Bæjarráð tekur undir fyrirliggjandi umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, um drög að frumvarpi að nýjum lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bæjarráð leggur sérstaka áherslu á þær athugasemdir sem lúta að því hve óheppilegt sé að umrætt frumvarp sé ekki fullbúið rétt rúmum tveimur mánuðum fyrir ætlaða gildistöku laganna. Bæjarráð telur í þessu ljósi óraunhæft að lögin taki gildi þann 25. maí nk., eins og gert er ráð fyrir. Bæjarráð tekur einnig undir og leggur sérstaka áherslu á þær athugasemdir sem lúta að fyrirhuguðu sektarákvæði laganna. Nauðsynlegt er að þessi heimild verði skoðuð ítarlega og afleiðingar slíks ákvæðis metin. Er ljóst að núverandi drög að sektarákvæði getur haft veruleg áhrif á rekstur og afkomu sveitarfélaga sem einungis mun koma niður á þjónustu til íbúa sveitarfélaganna ef á reyndi. Þá tekur bæjarráð undir og leggur áherslu á að nauðsyn þess að kostnaðarmat við undirbúning sveitarfélaganna vegna innleiðingu löggjafarinnar verði ítarlegt og vandað, enda ljóst að gríðarlegur kostnaður mun fylgja þeirri vinnu hjá sveitarfélögum. Leggur bæjarráð áherslu á að við þá vinnu verði hliðsjón höfð af þeirri vinnu sem Sambandið hefur þegar unnið í þeim efnum. Það er rétt og eðlileg krafa að vandað sé við gerð slíkrar lagasetningar.