Til máls tekur Ingi Tómasson. Einnig tekur Ágúst Bjarni Garðarsson til máls sem og sigurður Þ. Ragnarsson.
Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.
Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:
Sú breytingatillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir að heimila íbúðabyggð í iðnaðarhverfi. Vel getur slíkt gengið ef hverfi eru hugsuð heildstætt með slíku skipulagi. Það á ekki við um þennan reit.
Íbúðir við Norðurhellu 13,15,17 og 19 gætu verið álitlegir kostir. Hins vegar er lega Suðurhellu 12 og 14 önnur. Liggja þær lóðir mun nær Straumsvíkurlínu (raflínu), liggja beinlínis þétt við þær lóðir. Sýnt hefur verið fram á rafsegulsvið við jafn háa spennu og fer um þessar línur (tugþúsundir volta) getur verið heilsuspillandi fyrir þann sem dvelur við slíkar aðstæður langdvölum. Auk þessa rýrir vindgnauður sem frá línunum kemur þegar hvasst er í veðri lífsgæði þeirra sem við slíkar aðstæður búa.
Fulltrúi Miðflokksins hefði því talið sbr. það sem áður kemur fram, æskilegt að lóðirnar Suðurhella 12 og 14 væru ekki í hinu breytta deiliskipulagi.
Vöntun hefur verið á litlum íbúðum þó úrbætur í því séu vissulega innan seilingar. Lóðirnar við Norðurhellu gætu að nokkru hjálpað við að stoppa í það gat. Sökum þess hluta skipulagsins samþykkir fulltrúi Miðflokksins umrædda breytingu á deiliskipulaginu.