Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.
1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir tekur við fundarstjórn.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir.
Forseti Guðlaug Kristjánsdóttir tekur við fundarstjórn.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Kristinn Andersen. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir. Bæjarfulltrúi Kristinn Andersen svarar andsvari. Bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir kemur til andsvars öðru sinni. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir. Bæjarfulltrúi Kristinn Andersen svarar andsvari. Bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir kemur til andsvars. Bæjarfulltrúi Kristinn Andersen svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir. Bæjarfulltrúi Kristinn Andersen svarar andsvari öðru sinni.
1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir tekur við fundarstjórn.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir.
Forseti Guðlaug Kristjánsdóttir tekur við fundarstjórn.
Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans fyrir árið 2016 er samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum, 4 sitja hjá.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir 2016, sem nú liggur fyrir, markar tímamót og sýnir að algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri bæjarins.
Sá árangur sem hér hefur náðst í að ná tökum á rekstrinum, byggir fyrst og fremst á faglegum umbótaaðgerðum. Þær miðuðu að því að bæta rekstur og nýta betur sameiginlega fjármuni Hafnfirðinga, jafnframt því að standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins og að efla hana enn frekar. Aðgerðirnar fólust meðal annars í útboðum og endurskilgreiningu verkefna.
Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar hefur styrkst svo um munar milli ára og skuldaviðmið bæjarins er loks komið undir þau 150% mörk sem sveitarfélögum eru sett. Með því losnar Hafnarfjarðarbær undan áralöngu íþyngjandi eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og öðlast aftur fullt fjárhagslegt sjálfræði.
Í fyrsta skipti í um aldarfjórðung hefur bæjarfélagið ekki tekið ný lán og nýframkvæmdir skóla eru gerðar fyrir eigin fé bæjarins. Þessi árangur hefur náðst með samhentri vinnu allra sem að henni hafa komið. Verkefni okkar nú er að tryggja að haldið verði áfram á sömu braut og færa Hafnarfjörð í hóp best stæðu og best reknu sveitarfélaga landsins.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir að atkvæðagreiðsla um ársreikninginn verður endurtekin og er svo gert. Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans fyrir árið 2016 er samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að sjá viðsnúning í rekstri sveitarfélaga á Íslandi, m.a. í Hafnarfirði. Nú þegar sveitarfélög eru að birta ársreikninga fyrir árið 2016 kemur í ljós að staðan hefur batnað mikið og jafnvel mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er margt sem veldur. Auknar atvinnutekjur, m.a. vegna umtalsverðra launahækkana og hærra atvinnustigs hafa leitt til meiri útsvarstekna og lág verðbólga hefur þýtt minni verðbætur. Lóðasala er loksins komin af stað og munu lóðir sem Hafnarfjarðarbær hefur átt tilbúnar síðan fyrir efnahagshrun vonandi seljast fljótt á næstu mánuðum. Í framhaldinu er mikilvægt að hefja frekari uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Hafnarfirði til að stemma stigu við þeim gríðarlega húsnæðisskorti og stighækkandi fasteignaverði sem hefur átt sér stað.
Fasteignamat í Hafnarfirði hefur hækkað mikið síðustu ár sem einnig skilar sér í auknum tekjum bæjarsjóðs. Það er sömuleiðis fagnaðarefni að sjá atvinnuleysi er orðið svipað og það var fyrir hrun á árunum fyrst eftir hrun var það komið vel yfir 10% i Hafnarfirði með gríðarlegum vesti í útgjöldum vegna fjárhagsaðstoðar. Vegna jákvæðrar þróunar á vinnumarkaði hafa þessi útgjöld lækkað mikið, sem og vegna Áfram verkefnisins sem hefur gefið góða raun.
Heilt yfir eru það auknar útsvarstekjur, auknir fasteignaskattar, lægri velferðarútgjöld, lág verðbólga og almennur uppgangur í íslensku efnahagslífi sem skýrir bætta afkomu sveitarfélaga, í Hafnarfirði sem og annars staðar. Stóra myndin er alls staðar eins og áhrifabreyturnar alls staðar þær sömu.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa gagnrýnt aðgerðir meirihlutans síðustu misseri sem hafa m.a. einkennst af varanlegum niðurskurði í grunnþjónustunni. Þar ber hæst lokanir á leikskólum og leikskóladeildum og uppsagnir nokkurra reyndra lykilstarfsmanna ásamt niðurskurði í umhverfis- og forvarnarmálum. Í ljósi þeirrar þróunar sem sem hefur átt sér stað í efnahagsmálum og ytra umhverfi sveitarfélaga almennt er með öllu óskiljanlegt hvaða tilgangi þær aðgerðir áttu að þjóna en afleiðingarnar birtast m.a. í því að Hafnarfjarðarbær stendur nú öðrum sveitarfélögum að baki hvað snertir löngu tímabæra uppbyggingu í viðkomandi málaflokkum, m.a. því brýna verkefni að brúa bilið milli fæðingarorlofs og aðgengi að leikskólum fyrir öll börn á leikskólaaldri innan viðkomandi íbúahverfis.