Skipulags- og byggingarráð synjar erindinu og bókar eftirfarandi:
Á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 27. júní sl. var lögð fram fyrirspurn Garðlistar ehf. og Upphafs ehf., dags. 14. júní sl., en nefndir aðilar virðast koma þar fram f.h. Syðra Langholts ehf., um mögulega breytingu á deiliskipulagi Hvaleyrarholts suðaustur vegna lóðarinnar nr. 2 við Lyngbarð, Þorlákstúns. Var lögð fram fyrirspurn um stækkun á byggingarreit fyrir gróðurhús með það að markmiði að auka möguleika á uppbyggingu gróðurhúsaþyrpingar á lóðinni fyrir öfluga grænmetisræktun.
Að mati skipulags- og byggingarráðs verður að skoða beiðni um breytingu á deiliskipulagi með hliðsjón af gildistíma lóðarleigusamningsins lóðarinnar sem hin umrædda breyting á deiliskipulagi tekur til. Lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar nr. 2 við Lyngbarð, Þorlákstún, tók gildi þann 1. október 2005 og gilti einungis í 25 ár. Ekki var sérstaklega gert ráð fyrir framlengingu samningsins. Jafnframt liggur fyrir að af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa verið gerðar verulegar athugasemdir við efndir leigutaka, Syðra-Langholts ehf., á nefndum samningi, sbr. m.a. bréf Hafnarfjarðarbæjar, dags. 14. júní 2016 og bókun bæjarráðs 10. ágúst sl.
Hvað sem síðastgreindu líður vísar skipulags- og byggingaráð til þess að umrædd lóð var eingöngu leigð til takmarkaðs tíma og til afmarkaðar uppbyggingar, sem ekki varð af innan þeirra tímamarka sem ráðgert var upphaflega. Sú verulega breyting á byggingarmagni sem fyrirspurnin tekur til verður ekki talin nú samræmast þeim stutta leigutíma sem eftir er af lóðarleigusamningnum samkvæmt orðum hans. Þegar af þessari ástæðu verður breyting á deiliskipulagi, sem fyrirspurnin tekur til, hvorki talin til samræmis við forsendur hins tilvísaða lóðarleigusamnings né samræmast skipulagslegum hagsmunum sveitarfélagsins til framtíðar með tilliti til skynsamlegrar og hagkvæmrar nýtingar svæðisins.
Af framangreindum ástæðum fellst skipulags- og byggingarráð ekki á beiðni Garðlistar ehf. og Upphafs ehf., f.h. Syðra-Langholts, um að vinna að breytingu á deiliskipulagi Hvaleyrarholts suðaustur og er henni hafnað.