Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna gera athugasemd við afgreiðslu tillagna og svör við fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram af minnihlutanum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það er lögbundinn réttur kjörinna fulltrúa að leggja fram tillögur og kalla eftir upplýsingum. Það er einnig lögbundin skylda að þær tillögur og fyrirspurnir hljóti eðlilega málsmeðferð og að upplýsingar séu veittar innan eðlilegra tímamarka.
Við ítrekum aftur fyrirspurn okkar um afdrif tillögu um Lýðræðisviku í október. Tillagan var lögð fram í bæjarstjórn í desember 2014. Henni vísað til umfjöllunar í bæjarráði þar sem hún var samþykkt þann 15. janúar 2015. Óskað var eftir upplýsingum um afdrif tillögunnar á fundi bæjarráðs þann 6. apríl sl. Enn er þó með öllu óljóst hvar málið er statt.
Við óskum einnig eftir upplýsingum um afdrif tillögu um stofnun leigufélags sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 29. mars sl. að vísa til bæjarráðs. Þar var tillagan tekin til umfjöllunar þann 6. apríl sl. og bæjarstjóra falið að skoða málið.
Þá köllum við formlega eftir svörum við fyrirspurnum okkar um GN eignir sem lagðar voru fram skriflega í bæjarráði þann 3. nóvember 2016. Við þeim fyrirspurnum hafa enn engin svör borist.
Einnig óskum við eftir formlegum svörum við fyrirspurn sem lögð var fram af áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í bæjarráði 1. desember 2016 varðandi félagslegt húsnæði og biðlista.
Að lokum köllum við eftir endurskoðun á rekstrarsamningum við FM-hús. Bæjarfulltrúar Samfylkingar lögðu til á fundi bæjarráðs þann 1. desember 2016 að fram færi óháð úttekt á einkaframkvæmdasamningum sem gerir voru í Hafnarfirði á árunum 1998-2000. Þeirri tillögu var hafnað en bókað af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að fela bæjarstjóra að vinna áfram að endurskoðun á rekstrarsamningum milli aðila. Við óskum skriflegrar greinargerðar um stöðu og framvindu málsins.