Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2021
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1796
6. desember, 2017
Annað
‹ 10
11
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 22.nóv.sl.
Lagt er til við bæjarstjórn að síðari umræða um fjárhagsáætlun fari fram 6. desember nk. í stað 22. nóvember líkt og bæjarstjórn hafði samþykkt á fundi sínum 8. nóvember sl.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 greiddum atkvæðum að síðari umræða um fjárhagsáætlun fari fram 6. desember nk. í stað 22. nóvember líkt og bæjarstjórn hafði samþykkt á fundi sínum 8. nóvember sl.
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 16.nóv. sl. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram tillögu að breytingu á fjárhagsáætlun. (sjá fylgiskjal).
3.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 29.nóv.sl. 3.töluliður: Að hafinn verði undirbúningur á því að setja á fót svokallað ungmennahús í bæjarfélaginu sem yrði staðsett á Suðugötu 14 (gömlu Skattstofunni). Lagt er til að strax verði hafist handa við þarfagreiningu fyrir slíkt hús og í kjölfarið stefnumótunarvinnu fyrir starfsemi þess. Stefnt verði að því að nýtt ungmennahús Hafnarfjarðar taki til starfa haustið 2018 leiði þarfagreining og stefnumótunarvinna til þeirrar niðurstöðu að það sé skynsamleg að ráðast í slíkt verkefni fyrir bæjarfélagið. Lagt er til að í fjárhagsáætlun verði 10.000.000 kr. varið í þetta verkefni. Í því felst ráðning starfsmanns sem heldur utan um verkefnið frá byrjun og kemur því af stað.
Samþykkt að vísa málinu til umfjöllunar og úrvinnslu hjá Ungmennaráði Hafnarfjarðar og fjölskylduráði. Fjárhagslegum þætti tillögunnar er vísað til annarrar umræðu fjárhagsáætlunar 2018 í bæjarstjórn 6. des. nk.
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir tekur til máls.

1. varaforseti Margét Gauja Magnúsdóttir tekur við fundarstjórn.

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir tekur til máls.

Forseti Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir tekur við fundarstjórn.

Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson.

Til máls tekur Einar Birkir Einarsson.

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur Ólafur Ingi Tómasson.

Forseti ber upp tillögu að álagningu fasteignagjalda árið 2018 sbr. fyrirliggjandi tillögu að gjaldskrá 2018. Tillagan samþykkt með 7 greiddum atkvæðum en 4 sitja hjá.

Forseti ber upp fyrirliggjandi tillögu að gjaldskrám 2018. Tillagan samþykkt með 7 greiddum atkvæðum en 4 sitja hjá.

Forseti ber upp breytingartillögu á fjárhagsáætlun vegna rektrarsamings við bjögunarsveitina sem felur í sér viðbót um kr. 2.500.000.- við fjárhagsáætlun. Tillagana samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum og 4 sitja hjá.

Fjárhagsáætlun 2017 svo breytt borinn undir atkvæði. Samþykkt um 7 samhljóða atkvæðum, 4 sitja hjá.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar 2019 til 2021 borin undir atkvæði. Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum og 4 sitja hjá.

Kristinn Andersen kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðiflokks og Bjartrar framtíðar:

Bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar með fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir 2018

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir 2018 ber þess skýr merki að umbætur í fjármálum sveitarfélagsins undanfarin ár eru að skila sér til bæjarbúa. Minnt er á að undanfarið hefur rekstur bæjarfélagsins verið endurskipulagður, þar sem þess var jafnframt gætt að draga ekki úr þjónustu, heldur efla hana enn frekar.
Þjónusta verður efld á hinum ýmsu sviðum sveitarfélagsins, þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Mikil áhersla er á umbætur í leik- og grunnskólum bæjarins, í faglegu starfi, húsnæði og aðbúnaði nemenda og starfsfólks. Árið 2018 verður lögð áhersla á aukna samvinnu fagfólks á fjölskyldu- og fræðslusviði, í þágu barna og ungmenna í sveitarfélaginu, með sérstaka áherslu á forvarnir. Áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun í leik- og grunnskólum með það að markmiði að leysa vanda barna áður en hann verður of stór eða jafnvel illviðráðanlegur. Þetta er gert með líðan og velferð hvers barns að leiðarljósi og til að bregðast við miklu álagi inni í skólastarfinu. Að auki verður unnið að nýrri nálgun í meðferð barnaverndarmála og atvinnutækifærum fyrir fatlaða einstaklinga fjölgað í heimabyggð.
Útsvarsprósenta var lækkuð á síðasta ári og verður óbreytt á komandi ári. Álagningarhlutföll fasteignagjalda eru lækkuð á íbúa og fyrirtæki og gjaldskrár hækka almennt ekki. Þannig eru vistgjöld á leikskólum óbreytt að krónutölu fimmta árið í röð.

Þá er komið til móts við eldri borgara Hafnarfjarðar með því að hækka myndarlega tekjumörk fyrir niðurfellingu fasteignaskatta.

Vel hefur gengið að snúa rekstri sveitarfélagsins við, en áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í lok árs 2017 um 554 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað um 3,4 milljarðar króna, sem er yfir 14% af heildartekjum.

Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og fjárfest verður fyrir eigið fé sveitarfélagsins og söluandvirði lóða.

Framundan er uppbygging á þjónustu á hinum ýmsu sviðum sveitarfélagsins, viðhald á eignum bæjarins verður verulega aukið og fjárfestingar og framkvæmdir verða meiri en í langan tíma, en þar má nefna eftirtalin verkefni:

? Lokið verður við byggingu á nýju hjúkrunarheimili við Sólvang, sem tekið verður í notkun á næsta ári.
? Framkvæmdir eru hafnar á nýjum grunn- leik- og tónlistarskóla í Skarðshlíð, sem fjármagnaðar eru með söluandvirði lóða í hverfinu.
? Fjárfesting verður stóraukin í félagslegu húsnæði til að takast á við brýnan húsnæðisvanda.
? Framkvæmdir við Ásvallabraut og Kaldárselsveg, til að greiða fyrir umferð og auka öryggi, hefjast strax á næsta ári og verður lokið 2019.
? Áætlun um framkvæmdir við kennslu- og íþróttamannvirki í Hafnarfirði til næstu ára verður fylgt eftir.

Sú fjárhagsáætlun sem hér hefur verið samþykkt er til marks um þau umskipti og þá endurreisn sem orðin er í fjármálum og rekstri Hafnarfjarðarbæjar og leggur grunn að grósku og velferð til komandi ára.

Margrét Gauja Magnúsdóttir kemur að eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihluta Samfylkingar og Vinstri grænna:

Fjárhagsætlun sú sem hér hefur verið samþykkt af fulltrúum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gerir ráð fyrir gífurlegum fjárfestingum á næstu fjórum árum.
Geta bæjarins til að ráðast í þær framkvæmdir byggir fyrst og síðast á sölu íbúða- og atvinnulóða sem fjárfest var í á árunum fyrir efnahagshrun og fjármagnað var að stærstu leyti með lántöku. Nú þegar loksins hafa skapast aðstæður í íslensku efnahagslífi til að koma þessum eignum í verð er það ekki lengur á stefnuskrá meirihlutaflokkanna að nýta söluandvirðið til niðurgreiðslu þeirra sömu skulda eins og bæjarbúum var kynnt fyrir síðustu kosningar. Þess í stað eru sett fram loforð um stórfelldar fjárfestingar upp á tugi milljarða, m.a. í nýjum íþróttamannvirkjum. Á sama tíma er ætlunin að fjármagna fjölgun félagslegra íbúða með lántöku.
Tillögur fulltrúa minnihlutans um fjármögnun verkefna sem tilgreind eru í tillögu að endurskoðaðri umhverfis- og auðlindastefnu hlutu ekki hljómgrunn hjá núverandi meirihluta sem taldi nóg að vísa málaflokknum ófjármögnuðum til frekari umræðu á næsta kjörtímabili. Í því sambandi er rétt að benda á að málaflokkurinn hefur í reynd verið ófjármögnuð afgangsstærð hjá meirihlutaflokkunum Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokki það sem af eru þessu kjörtímabili sem nú sér fyrir endann á.
Með framlagði fjárhagsáætlun undirstrikar núverandi meirihluti enn og aftur skort á vilja til að marka skýra stefnu um uppbyggingu í grunnþjónustu bæjarins, m.a. í málefnum leik og grunnskóla. Þrátt fyrir ítrekaðar tillögur minnihlutans um að Hafnarfjarðarbær setji sér skýr markmið um lækkun innritunaraldurs barna á leikskóla líkt og fjölmörg sveitarfélög hafa gert síðustu ár og háværar kröfur hafa verið um frá foreldrum ungra barna hafa meirihlutaflokkarnir í Hafnarfirði haft það á stefnuskrá sinni að efla frekar þjónustu dagforeldra. Við í minnihlutanum lögðum fram tillögu að breytingum á þeirri fjárhagsáætlun sem hér er til afgreiðslu sem m.a. gerðu ráð fyrir því að ráðist yrði í uppbyggingu ungbarnaleikskóla í Hafnarfirði og að bærinn myndi leggja sitt af mörkum til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu. Tillögurnar fengu enga efnislega meðferð í stjórnsýslu bæjarins á milli umræðna og var þeim á endanum vísað frá af fulltrúum meirihlutans.
Í framhaldi af framkominni tillögu um forgangsröðun framkvæmda í íþróttamálum og harðorðuðum athugasemdum frá fulltrúum íþróttafélaganna og foreldra iðkenda um skort á rökstuðningi fyrir röðun framkvæmda lögðum við í minnihlutanum til að fram færi heildstæð greining á þörf fyrir uppbyggingu slíkra innviða innan bæjarfélagsins. Vildum við með því leggja grunn að vandaðri ákvarðanatöku og aukinni sátt um röðun verkefna, með það að leiðarljósi að tryggja jafnræði barna hvað snertir aðgengi að aðstöðu til íþróttaiðkunar óháð búsetu innan svæðisins. Var tillagan m.a. sett fram í ljósi framkominna fullyrðinga hagsmunaaðila um að tillaga í greinargerð með fjárhagsáætlun hafi byggt á takmörkuðum upplýsingum um forsendur samþykktrar forgangsröðunar ÍBH, forgangsröðun sem bæjarstjórn er ætlað að hafa til hliðsjónar við töku ákvarðana um framkvæmdir í málaflokknum. Það eru okkur í minnihlutanum mikil vonbrigði að ekki hafi verið fallist á þessa tillögu að bættri málsmeðferð.
Mikilvægt er að bæjarbúar og allir sem hafa hagsmuni af framgangi einstakra verkefna sem sett eru fram í fjárhagsáætlun í aðdraganda kosninga séu meðvitaðir um þá miklu óvissu sem er um framgang einstakra verkefna sem aðeins eru tilgreind í langtímaáætlun og verða alltaf háð fjölda ytri þátta sem einstaka sveitarfélög hafa lítil eða jafnvel engin áhrif á, s.s. um almenna afkomu sveitarstjórnarstigsins. Það getur því skipt miklu máli í hvaða röð ráðist er í verkefni og eðlilegt að slíkar ákvarðanir fái vandaða og góða meðferð og þannig sé reynt að skapa um þær sem mesta og besta sátt. Af viðbrögðum fulltrúa meirihlutans við tillögum okkar má ljóst vera að ekki sé áhugi á að vinna að ákvarðanatöku á þessu sviði með það fyrir augum.