Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.
Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson. Einnig Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.
Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.
Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari.
Adda María tekur til máls öðru sinni.
Til máls öðru sinni tekur Jón Ingi Hákonarson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars. Einnig til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir.
Fundarhlé kl. 19:48.
Fundi framhaldið kl. 20:15.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra gegn 4 atkvæðum fulltrúa, Viðreisnar, Samfylkingar og Bæjarlistans. Sigurður Þ. Ragnarsson situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Helga Ingólfsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi viðauki sem hér er lagður fram í dag til samþykktar er að hluta til vegna ákvörðunar sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi hvað varðar breytingu fjárfestingaáætlun vegna byggingar nýs knatthúss. Ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
Ég er fylgjandi byggingu nýs knatthúss á athafnasvæði FH að Kaplakrika og tók þátt í undirbúningi þess verkefnis af einhug á síðasta kjörtímabili. Á síðasta kjörtímabili var ennfremur unnið að þeirri stefnumótun að íþróttamannvirki sem Hafnarfjarðarbær samþykkir að byggja verði að öllu jöfnu í 100% eigu sveitarfélagsins. Þetta er í samræmi við þróun í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur saman við og ennfremur í samræmi við breytingar á rekstrarsamningum við íþróttafélög sem gerðir voru á síðasta kjörtímabili. Heilt yfir er markmiðið að tryggja jafnræði milli íþróttagreina og gegnsæi með þá fjármuni sem settir eru í uppbyggingu og rekstur íþrótta- og tómstundafélaga í bænum. Þessari stefnumótun hef ég tekið þátt í og ég byggi afstöðu mína til samþykkts rammasamkomulags við FH á því að ég tel farsælla að vinna áfram í samræmi við þá meginstefnu að fjárfestingar sem ráðist er í vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja verði í umsjón og eigu sveitarfélagsins.
Adda María gerir einnig grein fyrir atkvæði sínu.
Einnig Guðlaug Kristjánsdóttir sem kemur einnig að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista ítreka fyrri bókanir sínar og athugasemdir um málsmeðferð varðandi þá ákvörðun meirihlutans að falla frá byggingu bæjarins á knatthúsi á Kaplakrika og lýsa furðu á því að haldið sé áfram með málið á meðan kæruferli er í gangi.
Bæjarfulltrúarnir fordæma jafnframt þá staðreynd sem fram kom í umræðu um viðaukann hér í dag að bæjarstjóri hafi þegar greitt út 100 milljónir króna úr bæjarsjóði til Fimleikafélags Hafnarfjarðar án þess að fyrir lægi samþykktur viðauki. Slíkur gjörningur er andstæður 2. málsgrein 63. greinar sveitastjórnarlaga og heimildarlaus með öllu og allra síst til marks um ábyrga fjármálastjórn. Einnig stangast hann á við 65. grein, um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins.
Með þessari framgöngu hefur meirihlutinn endanlega bitið höfuðið af skömminni í þessu máli og sýnt af sér fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart sameiginlegum fjármunum Hafnfirðinga.
Þessi gjörningur bæjarstjóra verður kærður til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins til að fá úr því skorið hvort lög hafi verið brotin í starfi.
Fundarhlé kl. 20:20.
Fundi framhaldið kl. 20:36.
Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt rammasamkomulagi Hafnarfjarðarbæjar við Fimleikafélag Hafnarfjarðar er kveðið á um að starfshópur, svokallaður Kaplakrikahópur sem stofnaður hefur verið, muni m.a. hafa fjárhagslegt eftirlit með framkvæmd við byggingu nýs knatthús, og tryggja að greiðslur vegna eignaskiptanna verði inntar af hendi samkvæmt fjárhagsáætlun ársins sem samþykkt var í desember 2017 og eftir því sem framkvæmdum framvindur. Í Kaplakrikahópnum eru meðal annars endurskoðandi bæjarins og lögmaður en bæjarfulltrúar minnihlutans hafa afþakkað þátttöku í hópnum.
Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 voru 200 milljónir króna áætlaðar til uppbyggingar knattspyrnuaðstöðu á Kaplakrika. Í viðauka þessum sem fjármálastjóri lagði fram í bæjarráði í síðustu viku segir að breytingin samkvæmt rammasamkomulaginu hafi engin áhrif á rekstur, fjárhag eða sjóðsstreymi bæjarins.
Rósa Guðbjartsdóttir.