Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2017 og 2018-2020.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 7 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3445
20. október, 2016
Annað
Fyrirspurn
Umræða vegna tilkynningar um hækkun á mótframlagi til lífeyrissjóðanna Brúar og LSR.
Svar

Bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar harmar að ekki skuli hafa tekist að ná niðurstöðu um nýskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna með gerð samkomulags ríkisins, sveitarfélaga og heildarsamtaka opinberra starfsmanna ásamt breytingum á lögum, samþykktum Brúar og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í stað þess að mæta halla þessara lífeyrissjóða með skuldayfirlýsingum sem kæmu til greiðslu á næstu þrjátíu árum stefnir að óbreyttu í að sveitarfélögin þurfi að standa undir hækkun mótframlaga í þessa lífeyrissjóði um 3,6-4,5%. Viðbótarlaunakostnaður sveitarfélaga vegna þessa á næsta ári nemur um 3,5 ma.kr. Heildarframlög í þessa opinberu lífeyrissjóði munu því með mótframlagi starfsmanna verða 19,1-20,8% af launum. Þessi aukni launakostnaður mun leiða til þess að mörg sveitarfélög neyðast til að draga til baka áform um framkvæmdir og aukna þjónustu á næstu árum og svigrúm þeirra til að standa undir launahækkunum næstu árin verður mjög skert.
Það er einnig umhugsunarefni þegar um fimmtungi launakostnaðar er varið til að standa undir launum starfsmanna eftir starfslok í stað þess að greiða hluta þeirra jafnharðan til starfsmanna og auka þannig samtíma ráðstöfunartekjur þeirra. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk sem með ærnum tilkostnaði þarf að tryggja sér öruggt húsnæði fyrir sig og sína snemma á lífsleiðinni.
Bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar hvetur alþingsmenn, nýja ríkisstjórn og samningsaðila til að taka þetta mál upp aftur sem allra fyrst eftir kosningar og ljúka því fyrir næstu áramót svo ekki þurfi að koma til þeirra hækkunar á mótframlagi í opinbera lífeyrissjóði sem verður að veruleika 1. janúar 2017 að óbreyttu.