróttafélagsins undir íbúðabyggð til stuðnings verkefninu. Sú lóðasala, sem annars hefði ekki komið til, veitti 1,3 milljarða í verkefnið. Beinn hlutur bæjarfélagsins verður því rúmir 2 milljarðar króna sem dreifist á 2-3 ár.