Fulltrúi Samfylkingarinnar bókar:
Þrátt fyrir fögur fyrirheit meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, þá leiðir skýrsla húsnæðisáætlunar í ljós að lítið er um efndir. Samkvæmt miðspánni er gert aðeins ráð fyrir um 152 nýjum íbúðum árið 2022. Það er langt undir væntingum og í engu samræmi við málflutning meirihlutans um íbúðauppbyggingu í Hafnarfirði.
Í áætluninni kemur þó fram sú staðreynd að íbúum fækkaði árið 2021 um 1% og er það í fyrsta skiptið síðan 1939 sem það gerist. Þetta gerist lengst af í góðæri og þegar mikil uppbygging á sér stað í nágrannasveitarfélögunum okkar. Samfylkingin vill lyfta Grettistaki i húsnæðismálum og tryggja eðlilegt framboð íbúðarlóða i Hafnarfirði. Það munu jafnaðarmenn gera að forgangsmáli við stjórn bæjarins eftir kosningarnar 14. maí næstkomandi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Samkvæmt talningu HMS á íbúðum í byggingu voru 236 íbúðir í byggingu í Hafnarfirði í september 2021. Umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðar telur HMS vanmeta fjölda íbúða í byggingu í sveitarfélaginu þar sem fjöldi íbúða á matsstigi 1-5 voru 438 í desember 2021.
Húsnæðisáætlun er mikilvægt verkfæri til að fá mynd af stöðu mála hverju sinni. Bregðast þar við bæði í nútíð og framtíð og tryggja í skipulagi að hægt sé að skipuleggja ný hverfi samhliða þéttingu byggðar. Nú er ljóst að samkvæmt gildandi svæðisskipulagi er Vatnshlíðin eina nýbyggingarsvæði bæjarfélagsins til 2040 og er það nú þegar undir línum. Því er mikilvægt að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði endurskoðað með það fyrir augum.
Núverandi meirihluta er full alvara í því verkefni að tryggja íbúum bæjarfélagsins og framtíðar íbúum fjölbreytt búsetuúrræði og góða blöndu húsnæðis. Það sést vel á þeirri kröftugu uppbygginu sem í gangi er í Skarðshlíð, þeirri uppbyggingu sem hafin er í Hamranesi, samþykktu deiliskipulagi í Áslandi 4 og framkvæmdum á þéttingarreitum víðsvegar um bæinn; Dvergsreit, Hrauntungu, Stekkjarbergi og Hjallabraut.
Við þetta má bæta að sérstök áhersla hefur verið lögð á að tryggja íbúðir fyrir alla í þeirri miklu uppbygginu sem nú er hafin í Hamranesi; uppbyggingu skóla, hjúkrunarheimilis og tengdri þjónustu.