Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar frá bæjarfulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna:
Bæjarstjórn samþykkir að draga til baka þá fordæmalausu hækkun fasteignaskatta sem samþykkt var í desember sl. og fela bæjarstjóra að útbúa tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun þess efnis.
Greinargerð:
Þann 5. desember 2015 samþykkti meirihluti bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð, fordæmalausa hækkun á fasteignasköttum á íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði um 21,5% fyrir árið 2015. Álagningarstuðull var hækkaður í einu vetfangi úr 0,28% í 0,34%. Aldrei áður í sögu Hafnarfjarðar hafa fasteignaskattar verið hækkaðir jafn mikið á milli ára og raun ber vitni.
Á sama tíma hefur fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkað jafnt og þétt í Hafnarfirði og nemur hækkunin almennt á milli 15-20% á sl. þremur árum, sem veldur almennt beinni tekjuaukningu hjá sveitarfélögum óháð álagningarprósentunni.
Raunhækkun fasteignaskatta á eigendur íbúðahúsnæðis er því veruleg og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði og Björt framtíð hafa með samþykkt sinni skert kaupmátt Hafnfirðinga auk þess sem leigjendur íbúðahúsnæðis hafa tekið við verulegri hækkun á leigu umfram það sem gerst hefur hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, sem almennt hækkuðu ekki skatta með hækkun álagningarprósentu sinni milli ára.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja því til að hækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði verði afturkölluð og álagningarstofn verði 0,28% líkt og árin tvö þar á undan.
Fasteignaskattar verði þegar í stað endurreiknaðir og endurálagt á eigendur íbúðarhúsnæðis. Tekjuskerðingu bæjarsjóðs verði mætt með hagræðingu í yfirstjórn og stjórnsýslu. Þá ber að nefna að í nýlegu fasteignamati vegna ársins 2017 má gera ráð fyrir 6-11% hækkun á höfuðborgarsvæðinu. Tekjuaukning bæjarfélagsins er því alla tíð fyrirsjáanleg með hækkun fasteignamatsins.
Mikilvægt er að á sama tíma og hægt er að ná fram lækkun á þjónustugjöldum Fráveitu og Vatnsveitu vegna minni fjárfestinga eftir mikilvæga uppbyggingar á stofnkerfum á sl. áratug að eigendur fasteigna séu ekki beittir þeim misrétti að njóta ekki að sama skapi þjónustugjaldalækkunar með hækkun á sköttum, sem hafa lögformlega viðmiðun.
Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Kristinn Andersen. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir. Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson.
Tillagan er borin undir atkvæði. Tillaga er felld með 7 atkvæðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna.
Gert fundarhlé kl. 15:45.
Helga Ingólfsdóttir vék af fundi.
Fundi framhaldið kl. 19:05