Fyrirspurn
Tekið fyrir að nýju, áður frestað á fundi bæjarráðs 30.mars sl.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að vinna að stofnun almenns leigufélags, leggja fram nauðsynlegt stofnfé og hefur kallað eftir samstarfi við sveitarfélögin um uppbyggingu leiguhúsnæðis. Markmið félagsins er m.a. að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga. Ein af forsendum verkefnisins er samþykkt Alþingis á fyrirliggjandi húsnæðisfrumvörpum félags- og húsnæðismálaráðherra. Langur biðlisti er til staðar hjá Hafnarfjarðarbæ eftir félagslegum íbúðum en fjöldi þeirra sem er á biðlista eftir íbúð og er skilgreindur í forgangi er um 200 fjölskyldur. Alls eru um 240 félagslegar íbúðir í Hafnarfirði og fyrirliggjandi er að sérstaklega ungt fólk á í miklum erfiðleikum með að fóta sig á húsnæðismarkaði eins og hann er í dag. Mikilvægt er að leitað sé leiða til þess að breyta því og mæta þeirri þörf sem er til staðar fyrir húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að bæjarstjóra verði falið að óska eftir viðræðum við Alþýðusamband Íslands um þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu og kannað verði hvort samstarfsgrundvöllur sé til staðar með öðrum aðilum, t.d. öðrum frjálsum félagasamtökum og samvinnufélögum um byggingu búseturéttaríbúða. Niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir áður en úthlutun fjölbýlishúsalóða fer fram.