Fulltrúar Bæjarlistans, Viðreisnar og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Árið 2016 var endurskipað í eftirlitsnefnd með fjármálum íþrótta- og æskulýðsfélaga, í samhengi við ítarlega endurskoðun á rekstrar- og þjónustusamningum milli bæjarins og félaganna. Ákveðið var að tryggja betur armslengd milli nefndarinnar og samstarfsvettvangs bæjarins og félaganna, með því að falla frá því að skipa fulltrúa frá ÍBH og íþróttafulltrúa bæjarins í eftirlitsnefndina og velja þess í stað inn óháða aðila, en að fyrir nefndinni skyldi fara endurskoðandi bæjarins.
Nýverið var endurskoðandi bæjarins gerð að formanni starfhóps um uppbyggingu á Kaplakrika, hins svokallaða Kaplakrikahóps. Á þeim vettvangi fer fram náið samstarf milli kjörinna fulltrúa, embættismanna bæjarins og fulltrúa frá FH.
Spurt er hvernig þessi skipun í verkefnahóp á vettvangi fjárhagslegra samskipta bæjar og félags fer saman við hlutverk endurskoðanda í eftirlitsnefnd með þeim sama vettvangi.
Jafnframt er gerð athugasemd við það að þessi vending í starfsumhverfi eftirlitsnefndarinnar hafi ekki verið rædd með neinu móti í aðdraganda gerðar rammasamkomulags á vettvangi bæjarstjórnar, enda til þess fallin að grafa undan trúverðugleika og starfsaðstæðum eftirlitsnefndarinnar.