Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun.
Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Undirritaðir fulltrúar óska bókað undir lið í viðauka um að Hafnarfarðarkaupstaður falli frá byggingu knatthús í Kaplakrika.
Minnihluti bæjarstjórnar hefur ákveðið að kæra þessa ákvörðun meirihluta til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, á grunni þess að hún standist ekki 65. grein laganna um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins. Furðu sætir að gera eigi viðauka áður en úrskurður liggur fyrir um lögmæti gjörningsins.
Fram kom við fyrirspurn um stöðu íþróttahússins í Kaplakrika, að það er bókfært á 92 milljón krónur í bókhaldi bæjarins. Er þar væntanlega um að ræða 80% eignarhlut bæjarins í umræddu húsi, sem meirihlutinn virðist nú ætla að láta Hafnarfjörð kaupa aftur af sjálfum sér. Spurningar vekur hvernig þetta bókfærða virði passar við áætlun meirihluta um að greiða 790 milljónir fyrir hús sem bærinn sjálfur hefur skjalfest á mun lægra virði. Annars vegar er þar um að ræða íþróttahúsið sem fyrr greinir og hins vegar eldra verðmat á Risa og Dverg upp á 200 milljónir fyrir 55% hlut í báðum byggingum, samanber kauptilboð Hafnarfjarðarbæjar frá janúar 2017.
Fjárhagsáætlun er gildandi stefna sveitarfélagsins og hana ber að virða. Um hana gilda leikreglur sem fara ber eftir. Í 87. gr. samþykkta bæjarins og 63. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011 er skýrt kveðið á um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun ársins. Þar kemur fram í 2. mgr. að óheimilt sé að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Það að leggja fram viðauka nú, eftir að málið hefur verið keyrt í gegnum bæjarráð og bæjarstjórn með meirihlutavaldi, getur því með engu móti talist merki um góða stjórnsýsluhætti og fer beinlínis gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Fullyrðing í viðauka um að umrædd breyting á fjárhagsáætlun hafi ekki áhrif á rekstur, efnahag eða sjóðsstreymi þarfnast frekari útskýringa. Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn lögðu fram fyrirspurn þess efnis á fundi bæjarstjórnar í gær, þann 15. ágúst 2018. Eðlilegt hefði verið að bíða með frekari ákvarðanir eða vinnu á grundvelli þessarar tillögu þar til þeim fyrirspurnum hefur verið svarað og bæjarfulltrúar hefðu tök á að geta tekið upplýsta og vandaða afstöðu til málsins.
Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir
Fulltrúar Framsóknarflokks og óháðra og fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og komið hefur fram á undanförnum árum eru eignarhlutir í mannvirkjum á Kaplakrika ekki rétt skráðir í öllum tilvikum og hefur verið ljóst um langan tíma að brýnt er að klára þau skipti. Ber þar hæst að ákvæði í samningi Hafnarfjarðarbæjar við FH sem samþykktur var í bæjarstjórn 10. janúar 1989 hefur aldrei verið fullnustað og eignarhlutir því ekki rétt skráðir í bókum bæjarins. Í 7. gr. samningsins segir m.a.: ,,Húsið skal vera sameign Hafnarfjarðarbæjar og FH í hlutföllunum 80-20 til 1. janúar 2005, en að loknum þeim tíma skal FH eignast húsið að fullu og öllu og reka það frá þeim tíma á sína ábyrgð og sinn kostnað.“
Með rammasamkomulaginu við FH sem nú hefur verið samþykkt er verið að taka af skarið og klára eignaskiptasamninga við félagið. Samkvæmt verðmati sem fengið var frá fasteignasala á árinu 2017 stendur mat hússins á verðbilinu 400-500 milljónir króna. Helsta verkefni Kaplakrikahópsins er að klára þessa eignaskipti og sjá til þess að eignir séu rétt skráðar í opinberar bækur eins og eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga hefur hvatt til, nú síðast á fundi sínum í maí sl.
Um er að ræða óháða eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga sem var sett á laggirnar í byrjun árs 2017 og hefur fundað reglulega síðan. Í fundargerð nefndarinnar frá 14.5.2018 segir:
9. 1805293 - Eignaskiptasamningar Hafnarfjarðarbæjar og íþrótta- og tómstundafélaga
Hlutdeild Hafnarfjarðar í sameiginlegum íþróttamannvirkjum íþrótta- og tómstundafélaga er ekki alltaf ljós eða rétt skráð í opinberar bækur.
Íþróttafulltrúi sendir sviðstjórum og bæjarstjóra erindi frá nefndinni vegna þessa og kallar á að þessar eignir séu rétt skráðar og vinni við það hefjist og klárist sem fyrst.
Lögð fram svohljóðandi bókun:
Staðreyndir málsins í opinberum gögnum eru þær að íþróttahúsið er í 80% eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, bókfært á 92 milljónir og að á því hvíla skuldir bæjarins að upphæð samtals 870 milljón króna, gagnvart fjölmörgum lífeyrissjóðum.
Vakin er athygli á því að minnihluti bæjarstjórnar hefur lagt fram fyrirspurn um minnisblað sem gert var á síðasta kjörtímabili um stöðu hins meinta gjafagjörnings frá 1989. Það minnisblað hefur ekki verið lagt fram.
Ljóst er að Hafnarfjörður hefur meðhöndlað þennan eignarhlut sem sína eign frá árinu 2005 jafnt og áður, bæði með viðhaldskostnaði og ekki síður veðsetningu.
Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir
Fulltrúar meirihluta vísa í fyrri bókun sína hér að ofan.