Notendastýrð persónuleg aðstoð NPA
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1850
24. júní, 2020
Annað
Fyrirspurn
Áður á dagskrá bæjarstjórnar 10.júní sl. Afgreiðslu frestað.
7.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 5.júní. Fjölskylduráð samþykkir reglur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og vísar þeim til bæjarstjórnar til staðfestingar. Skýrsla starfshóps um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) er lögð fram og er vísað til bæjarstjórnar til kynningar og umræðu
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað. Fulltrúi Samfylkingarinnar fagnar þeirri góðu og mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið í starfshópnum og tekur undir meginefni skýrslu starfshópsins. Einnig styður hann þau drög að reglum sem starfshópurinn hefur unnið og eru nú komin til afgreiðslu en þó með fyrirvara um 10. gr. reglnanna. Eitt verkefna starfshópsins var að koma með tillögu að tímagjaldi vegna NPA þjónustu sem endurspeglar heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali. Það var einnig lagt fyrir hópinn að samræma tímagjaldið því sem gerist í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum þá er tímagjaldið er hærra í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ og Árborg heldur en í Hafnarfirði. Fulltrúi Samfylkingarinnar minnir á bókun sína á fundi fjölskylduráðs þann 8. apríl sl. þar sem hann lýsti því yfir að hann styddi ekki þá ákvörðun að halda tímagjaldinu óbreyttu. Samfylkingin telur að tímagjaldið þurfi að hækka í kjölfar lífskjarasamninganna og til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Minnt er á að Reykjavík tók þá ákvörðun í september sl. að hækka tímagjald NPA samninga hjá sér í samræmi við þessa útreikninga og var sú hækkun afturvirk til 1. apríl 2019.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks bóka eftirfarandi: Vinnu starfshóps er að mestu lokið og hann hefur skilað af sér skýrslu til Fjölskyldu- og barnamálasviðs ásamt tillögu að breytingum á reglum Hafnarfjarðarbæjar um NPA þjónustuformið. Við yfirferð starfshóps kom í ljós að mikilvægt er að skerpa á verkferlum varðandi skil á gögnum frá umsýsluaðilum en mikilvægi þess er umtalsvert þar sem það tryggir að unnt verði að ganga úr skugga um að notandi fái þá þjónustu sem honum ber samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð(NPA). Yfirferð á tímagjaldi stendur enn yfir þar sem beðið er eftir upplýsingum úr ársuppgjöri samningshafa sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir um mitt ár. Fulltrúar starfshóps leggja áherslu á að tímagjald verði endurskoðað miðað við launaþróun og forsendur kjarasamninga og taki síðan mið af launavísitölu framvegis og hækki um áramót. Þetta er svipað fyrirkomulag og gildir um aðra samninga sem gerðir eru á vegum sveitarfélagsins og gilda til lengri tíma en eins árs. Þetta fyrirkomulag mun auka fyrirsjáanleika og auðvelda áætlanagerð.
Helga Ingólfsdóttir tekur til máls.
Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls.
Adda María Jóhannsdóttir tekur til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.
6. liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 19. júní sl. Athugasemdir frá bæjarfulltrúa Bæjarlistans lagðar fram. Svör við athugasemdum lögð fram.
Fulltrúi bæjarlista þakkar framlögð svör og ítrekar að endanleg drög verði unnin í samráði við fulltrúa notanda.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óska bókað: Starfshópur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hefur skilað skýrslu starfshóps og drög að reglum Hafnarfjarðarbæjar um NPA til fjölskylduráðs sem samþykkti reglurnar þann 12. júní sl. og vísaði til staðfestingar í bæjarstjórn. Framlagðar athugasemdir og hugleiðingar fulltrúa Bæjarlistans sem fram komu á bæjarstjórnarfundi þann 10. júní sl. hefur nú verið svarað og efnislega er ekkert nýtt sem fram kemur þar til viðbótar við yfirferð starfshóps um NPA þjónustuformið.
Svar

Helga Ingólfsdóttir tekur til máls.

Einnig tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur fyrir hönd Samfylkingarinnar:

Tillaga 1
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fjármögnun NPA verði tryggð í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Tímagjaldið verði því sem hér segir:
4.734 kr. fyrir samninga þar sem ekki er aðstoð að nóttu
4.477 kr. fyrir samninga þar sem eru hvíldarvaktir
4.913 kr. fyrir samninga þar sem ekki er hægt að nýta hvíldarvaktir
Bæjarstjórn samþykkir að hækkunin verði afturvirk frá 1. apríl 2019.

Verði tillaga 1 ekki samþykkt leggjum við eftirfarandi tillögu fram:

Tillaga 2
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fjármögnun NPA verði tryggð í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Tímagjaldið verði því sem hér segir:
4.734 kr. fyrir samninga þar sem ekki er aðstoð að nóttu
4.477 kr. fyrir samninga þar sem eru hvíldarvaktir
4.913 kr. fyrir samninga þar sem ekki er hægt að nýta hvíldarvaktir
Bæjarstjórn samþykkir að hækkunin verði afturvirk frá 1. janúar 2020.

Verði tillaga 2 heldur ekki samþykkt leggjum við eftirfarandi tillögu fram:

Tillaga 3
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fjármögnun NPA verði tryggð í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Tímagjaldið verði því sem hér segir:
4.734 kr. fyrir samninga þar sem ekki er aðstoð að nóttu
4.477 kr. fyrir samninga þar sem eru hvíldarvaktir
4.913 kr. fyrir samninga þar sem ekki er hægt að nýta hvíldarvaktir
Bæjarstjórn samþykkir að breytingin taki gildi frá og með síðustu mánaðamótum.

Greinargerð
Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Þjónustan er því skipulögð á forsendum notandans. Eitt meginmarkmið notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar er að fólk með fatlanir geti lifað lífi sínu og haft sömu möguleika og ófatlað fólk.
Erindisbréf starfshóps um notendastýrða persónulega aðstoð var samþykkt í fjölskylduráði í nóvember 2019. Fyrsti fundur hópsins var svo haldinn í byrjun desember 2019. Meginverkefni var að skoða fyrirkomulag NPA, tímagjald, samræmdar reglur, hvernig úthlutun er háttað og eftirfylgni. Einnig átti hópurinn að koma með tillögu að tímagjaldi vegna NPA þjónustu sem skyldi endurspegla heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali og hópnum var gert að leitast við að samræma tímagjald því sem gerist í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.
Þann 3. apríl 2019 undirrituðu heildarsamtök launþegahreyfinga á Íslandi og samtök atvinnulífsins nýja kjarasamninga og aðgerðapakka sem hafa verið nefndir Lífskjarasamningurinn. Hann tók gildi 1. apríl 2019. Í bréfi til sveitarfélaga, dags. 21. júní 2019, frá NPA miðstöðinni er greint frá því að samkomulag hafi náðst á milli miðstöðvarinnar og Eflingar/SGS um að samþykkja nýjar launatöflur sem kveða á um sömu hækkanir og gilda á almennum vinnumarkaði en að beðið sé með aðra þætti kjarasamninga til haustsins. Í bréfinu eru sveitarfélögin krafin um hækkun á mánaðarlegu framlagi sveitarfélags vegna NPA aðstoðarfólks frá 1. apríl 2019. Tekið er fram að þetta sé nauðsynlegt svo NPA notendur geti staðið við kjarasamningsbundnar skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki og að hækkunin sé afturvirk. Í september sl. ákvað Reykjavíkurborg að hækka taxta sína í samræmi við kjarasamningsbundnar hækkanir og var hækkunin afturvirk frá 1. apríl 2019.

Í fyrrnefndu bréfi NPA-miðstöðvarinnar, dags. 21. júní 2019, koma fram uppfærðir útreikningar miðstöðvarinnar á mánaðarlegu framlagi til sólarhringssamninga í NPA með tilliti til nýrra launataflna. Útreikningarnir sýna að samningar sem kveða á um aðstoð allan sólarhringinn, þar sem notandi getur ekki nýtt sér hvíldarinnlagnir, þarf jafnaðarstundin að vera 4.913,04 kr. á klukkustund, eða 3.592.251 kr. heildarframlag á mánuði. Jafnaðarstund samnings sem kveður á um aðstoð allan sólarhringinn hjá notanda sem getur nýtt sér hvíldarvaktir þarf að nema 4.476,54 kr. á klukkustund eða 3.267.877 kr. heildarframlag á mánuði. Jafnaðarstund þar sem ekki er gert ráð fyrir næturvinnu, þ.e. hvorki hvíldarvöktum, né vakandi næturvöktum, þarf að vera 4.733,62 kr. á klukkustund. Eins og áður segir er jafnaðarstundin hjá Hafnarfjarðarbæ núna 4.289 kr. frá og með síðustu áramótum þegar hún var hækkuð úr 4.117 kr. en hækkun var ekki afturvirk. Í minnisblaðinu frá NPA miðstöðinni er minnt á 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 þar er kveðið er á um það að framlag til launakostnaðar í NPA að standa undir launum og launatengdum gjöldum NPA aðstoðarfólks hverju sinni og að framlagið skuli „taka mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni.“ Það er mat NPA miðstöðvarinnar að sveitarfélögunum beri skylda til þess að uppfæra framlög sín til samræmis við ákvæði kjarasamninga eins og þeir eru á hverjum tíma. NPA miðstöðin fór fram á rökstuðning frá sveitarfélögunum ef þau teldu sér ekki skylt að uppfæra framlög sín til samræmis við við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og að þau myndu þá leggja fram eigin útreikninga til staðfestingar á því að framlög þeirra geti staðið undir launum og launatengdum gjöldum NPA aðstoðarfólks í sveitarfélaginu.

Líkt og áður segir þá var það eitt af verkefnum starfshóps um NPA að samræma tímagjaldið við það sem gerist í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Samanburður á því milli sveitarfélaga leiðir í ljós að Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr flestum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt svörum við fyrirspurn Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, sem lögð voru fram á 416. fundi fjölskylduráðs þann 8. maí sl., þá myndu framlög Hafnarfjarðar til NPA samninga hækka um rúmlega 1,4 milljónir á mánaðargrundvelli ef greitt væri eftir útreikningum NPA miðstöðvarinnar. Í sömu svörum kemur fram að ef hækkunin yrði gerð afturvirk til 1. apríl 2019 þá myndi kostnaður af því vera rúmlega 31 milljón króna en ef hækkunin yrðir afturvirk frá áramótum myndi það þýða rúmlega 7 milljón króna kostnað fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Til máls öðru sinni tekur Helga Ingólfsdóttir. Til andsvars kemur Friðþjófur Helgi Karlsson og svarar Helga andsvari. Einnig kemur Guðlaug til andsvars við ræðu Helgu.

Þá tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir.

Forseti ber upp til atkvæða ofangreinda tillögu nr. 1. Er tillagan felld með sex atkvæðum meirihlutans gegn fjórum atkvæðum frá fulltrúum Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

Forseti ber næst upp til atkvæða ofangreinda tillögu nr. 2. Er tillögunni hafnað með sex atkvæðum meirihlutans gegn fjórum atkvæðum frá fulltrúum Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

Forseti ber þá upp til atkvæða ofangreinda tillögu nr. 3. Er tillagan felld með sex atkvæðum meirihlutans gegn fjórum atkvæðum frá fulltrúum Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

Þá ber forseti fyrirliggjandi reglur um notendastýrða persónulega aðstoð upp til atkvæða og eru þær samþykktar með sjö atkvæðum frá fulltrúum meirihlutans og Miðflokksins en fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans greiða atkvæði á móti. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Við endurskoðun reglna um NPA og hvers konar þjónustu við fatlað fólk er mikilvægt að hafa hugfast að gríðarlegur aðstöðumunur er milli aðilanna sem málið varðar. Annars vegar er um stjórnvald að ræða, sem ákveður skilyrði og framkvæmd þjónustunnar og hins vegar einstaklinga sem eru háðir þessu sama stjórnvaldi um lífsgæði sín og aðstæður.
Í nýjum reglum um NPA fyrir Hafnarfjörð er á mörgum stöðum bætt inn ákvæðum um heimild Hafnarfjarðarbæjar til að rifta tafarlaust annað hvort samkomulaginu eða greiðslum á grunni þess (greinar 14, 16, 17 og 23). Vissulega er tíundað að Hafnarfjarðarbær skuli í slíkum tilfellum „tryggja órofna þjónustu“, en þar verður að hafa í huga að hvers konar breyting á þjónustu er gríðarlega stórt inngrip í líf einstaklings. Skyndileg og óumbeðin breyting á persónulegum högum og daglegu lífi er í raun grafalvarlegt áfall með ófyrirséðar afleiðingar.
Fram kemur að reglurnar skuli endurspegla Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Reyndar skortir tilfinnanlega samhljóm milli NPA þjónustu í heild sinni og samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Sú ómstríða er háværust í skýru valdamisvægi aðila, þar sem umsækjandi og notandi þjónustunnar hefur, ef marka má reglurnar, áberandi minna vægi í allri ákvarðanatöku en aðilinn sem bæði setur leikreglurnar og framfylgir þeim.
Andi textans er harkalegur og lítt í samræmi við mannréttindaákvæði og samning SÞ, frekar er eins og sífellt sé verið að búast við misgjörðum og misnotkun sem kalli á harkaleg viðurlög um það hvernig bærinn geti strax og án tafar gripið inn í líf fólks.
Það er jafnframt verulegt umhugsunarefni, miðað við að lög og reglugerð um NPA skyldi sveitarfélög til að setja sér „nánari reglur“ um þjónustuformið, að allar viðbætur í nýjum reglum virki í átt til þrengingar og íþyngingar gagnvart notendum. Af því er rökréttast að draga þá ályktun að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stefni að því að draga úr aðgengi að NPA þjónustu í bæjarfélaginu, þó svo hvorugur flokkurinn hafi sett fram slík markmið opinberlega.
Lögum og reglugerð samkvæmt skal vinna reglur um NPA í samráði við notendur. Í síðustu fundargerð starfshóps um NPA kemur fram að ekki hafi unnist tími til að taka til skoðunar endanlegar athugasemdir frá fulltrúa notenda. Úr þessu hefur ekki verið bætt frá því málið var hér síðast á dagskrá. Umsögn ráðgjafarráðs fatlaðs fólks hefur vissulega verið gerð aðgengileg bæjarfulltrúum og fylgir nú málinu. Hins vegar var fulltrúi ráðgjafarráðsins ekki viðstaddur á fundum fjölskylduráðs þar sem þessar reglur voru samþykktar, þrátt fyrir samþykkt bæjarstjórnar þar um.
Samráðsviljinn er því miður ekki áberandi af hálfu meirihlutans í þessu máli, sem aftur birtist í því að ekki hefur verið hnikað við stafkrók í plagginu sem hér er lagt fram, þrátt fyrir fjölmargar málefnalegar ábendingar og athugasemdir. Vissulega liggja fyrir svör við þeim flestum, en hljómgrunnurinn til samtals er enginn.
Enn stendur til að endurskoða þarfir notenda þjónustunnar tvisvar sinnum á ári, helmingi oftar en reglugerð kveður á um og gert er annars staðar.
Enn á að innkalla ítarlegri greinargerðir mánaðarlega en reglugerð krefst.
Enn er tímafrestur bæjarins til að bregðast við beiðni um NPA þjónustu óskilgreindur, en var áður 3 mánuðir.
Ekki er bætt inn grein um meðferð mála þegar notendur flytja til sveitarfélagsins, þrátt fyrir að svar liggi fyrir um þá málsmeðferð í svörum við fyrirspurnum.
Svör um forgangsröð nýrra samninga vísa til þess að þau fái forgang sem bærinn geti ekki þjónustað öðruvísi. Hvað er þarna orðið um valfrelsi einstaklings til að velja eigin búsetu og þjónustuform? Hvar er samhljómurinn við SSÞRFF?
Mér þykir afar leitt að geta ekki stutt samþykkt nýrra reglna um NPA hjá Hafnarfjarðarbæ, en sé mig knúna til að greiða atkvæði mitt gegn þeim hér í dag.

Einnig kemur Friðþjófur Helgi Karlsson að svohljóðandi bókun ásamt því að taka undir bókun fulltrúa Bæjarlistans:

Bókun NPA samningar
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa vonbrigðum með að ekki hafi náðst samstaða um hækkun á tímagjaldi vegna NPA samninga til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Framlagðar reglur byggja á skýrslu starfshóps sem m.a. átti að koma með tillögu að tímagjaldi og leitast við að það yrði samræmt því sem það er í öðrum nágrannasveitarfélögum okkar. Samkvæmt upplýsingum sem lagðar hafa verið fram í fjölskylduráði er tímagjaldið hér í Hafnarfirði hins vegar hvað lægst á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg ákvað í september 2019 að hækka tímagjald NPA samninga í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar, afturvirkt frá 1. apríl 2019. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa hér lagt fram þrjár tilögur sem miða að því að hækka tímagjald NPA samninga í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar, afturvirkt frá 1. apríl 2019, til vara afturvirkt frá 1. janúar síðastliðnum eða til þrautavara frá síðustu mánaðarmótum. Það er mjög miður að ekki hafi náðst samstaða um neina af þessum tillögum okkar.
Friðþjófur Helgi Karlsson
Sigrún Sverrisdóttir

Jón Ingi Hákonarson tekur þá undir bókun fulltrúa Bæjarlistans.

Þá kemur Helga Ingólfsdóttir að svohljóðandi bókun:

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokk og Framsókn og óháðra

Starfshópur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hefur skilað skýrslu starfshóps og drögum að reglum Hafnarfjarðarbæjar um NPA til fjölskylduráðs, sem samþykkti reglurnar þann 12. júní sl. og vísaði til staðfestingar í bæjarstjórn. Framlagðar athugasemdir og hugleiðingar fulltrúa Bæjarlistans sem fram komu á bæjarstjórnarfundi þann 10. júní sl. hefur nú verið svarað og efnislega er ekkert nýtt sem fram kemur þar til viðbótar við yfirferð starfshóps um NPA þjónustuformið.

Í samræmi við skýrslu starfshóps er áfram unnið að tillögu að breytingum á forsendum tímagjalds sem fyrirhugað er að liggi fyrir þann 1. september og tímagjald mun í framhaldi taka hækkun samkvæmt launavísitölu um áramót.