Kaplakriki, framkvæmdir
Kaplakriki
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1808
15. ágúst, 2018
Annað
Svar

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Einnig tekur til máls Sigrún Sverrisdóttir og leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:

Þar sem engin gögn lágu fyrir fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þar sem ákvörðun um breytt áform varðandi byggingu knatthúss í Kaplakrika var tekin óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir verðmati og ástandsmati á íþróttamannvirkjum í Kaplakrika þeim er um ræðir í rammasamkomulaginu og til stendur að bærinn kaupi.

Svör við fyrirspurninni liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þar sem ákvörðun var tekin um breytt áform varðandi byggingu knatthúss í Kaplakrika kom fram að niðurstaða í útboði vegna framkvæmdanna hafi verið kærð og kæruferli sé í gangi. Undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar óska eftir upplýsingum um stöðu bæjarins og framkvæmda í Kaplakrika gagnvart þeirri kæru og hvort heimilt sé að fara í innkaupaferli vegna knatthússins áður en kærumálið er útkljáð.

Óskað er eftir að svör liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Adda María Jóhannsdóttir
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigrún Sverrisdóttir

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi bókun:

Undirrituð gerir alvarlega athugsemd við að bæjarfulltrúar og bæjarráð skuli ekki hafa verið upplýst um kæru sem borist hefur vegna útboðsferlis vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Kaplakrika. Spurst var fyrir um kæruna á fundi bæjarráðs í síðustu viku og upplýsti bæjarlögmaður að vinna væri í gangi vegna hennar. Undirrituð lýsir furðu á þeim vinnubrögðum að upplýsa ekki kjörna fulltrúa um kæru á hendur bæjarfélaginu við fyrsta mögulega tækifæri, en kæran barst í júnímánuði. Ekki síst þegar um er að ræða mál sem er í vinnslu og í ljósi þess að umræða kjörinna fulltrúa um kostnaðaráætlun og tilboðsverð er augljóslega viðkvæm í ljósi þessa kæruferlis.

Fundarhlé kl: 10:59.

Fundi framhaldið kl. 11:09.

Bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir tekur til máls og leggur fram tillögu um að ákvörðun bæjarráðs í umboði bæjarstjórnar frá 8.8.sl. um rammasamkomulag Hafnarfjarðarfjarðarkaupstaðar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar um eignaskipti og framkvæmdir við nýtt knatthús í Kaplakrika verði hér með staðfest.

Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls og leggur fram dagskrártillögu um að þessum lið verði tekið fyrir eftir að liður 6 hafi verið ræddur, orðrétt er tillagan svohljóðandi:

"Undirrituð leggur til dagskrártillögu um að fresta því að ljúka máli nr. 5, taka mál nr. 6 fyrir áður en til afgreiðslu tillögu bæjarstjóra komi. Ég legg þetta til vegna þess að undir máli nr. 6 mun minnihluti leggja fram gögn og upplýsingar sem eru til þess fallin að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu um tillöguna frá bæjarráðsfundinum í síðustu viku, um rammasamkomulag. Þegar lið nr. 6 verði lokið, verði haldið áfram með lið 5 og gengið til atkvæða um tillögu bæjarstjóra."

Adda María Jóhannsdóttir tekur til máls undir fundarsköpum. Einnig Rósa Guðbjartsdóttir. Adda María tekur til máls öðru sinn um fundarsköp. Einnig tekur Ólafur Ingi Tómasson til máls undir fundarsköpum. Þá tekur Adda María til máls þriðja sinni undir fundarsköpum, einnig Ólafur Ingi öðru sinni og næst Guðlaug Kristjánsdóttir.

Fundarhlé kl. 11:31.

Fundi framhaldið kl. 11:41.

Ber forseti framkomna dagskrártillögu Guðlaugar Kristjánsdóttur, um að þessi liður verði tekin fyrir eftir lið 6, upp til atkvæða. Er tillagan felld með 6 atkvæðum fulltrúa meirihluta gegn 5 atkvæðum minnihluta.

Fundarhlé kl. 11:45.

Fundi framhaldið kl. 12:12.

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi bókun vegna dagskrártillögu sem afgreidd hefur verið:

Undirritaðir bæjarfulltrúar lýsa furðu á því að bæjarfulltrúar meirihluta hafni því að umræða um 6. lið á dagskránni fari fram áður en framlögð tillaga bæjarstjóra um rammasamkomulag verði afgreidd, ekki síst í ljósi þess að fulltrúar minnihluta hafa lýst því yfir að í 6. lið muni koma fram upplýsingar sem hafi bein áhrif á möguleika bæjarfulltrúa til að taka upplýsta afstöðu. Hér er því verið að hindra bæjarfulltrúa í því að taka upplýsta ákvörðun. Minnt er á að bæjarfulltrúar eru einungis bundnir af eigin sannfæringu sem þeir eiga rétt á að fá svigrúm til að mynda sér á grundvelli upplýsinga.

Svo virðist sem meirihlutinn nálgist umræðuna á þessum fundi sem málamyndagjörning, rétt eins og rammasamkomulagið sem keyrt var í gegn í síðustu viku í bæjarráði. Ef ekki er vilji til að hlýða á rök í málinu til enda, getur ekki verið mikil alvara á bakvið þátttöku meirihluta í þessu samtali.

Einnig leggur Guðlaug fram svohljóðandi tillögu fyrir fundinn:

"Í 65. grein sveitarstjórnarlaga kemur fram að sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins. Á fundi bæjarstjórnar í dag hefur margsinnis verið innt eftir því og gagna óskað, hvort tillaga um rammasamkomulag sem afgreidd var í bæjarráði í síðustu viku standist sveitastjórnarlög, sérstaklega 65. grein. Óskað hefur verið eftir svörum við þessum spurningum fyrir næsta fund bæjarstjórnar, sem er áætlaður eftir slétta viku. Þar sem hér er um grundvallarspurningar í þessu máli að ræða er þess krafist að ekki verði teknar ákvarðanir í því fyrr en öll svör liggja fyrir. Því leggur minnihlutinn til að máli nr. 5 sé frestað til næsta bæjarstjórnarfundar."

Forseti ber upp framkomna tillögu um frestun málsins og er hún felld með 6 atkvæðum meirihluta gegn 5 atkvæðum minnnihluta.

Næst ber forseti upp framkomna tillögu bæjarstjóra, um að ákvörðun bæjarráðs í umboði bæjarstjórnar frá 8.8.sl. um rammasamkomulag Hafnarfjarðarfjarðarkaupstaðar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar um eignaskipti og framkvæmdir við nýtt knatthús í Kaplakrika verði hér með staðfest. Er tillagan samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta gegn 5 atkvæðum minnnihluta.

Óskar Guðlaug Kristjánsdóttir eftir nafnakalli:

Adda María Jóhannsdóttir Nei
Ágúst Bjarni Garðarsson Já
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir Nei
Guðbjörg Oddný Já
Guðlaug Kristjánsdóttir Nei
Jón Ingi Hákonarson Nei
Kristín María Thoroddsen Já
Ólafur Ingi Tómsson Já
Rósa Guðbjartsdóttir Já
Sigrún Sverrisdóttir Nei
Kristinn Andersen Já

Adda María gerir grein fyrir atkvæði sínu. Einnig Guðlaug Kristjánsdóttir, Jón Ingi Hákonarson, Sigrun Sverrisdóttir og Bjarney Grendal Jóhannesdóttir.

Adda María leggur fram svohljóðandi bókun:

Undirritaðir fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar draga í efa að þessi ákvörðun meirihluta standist 65. gr. sveitarstjórnarlaga um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélaga og munum við vísa samþykkt meirihluta bæjarstjórnar í dag til úrskurðar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Adda María Jóhannsdóttir
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigrún Sverrisdóttir