Kaplakriki, framkvæmdir
Kaplakriki
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3499
8. ágúst, 2018
Annað
Svar

Fundarhlé gert kl. 11:20.
Fundi fram haldið kl. 11:25

Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi Samfylkingar og Guðlaug Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans leggja fram svohljóðandi tillögu:
Þegar jafn stór ákvörðun er til lykta leidd er eðlilegt að það sé gert á vettvangi bæjarstjórnar þar sem allir bæjarfulltrúar hafa möguleika á að koma að afgreiðslu málsins. Að öðrum kosti er ekki líklegt að náist sú samstaða sem mikilvæg er þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði. Ég legg því til að málinu verði frestað og tekið fyrir og til lykta leitt á næsta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 22. ágúst næstkomandi.

Tillagan var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Eftirfarandi tillaga lá fyrir fundinum:
"Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir eftirfarandi tillögu: Hafnarfjarðarkaupstaður mun ekki byggja, eiga og reka nýtt knatthús í Kaplakrika líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. FH mun sjálft ráðast í þær framkvæmdir og bera ábyrgð á óvissu og kostnaðaraukningu ef til kemur við byggingu hússins. Til að greiða fyrir framkvæmdinni mun Hafnarfjarðakaupstaður gera rammasamkomulag um kaup á mannvirkjun í Kaplakrika að fjárhæð um 790 milljónir króna og verður greiðsla kaupverðsins háð skilyrðum um framgang og framvindu auk hefðbundinna ákvæða um vanefndir og eftirlit með að skilyrðum verði fylgt. Stofnaður verður sameiginlegur starfshópur um framkvæmd samningsins.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir framlagt rammasamkomulag á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar."

Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta. Fulltrúar minnihluta sátu hjá.

Sigurður Þ. Ragnarsson áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi bæjarstjórnar 10. maí 2017 var eftirfarandi samþykkt: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur til að gengið verði út frá 100% eignarhlut bæjarins í íþróttamannvirkjum sem byggð verða með þátttöku sveitarfélagins í framtíðinni“. Ennfremur kemur eftirfarandi fram í fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021: „Bygging knatthúss hjá FH verður í 100% eign Hafnarfjarðarkaupstaðar og verður framkvæmdin boðin út“.
Það rammasamkomulag sem liggur fyrir fundinum, milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og FH um eignaskipti og framkvæmdir við nýtt knatthús í Kaplakrika gerir ráð fyrir grundvallarbreytingu frá áður samþykktri stefnu um 100% eignarhlutarhlut í íþróttamannvirkjum. Þessi stefnubreyting og þar sem verkefnið er af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, er ótækt að ákvörðun þessa mikilvæga máls verði tekin í bæjarráði en ekki í fullskipaðri bæjarstjórn. Bæjarfulltrúi Miðflokksins telur áríðandi að allir kjörnir bæjarfulltrúar komi að þessari ákvörðun en ekki aðeins þeir bæjarfulltrúar sem sitja í bæjarráði. Er því óskað eftir því að bæjarstjórn verði tafarlaust kölluð saman.

Áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er til umfjöllunar tillaga sem varðar breytingu á gildandi fjárhagsáætlun, sem og samþykkt bæjarstjórnar frá 10. maí 2017. Upphæðir eru stórar og málin hafa verið umdeild og kallað á mikla umræðu bæði meðal kjörinna fulltrúa og bæjarbúa almennt.
Aðdragandi þessarar tillögu er stuttur og er hún borin fram á aukafundi í sumarleyfi bæjarráðs, með stysta löglega fyrirvara.
Bæjarstjórn er einnig í sumarleyfi og bæjarráð því starfandi í umboði hennar. Þetta fyrirbyggir möguleika á að skjóta málinu til opins fundar bæjarstjórnar og þannig tryggja beina aðkomu allra flokka í bæjarstjórn, en einungis 4 af 6 flokkum fara með atkvæði í bæjarráði.
Fulltrúi Bæjarlistans gerir alvarlega athugasemd við þessi vinnubrögð og furðar sig á því að beiðnir um frestun og svigrúm til dýpri umræðu hafi verið hunsaðar.
Fjölmörgum spurningum um framhaldið er ósvarað og undarlegt að ekki skuli hafa verið orðið við málefnalegum óskum minnihluta um frest til að glöggva sig betur á málum.
Ekki liggur formlega ljóst fyrir á fundinum hvernig þessi flýtir er til kominn og fyllsta ástæða til að gera athugasemd við gerræðisleg vinnubrögð af þessu tagi, að kjörnum fulltrúum sé ekki tryggð heimild til að sinna skyldum sínum um upplýsta ákvarðanatöku.
Ekki voru í fundargögnum upplýsingar um gildandi reglur bæjarstjórnar um uppbyggingu íþróttamannvirkja (gildandi samkomulag við ÍBH), sem ekki er heldur að finna á vef bæjarins. Ekki lágu fyrir gögn um verðmat á þeim mannvirkjum sem lagt er til að verði keypt, þrátt fyrir að sett sé fram viðmiðunarupphæð um kaupin.
Umrædd ákvörðun er hluti af mun stærri heild, bæði hvað varðar fjárhagsáætlun og heildaruppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Því er miður að hún hafi með þessum hætti verið tekin út fyrir sviga, bæði hvað varðar heildarstefnumótun og ekki síður hvað varðar aðkomu kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
Miklu skiptir að vinna við uppbyggingu íþróttmannvirkja í bænum sé unnin í sátt, í opnu ferli og með virkri aðkomu allra kjörinna fulltrúa. Undirrituð brýnir fulltrúa meirihlutans til að færa sig aftur inn á þá braut, líkt og gert var á síðasta kjörtímabili.
Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir bókunina.

Fulltrúar meirihluta leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um rammasamkomulag að ræða og á frekari útfærsla málsins eftir að eiga sér stað í ráðum bæjarins, starfshópi um málið og bæjarstjórn á komandi vikum.

Bókanir og gagnbókanir
  • Bæjar-Listi
    Hér er til umfjöllunar tillaga sem varðar breytingu á gildandi fjárhagsáætlun, sem og samþykkt bæjarstjórnar frá 10. maí 2017. Upphæðir eru stórar og málin hafa verið umdeild og kallað á mikla umræðu bæði meðal kjörinna fulltrúa og bæjarbúa almennt.
  • Meirihluti
    Hér er um rammasamkomulag að ræða og á frekari útfærsla málsins eftir að eiga sér stað í ráðum bæjarins, starfshópi um málið og bæjarstjórn á komandi vikum.