Bæjarráð þakkar ráðuneytinu framkomnar leiðbeiningar varðandi vinnu við framlagningu fjárhagsáætlunar og verða þær framvegis hafðar til hliðsjónar.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram svohljóðandi bókun:
Með bréfi Innanríkisráðuneytisins fæst staðfest að ekki hafi verið staðið rétt að framkvæmd fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar þann 28. október 2015. Af þessu tilefni hefur ráðuneytið séð ástæðu til að árétta hvaða reglum ber að fylgja við undirbúning og afgreiðslu tillagna að fjárhagsáætlunum í sveitarstjórnum. Jafnframt býðst ráðuneytið til þess að leiðbeina sveitarfélaginu um framkvæmdina sé þess óskað.
Á fundi bæjarstjórnar þann 28. október 2015 gerðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna athugasemd við það hversu seint gögn hefðu verið send út fyrir fundinn sem gerði bæjarfulltrúum minnihlutans ókleift að undirbúa sig sem skyldi og gegna þannig þeim skyldum sem þeir eru kjörnir til. Á umræddum fundi bæjarstjórnar lögðu fulltrúar minnihlutans til að afgreiðslu yrði frestað um viku til þess að geta kynnt sér þær tillögur sem lagðar voru fram. Sú tillaga var felld af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar og þannig komið í veg fyrir eðlilega og lýðræðislega umræðu um stefnumótun í málefnum sveitarfélagsins.
Vegna þessara vinnubragða sér Innanríkisráðuneytið ástæðu til þess að skerpa á reglum sem fylgja ber við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Í bréf ráðuneytisins er minnt á að fundarboð skuli berast bæjarfulltrúum eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund og að fundarboði skuli fylgja dagskrá fundarins og önnur þau gögn sem nauðsynleg teljast til að bæjarfulltrúar geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telja mikilvægt að vakin sé athygli á þessari niðurstöðu og réttur fulltrúa til að kynna sér nauðsynleg gögn fyrir fundi bæjarstjórnar sé virtur.
Fundarhlé gert kl. 17:00
Fundi fram haldið kl. 17:20
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks ítreka þakkir fyrir fram komnar leiðbeiningar ráðuneytis. Frestun á fyrri umræðu um fjárhagsáætlun sem minnihlutinn lagði til á fundi bæjarstjórnar þann 28. október 2015 hefði stangast á við ákvæði laga um tímafresti, en fyrri umræða þarf að fara fram fyrir 1. nóvember ár hvert, skv. 62. grein sveitastjórnarlaga.
Fulltrúar meirihlutans harma ávirðingar um tilburði til hindrunar lýðræðislegrar umræðu og benda á að aukaumræða um fjárhagsáætlun fór fram í bæjarstjórn milli fyrri og síðari umræðu árið 2015.