Húsnæðisáætlun
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 740
24. ágúst, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram endurskoðuð húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar. Ráðgjafi KPMG fer yfir áætlunina.
Svar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

Það er ánægjulegt að húsnæðisáætlun liggi nú fyrir. Áætlunin er unnin í góðu samstarfi og byggir hún m.a. á upplýsingum frá bæjarfélaginu sjálfu, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hér er um að ræða mikilvægt verkfæri sem getur gefið raunverulega mynd af stöðu mála hverju sinni. Hún gefur okkur einnig tækifæri til að greina framboð og eftirspurn eftir mismunandi húsnæðisformum og setja okkur áætlun um það hvernig bregðast skuli við í nútíð og framtíð; bæði þegar kemur að skipulagi nýrra hverfa og á framtíðarsvæðum. Því er mikilvægt að áætlunin verði endurskoðuð reglulega og eftir þörfum.

Núverandi meirihluta er full alvara í því verkefni að tryggja íbúum bæjarfélagsins og framtíðar íbúum fjölbreytt búsetuúrræði og góða blöndu húsnæðis. Það má m.a. sjá með því að nefna uppbyggingu Bjargs íbúðafélags á 150 íbúðum í Hamranesi og þau samningsmarkmið sem samþykkt voru fyrir Hraun vestur, Gjótur í bæjarráði þann 17. janúar 2019. Þar koma eftirfarandi markmið m.a. fram:

-Tryggja þarf blandaða byggð, þar sem 15-20% íbúða séu til þeirra sem eru að kaupa/leigja með áherslu á minni og ódýrari íbúðir.
-Lóðarhafar skuldbinda sig að leita eftir samstarfi við félög sem sérhæfa sig í sérstökum búsetaréttaríbúðum og leiguíbúðum.
-Ákveðið hlutfall íbúða verði leiguíbúðir með kaupréttarákvæði, horft verði til þess hóps á leigumarkaði sem ekki kemst í gegnum greiðslumat.
-Tryggt verði að Hafnarfjarðarbær fái kauprétt á allt að 4,5% íbúða á svæðinu undir félagslegt húsnæði.

Við þetta má bæta að sérstök áhersla hefur verið lögð á að tryggja íbúðir fyrir alla í þeirri miklu uppbygginu sem nú er hafin í Hamranesi; uppbyggingu skóla, hjúkrunarheimilis og á tengdri þjónustu.

Fulltrúi Samfylkingarinnar bókar eftirfarandi: Það vekur athygli að í skýrslu um húsnæðisáætlun Hafnarfjarðar er ekki minnst einu orði á þá fólksfækkun sem var á síðasta ári í Hafnarfirði og var í fyrsta skiptið síðan 1939. Þetta gerist lengst af í góðæri og þegar mikil uppbygging á sér stað í nágrannasveitarfélögum okkar. Ekkert lát er á fækkuninni, en samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá fækkaði íbúum um 154 frá 1. des 2020 til 1. ágúst 2021. Það er ljóst að það þarf að lyfta Grettistaki í byggingu íbúða í Hafnarfirði til að snúa við þessari þróun.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans þakka KPMG fyrir vandaða skýrslu.

Hálfu ári fyrir lok kjörtímabils er uppskeran rýr, fáar íbúðir í byggingu og fremur einhæf uppbygging framundan.

Einungis 8% íbúða í Hafnarfirði eru á vegum húsnæðisfélaga eða á leigumarkaði en æskilegt væri að þetta hlutfall væri nær 20%. Það er ekkert í kortunum sem bendir til þess að þetta hlutfalli sé að hækka. Stöðugur húsnæðismarkaður kallar á öflugt framboð af húsnæði á vegum húsnæðisfélaga sem skapar stöðugleika og minnkar sveiflur.

Þá er áhyggjuefni að stór hluti framtíðaruppbyggingar er á jaðri byggðar og illa tengdur við almenningssamgöngur sem mun auka akstur og þar með útblástur gróðurhúsalofttegunda til viðbótar við að auka tafatíma í umferð. Það er neyðarástanda í loftslagsmálum og ekki hyggilegt að framtíðaruppbygging sé til þess að auka vandann frekar en að draga úr honum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

Lyft hefur verið grettistaki í uppbyggingu íbúða hér í Hafnarfirði á yfirstandandi kjörtímabili og má þar helst nefna hundruði íbúða í Hamranesi, þar sem uppbygging er nú þegar hafin, við Hraun vestur-Gjótur, Hjallabraut, Hrauntungu og Flensborgarhöfn svo dæmi séu tekin. Auk þess gengur skipulagsvinna við Ásland 4 mjög vel, en þar er gert ráð fyrir 480 íbúðum - mest megnis sérbýli í bland við lítil fjölbýli. Það kemur spánskt fyrir sjónir að minnihlutinn skuli auk þess sérstaklega telja það áhyggjuefni að stór hluti framtíðaruppbyggingar sé á jaðri byggðar og illa tengdur almenningssamgöngum.

Hraun vestur - Gjótur, er hluti af mjög vænlegu byggingarlandi og var nefnt í upptalningu okkar hér að ofan. Þar er fyrirhuguð byggð, 490 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Aðal- og deiliskipulag liggur fyrir og gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist nú á næstu mánuðum. Þeirri skynsamlegu og kröftugu uppbygginu hefur Samfylkingin, Viðreisn og Bæjarlistinn ítrekað lagst gegn; lagst gegn uppbyggingu á besta stað við samgönguás Borgarlínunnar.

Svona er þetta nú. Allt niðurrifstal Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Bæjarlistans í skipulags- og byggingarráði er á sandi byggt. Staðreyndin er sú að það er bjart framundan hér í Hafnarfirði og íbúum mun fjölga svo um munar á næstu mánuðum og árum annars vegar á þegar byggðum svæðum, sem eru að taka rökréttum breytingum og að þróast í takt við tímann, og hins vegar á nýbyggingarsvæðum sem loks hafa opnast. Allt er þetta í samræmi við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

Fulltrúar Viðreisnar, Bæjarlistans og Samfylkingarinnar bóka eftirfarandi:

Málflutningur meirihlutans er á þann veg undanfarna mánuði er að það sé bjart framundan í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Tölurnar tala sínu máli og því miður er staðreyndin sú að lítið er byggt í Hafnarfirði miðað við nágrannasveitarfélögin og íbúum heldur því miður áfram að fækka í Hafnarfirði.