Opnunartími sundlauga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3492
3. maí, 2018
Annað
Fyrirspurn
Á fundi bæjarstjórnar 25.apríl sl.var málið á dagskrá.
Fyrir fund bæjarráðs senda fulltrúa minnihlutans eftirfarandi bréf ásamt tillögu:
Fulltrúar minnihlutans ítreka eftirfarandi spurningar sem lagðar voru fram á fundi bæjarstjórnar þann 25. apríl sl. og óska eftir því að skrifleg svör verði lögð fram, helst eigi síðar en fyrir fund bæjarráðs þann 3. maí nk. "Hvers vegna segir í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 að festa eigi í sessi lengdan opnunartíma sundlauga að sumri ef í reynd á að bjóða upp á opnunartíma sumarið 2018 sem er umtalsvert minni en árið 2017?? “Hvers vegna hefur bæjarráð ekki verið upplýst um þær skerðingar á starfskjörum starfsmanna sundlauga sem fyrirhugaðar breytingar á opnunartíma hafa haft í för með sér?" Þá leggja fulltrúar minnihlutans til að sumaropnunartími verði sá sami árið 2018 og hann var árið 2017, þ.e. að ekki verði ráðist í skerðingar á opnunartíma milli ára eins og boðað hefur verið. Þá verði einnig tryggt að starfskjör starfsmanna sundlauga verði varin á meðan nánari skoðun fer fram á allri framkvæmd málsins síðustu mánuði og ný bæjarstjórn hefur fengið tækifæri til að móta nýja stefnu um opnunartíma sundlauga í Hafnarfirði í góðri sátt við gesti lauganna og starfsfólk þeirra. Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og VG Gunnar Axel Axelsson Adda María Jóhannsdóttir Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
Svar

Aðalsteinn Hrafnkelsson forstöðumaður sundlauganna og Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi mættu til fundarins.

Bæjarráð þakkar fyrir upplýsinganar og bendir á að fræðsluráð samþykkti á fundi sínum í gær, 2. maí, að endurskoða nýjan opnunartíma sundlauga um helgar með það að markmiði að bæta að minnsta kosti tveimur klukkustundum við með því að halda áfram að opna Suðurbæjar- og Ásvallalaug kl. 8.00 um helgar. Lengist þá opnunartími sundlauga bæjarins alls um að minnsta kosti 6 klst á viku með þeim breytingum sem áður höfðu verið samþykktar.

Í fjárhagsáætlun 2018 er skýrt kveðið á um nýjan og lengri opnunartíma og er markmiðið að auka þjónustuna við bæjarbúa. Með því að halda í morgunopunartímann í umræddum sundlaugum en falla frá helgaropnun í Sundhöllinni er verið að bregðast við ábendingum fastagesta.

Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskað bókað:

"Það er ánægjulegt að fyrri ákvörðun um skerðingu á opnunartíma sundlauga hafi verið dregin til baka á fundi fræðsluráðs í gær. Spurningu fulltrúa minnihlutans um hvers vegna bæjarráð hafi ekki verið upplýst um málið fyrr er enn ósvarað.
Við munum eftir sem áður fylgja því eftir að opnunartími sundlauga í Hafnarfirði verði lengdur til samræmis við það sem tíðkast í nágrannasveitarfélögunum, enda teljum við að frekari nýting sundlauganna sé einhver sú besta ráðstöfun sem sveitarfélagið geti ráðist í varðandi bætta lýðheilsu fólks á öllum aldri. Við munum sömuleiðis fara fram á að allt þetta ákvarðanatökuferli verði yfirfarið og kjör starfsmanna sundlauga verði varin og eftir atvikum leiðrétt í þeim tilvikum sem þau hafa verið skert í tengslum við þessar aðgerðir.
Þá leggjum við áherslu á að ráðist verði í löngu tímabærar og gagngerar endurbætur á sundlaugum bæjarins."

Adda María Jóhannsdóttir
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
Gunnar Axel Axelsson