Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2021
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1809
22. ágúst, 2018
Annað
Fyrirspurn
3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 16.ágúst sl. Rósa Steingrímsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs mætti til fundarins.
Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun.
Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: Undirritaðir fulltrúar óska bókað undir lið í viðauka um að Hafnarfarðarkaupstaður falli frá byggingu knatthús í Kaplakrika.
Minnihluti bæjarstjórnar hefur ákveðið að kæra þessa ákvörðun meirihluta til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, á grunni þess að hún standist ekki 65. grein laganna um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins. Furðu sætir að gera eigi viðauka áður en úrskurður liggur fyrir um lögmæti gjörningsins.
Fram kom við fyrirspurn um stöðu íþróttahússins í Kaplakrika, að það er bókfært á 92 milljón krónur í bókhaldi bæjarins. Er þar væntanlega um að ræða 80% eignarhlut bæjarins í umræddu húsi, sem meirihlutinn virðist nú ætla að láta Hafnarfjörð kaupa aftur af sjálfum sér. Spurningar vekur hvernig þetta bókfærða virði passar við áætlun meirihluta um að greiða 790 milljónir fyrir hús sem bærinn sjálfur hefur skjalfest á mun lægra virði. Annars vegar er þar um að ræða íþróttahúsið sem fyrr greinir og hins vegar eldra verðmat á Risa og Dverg upp á 200 milljónir fyrir 55% hlut í báðum byggingum, samanber kauptilboð Hafnarfjarðarbæjar frá janúar 2017. Fjárhagsáætlun er gildandi stefna sveitarfélagsins og hana ber að virða. Um hana gilda leikreglur sem fara ber eftir. Í 87. gr. samþykkta bæjarins og 63. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011 er skýrt kveðið á um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun ársins. Þar kemur fram í 2. mgr. að óheimilt sé að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Það að leggja fram viðauka nú, eftir að málið hefur verið keyrt í gegnum bæjarráð og bæjarstjórn með meirihlutavaldi, getur því með engu móti talist merki um góða stjórnsýsluhætti og fer beinlínis gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Fullyrðing í viðauka um að umrædd breyting á fjárhagsáætlun hafi ekki áhrif á rekstur, efnahag eða sjóðsstreymi þarfnast frekari útskýringa. Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn lögðu fram fyrirspurn þess efnis á fundi bæjarstjórnar í gær, þann 15. ágúst 2018. Eðlilegt hefði verið að bíða með frekari ákvarðanir eða vinnu á grundvelli þessarar tillögu þar til þeim fyrirspurnum hefur verið svarað og bæjarfulltrúar hefðu tök á að geta tekið upplýsta og vandaða afstöðu til málsins.
Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir
Fulltrúar Framsóknarflokks og óháðra og fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: Eins og komið hefur fram á undanförnum árum eru eignarhlutir í mannvirkjum á Kaplakrika ekki rétt skráðir í öllum tilvikum og hefur verið ljóst um langan tíma að brýnt er að klára þau skipti. Ber þar hæst að ákvæði í samningi Hafnarfjarðarbæjar við FH sem samþykktur var í bæjarstjórn 10. janúar 1989 hefur aldrei verið fullnustað og eignarhlutir því ekki rétt skráðir í bókum bæjarins. Í 7. gr. samningsins segir m.a.: ,,Húsið skal vera sameign Hafnarfjarðarbæjar og FH í hlutföllunum 80-20 til 1. janúar 2005, en að loknum þeim tíma skal FH eignast húsið að fullu og öllu og reka það frá þeim tíma á sína ábyrgð og sinn kostnað.“
Með rammasamkomulaginu við FH sem nú hefur verið samþykkt er verið að taka af skarið og klára eignaskiptasamninga við félagið. Samkvæmt verðmati sem fengið var frá fasteignasala á árinu 2017 stendur mat hússins á verðbilinu 400-500 milljónir króna. Helsta verkefni Kaplakrikahópsins er að klára þessa eignaskipti og sjá til þess að eignir séu rétt skráðar í opinberar bækur eins og eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga hefur hvatt til, nú síðast á fundi sínum í maí sl.
Um er að ræða óháða eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga sem var sett á laggirnar í byrjun árs 2017 og hefur fundað reglulega síðan. Í fundargerð nefndarinnar frá 14.5.2018 segir:
9. 1805293 - Eignaskiptasamningar Hafnarfjarðarbæjar og íþrótta- og tómstundafélaga Hlutdeild Hafnarfjarðar í sameiginlegum íþróttamannvirkjum íþrótta- og tómstundafélaga er ekki alltaf ljós eða rétt skráð í opinberar bækur. Íþróttafulltrúi sendir sviðstjórum og bæjarstjóra erindi frá nefndinni vegna þessa og kallar á að þessar eignir séu rétt skráðar og vinni við það hefjist og klárist sem fyrst.
Lögð fram svohljóðandi bókun: Staðreyndir málsins í opinberum gögnum eru þær að íþróttahúsið er í 80% eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, bókfært á 92 milljónir og að á því hvíla skuldir bæjarins að upphæð samtals 870 milljón króna, gagnvart fjölmörgum lífeyrissjóðum. Vakin er athygli á því að minnihluti bæjarstjórnar hefur lagt fram fyrirspurn um minnisblað sem gert var á síðasta kjörtímabili um stöðu hins meinta gjafagjörnings frá 1989. Það minnisblað hefur ekki verið lagt fram. Ljóst er að Hafnarfjörður hefur meðhöndlað þennan eignarhlut sem sína eign frá árinu 2005 jafnt og áður, bæði með viðhaldskostnaði og ekki síður veðsetningu.
Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir
Fulltrúar meirihluta vísa í fyrri bókun sína hér að ofan.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.

Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson. Einnig Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.

Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari.

Adda María tekur til máls öðru sinni.

Til máls öðru sinni tekur Jón Ingi Hákonarson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars. Einnig til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir.

Fundarhlé kl. 19:48.

Fundi framhaldið kl. 20:15.

Bæjarstjórn samþykkir framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra gegn 4 atkvæðum fulltrúa, Viðreisnar, Samfylkingar og Bæjarlistans. Sigurður Þ. Ragnarsson situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Helga Ingólfsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessi viðauki sem hér er lagður fram í dag til samþykktar er að hluta til vegna ákvörðunar sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi hvað varðar breytingu fjárfestingaáætlun vegna byggingar nýs knatthúss. Ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Ég er fylgjandi byggingu nýs knatthúss á athafnasvæði FH að Kaplakrika og tók þátt í undirbúningi þess verkefnis af einhug á síðasta kjörtímabili. Á síðasta kjörtímabili var ennfremur unnið að þeirri stefnumótun að íþróttamannvirki sem Hafnarfjarðarbær samþykkir að byggja verði að öllu jöfnu í 100% eigu sveitarfélagsins. Þetta er í samræmi við þróun í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur saman við og ennfremur í samræmi við breytingar á rekstrarsamningum við íþróttafélög sem gerðir voru á síðasta kjörtímabili. Heilt yfir er markmiðið að tryggja jafnræði milli íþróttagreina og gegnsæi með þá fjármuni sem settir eru í uppbyggingu og rekstur íþrótta- og tómstundafélaga í bænum. Þessari stefnumótun hef ég tekið þátt í og ég byggi afstöðu mína til samþykkts rammasamkomulags við FH á því að ég tel farsælla að vinna áfram í samræmi við þá meginstefnu að fjárfestingar sem ráðist er í vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja verði í umsjón og eigu sveitarfélagsins.


Adda María gerir einnig grein fyrir atkvæði sínu.

Einnig Guðlaug Kristjánsdóttir sem kemur einnig að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista ítreka fyrri bókanir sínar og athugasemdir um málsmeðferð varðandi þá ákvörðun meirihlutans að falla frá byggingu bæjarins á knatthúsi á Kaplakrika og lýsa furðu á því að haldið sé áfram með málið á meðan kæruferli er í gangi.
Bæjarfulltrúarnir fordæma jafnframt þá staðreynd sem fram kom í umræðu um viðaukann hér í dag að bæjarstjóri hafi þegar greitt út 100 milljónir króna úr bæjarsjóði til Fimleikafélags Hafnarfjarðar án þess að fyrir lægi samþykktur viðauki. Slíkur gjörningur er andstæður 2. málsgrein 63. greinar sveitastjórnarlaga og heimildarlaus með öllu og allra síst til marks um ábyrga fjármálastjórn. Einnig stangast hann á við 65. grein, um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins.
Með þessari framgöngu hefur meirihlutinn endanlega bitið höfuðið af skömminni í þessu máli og sýnt af sér fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart sameiginlegum fjármunum Hafnfirðinga.
Þessi gjörningur bæjarstjóra verður kærður til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins til að fá úr því skorið hvort lög hafi verið brotin í starfi.

Fundarhlé kl. 20:20.

Fundi framhaldið kl. 20:36.

Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt rammasamkomulagi Hafnarfjarðarbæjar við Fimleikafélag Hafnarfjarðar er kveðið á um að starfshópur, svokallaður Kaplakrikahópur sem stofnaður hefur verið, muni m.a. hafa fjárhagslegt eftirlit með framkvæmd við byggingu nýs knatthús, og tryggja að greiðslur vegna eignaskiptanna verði inntar af hendi samkvæmt fjárhagsáætlun ársins sem samþykkt var í desember 2017 og eftir því sem framkvæmdum framvindur. Í Kaplakrikahópnum eru meðal annars endurskoðandi bæjarins og lögmaður en bæjarfulltrúar minnihlutans hafa afþakkað þátttöku í hópnum.
Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 voru 200 milljónir króna áætlaðar til uppbyggingar knattspyrnuaðstöðu á Kaplakrika. Í viðauka þessum sem fjármálastjóri lagði fram í bæjarráði í síðustu viku segir að breytingin samkvæmt rammasamkomulaginu hafi engin áhrif á rekstur, fjárhag eða sjóðsstreymi bæjarins.

Rósa Guðbjartsdóttir.