Fyrirspurn
Með bréfum dags. 31. desember 2017 sækir forsætisráðuneytið um stofnun tveggja fasteigna (þjóðlendna), sbr. 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001. Fyrri fasteignin er landsvæði sem ber heitið Skógræktarsvæði norðan Krýsuvíkur en sunnan Garðakirkjulands og seinni fasteignin ber heitið Afréttur Álftaneshrepps hins forna, báðar fasteignir eru þjóðlendur samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2004, dags. 31. maí 2006 og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 768/2009, dags. 11. nóvember 2010. Um þjóðlendurnar fer eftir ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Umræddar þjóðlendur eru innan staðarmarka Hafnarfjarðarkaupstaðar samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. S-1/2011, dags. 20. júní 2014 og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 862/2016, dags. 16. nóvember 2017.
Land innan eftirfarandi marka, þ.e. Skógræktarsvæði norðan Krýsuvíkur en sunnan Garðakirkjulands er þjóðlenda: Frá Markargili í Undirhlíðum er farið norðaustur að Hæstaholti í Dauðadölum. Þaðan er dregin lína til suðurs með því að tekin er stefna af Húsfelli og þeirri stefnu fylgt frá framangreindu Hæstaholti á Dauðadölum að skurðarpunkti við dæmd norðurmörk Krýsuvíkur. Frá þeim skurðarpunkti ráða norðurmörk Krýsuvíkur. Frá þeim skurðarpunkti ráða norðurmörk Krýsuvíkur til vesturs að fyrrnefndu Markargili í Undirhlíðum.
Land innan eftirfarandi marka, þ.e. Afréttur Álftaneshrepps hins forna er þjóðlenda og afréttur jarða í Álftaneshreppi hinum forna, nú Garðabæ, Hafnarfirði og sveitarfélaginu Álftanesi: Frá Húsfelli er dregin lína suðaustur í Þríhnjúka og þaðan í Bláfjallahorn. Frá Bláfjallahorni vestur í Litla-Kóngsfell og þaðan í norðaustur í átt að Stóra-Kóngsfelli þar til norðurmörk Krýsuvíkur skera línuna. Þaðan ráða dæmd norðurmörk Krýsuvíkur þar til komið er að skurðarpunkti við línu sem liggur frá Húsfelli með stefnu yfir Hæstaholt á Dauðadölum. Frá þeim skurðarpunkti er þeirri línu síðan fylgt í áðurnefnt Húsfell.