Helga Ingólfsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir og Árni Rúnar Þorvaldsson taka öll til máls. Þá kemur Helga til andsvars við ræðu Árna Rúnars sem svarar andsvari.
Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls. Einnig Jón Ingi Hákonarson.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu fjölskylduráðs með 7 atkvæðum en fultrúi bæjarlistans greiðir atkvæði á móti og fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Árni Rúnar Þorvaldsson gerir grein fyrir atkvæði sínu.
Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúi Bæjarlistans ítrekar fyrri bókanir sínar í þessu máli, um þær takmarkandi breytingar sem orðið hafa á reglum um NPA í Hafnarfirði.
Varðandi taxtann sem hér er til umfjöllunar, þá er rétt að það komi fram að talnagögn um útreikninga, dæmi um breytingar hjá notendum og samanburð milli sveitarfélaga, svo eitthvað sé nefnt, hafa ekki verið lögð fram að frumkvæði meirihlutans, heldur hafa komið til sem svar við fyrirspurnum frá Bæjarlistanum.
Skýrsla starfshópsins sem vann tillögur að bæði reglum og taxta NPA er afar rýr og nánast ekkert talnaefni þar að finna, né samanburð milli sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt.
Það er gagnrýnivert að upplýsingar í jafnmikilvægu máli og NPA þjónustu liggi ekki fyrir þegar það er tekið til umfjöllunar og bæjarfulltrúum gert að taka afstöðu til tillagna.
Undirrituð vill líka hvetja til þess að í framhaldi þeirra ákvarðana sem nú liggja fyrir verði með virkum hætti fylgst með og tekið þátt í umræðu um þróun þjónustuformsins til framtíðar litið. Má þar nefna starfsumgjörð starfsfólks í þessari þjónustu og einnig það hvernig sú aðferð Hafnarfjarðarbæjar að uppfæra upphæðir taxta um áramót miðað við vísitölu frekar en að fylgja takti kjarasamninga reynist notendum í okkar sveitarfélagi. NPA miðstöðin hefur lagt á það ríka áherslu að taxtar taki breytingum í samræmi við kjarasamninga en ekki með þeim hætti sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Hafnarfirði hefur ákveðið að gera. Vel færi á því að samtali verði haldið áfram um þennan skoðanamun meirihlutans í Hafnarfirði og NPA miðstöðvarinnar. Í öllu falli þarf að fylgjast vel með því hvaða áhrif það hefur á líf og fjárhag notenda að búa við fyrirliggjandi misræmi, þar sem kjarasamningar geta breyst á miðju ári en Hafnarfjörður leiðréttir taxta ekki fyrr en um áramót.
Árni RúnarÞorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:
Um leið og fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að nú sé loks verið að taka ákvörðun um hækkun tímagjalds þá gagnrýnum við hversu langan tíma það hefur tekið meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að taka þessa ákvörðun. Frá því lífskjarasamningarnir voru undirritaðir fyrir rúmu ári síðan er ljóst að þörf hefur verið á því að hækka tímagjaldið vegna NPA samninga. Hafnarfjörður hefur því miður dregið lappirnar með það og það hefur valdið NPA notendum óþægindum. Reykjavíkurborg ákvað sl. haust að hækka tímagjaldið í kjölfar lífskjarasamninganna í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og var sú hækkun afturvirk til 1. apríl 2019. Við bendum einnig á að tímagjaldið er ennþá lægra en í Reykjavík, Reykjanesbæ og Árborg. Við teljum að hækka verði tímagjaldið til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og tímagjaldið verði þá það sama og það er hjá Reykjavíkurborg. Það er ómögulegt að láta fatlað fólk búa við ólíkar aðstæður eftir því í hvaða sveitarfélagi það býr. NPA er mikilvæg grunnþjónusta við fatlað fólk sem mikilvægt er standa vörð um og halda áfram að efla.
Þá kemur Helga Ingólfsdóttir að svohljóðandi bókun:
Í samræmi við lið 1 í fundargerð Fjölskylduráðs frá 22. Júlí sl. um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) í dag lögð
fram til staðfestingar í bæjarstjórn tillaga að breytingum á tímagjaldi þannig að í stað jafnaðargjalds fyrir hverja klukkustund þá verði tímagjald breytilegt eftir stærð samninga. Þannig verði áfram greitt jafnaðargjald fyrir samninga sem eru með 600 klukkustundir eða færri á mánuði en tekið verði upp nýtt fyrirkomulag vegna samninga sem eru með yfir 600 klukkustundir á mánuði. Þannig verði tímagjald samninga með hvíldarvöktum að fjárhæð kr. 4.468,- fyrir hverja klukkustund og samningar án hvíldarvakta verði með tímagjald að fjárhæð kr. 4.903,- Jafnaðargjald vegna samninga sem hafa færri en 600 klukkustundir á mánuði verður eftir hækkun kr. 4.724,-
Tímagjald mun framvegis taka breytingum um áramót í samræmi við launavísitölu og þetta varðar alla samninga sem eru núna 22 talsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra þakka starfshópi um notendastýrða persónulega aðstoð(NPA) fyrir vel unnin störf og árétta mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að þróa þetta mikilvæga þjónustuform fyrir fólk með fötlun sem hentar að stýra sjálft þeirri stoðþjónustu sem viðkomandi þarf á að halda.
Jón Ingi Hákonarson tekur undir bókun fulltrúa bæjarlistans.