Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Sigurður Þórður Ragnarsson
Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Ágúst Bjarni Garðarsson.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson.
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum til og með ársins 2033 með 10 atkvæðum, atkvæði á móti greiðir bæjarfulltrúi Sigurður Þórður Ragnarsson.
Bæjarfulltrúi Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun: Samkomulag um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er að mörgu leyti tímamótaáfangi, þar sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa náð að setja fram sameiginlega sýn á forgangsröðun umferðarframkvæmda, í samráði við ríkisstjórnina. Sérstaklega ber að fagna skýrum ákvæðum í samkomulaginu um skuldbindingu af hálfu bæði fjármála- og samgönguráðherra, þar sem kveðið er á um að samkomulagið skuli verða hluti af komandi fjármála- og samgönguáætlunum ríkisins.
Eins er það söguleg stund að Borgarlína skuli vera komin formlega á áætlun, studd bæði af sveitastjórnum og ríki og því ber að fagna.
Bæjarfulltrúi Bæjarlistans telur engu að síður að hlutur umhverfisvænna samgangna hefði átt að vega þyngra í þessu samkomulagi, ekki síst í ljósi þróunar loftslagsmála til skemmri jafnt sem lengri tíma. Tæplega er hægt að lesa úr fyrirliggjandi samkomulagi áætlun um kröftugan viðsnúning í losun gróðurhúsalofttegunda, sem þó er rík og bráð þörf fyrir. Líklegt verður því að teljast að áætlunin muni þurfa að taka breytingum hvað þetta varðar á þeim 15 árum sem hún tekur til.
Í samkomulaginu er ákveðið svigrúm til viðbótarbreytinga að því er Hafnarfjörð varðar. Má þar nefna gerð forgangsreina fyrir almenningssamgöngur á Hafnarfjarðarveginum sem og úrbætur á hjóla- og gönguleiðum. Mikilvægt er að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beiti sér fyrir þeim mikilvægu úrbótum í þágu bæjarbúa, og umhverfisins, héðan eftir sem hingað til.
Þverpólitískri sátt um samgöngumál ber aldrei að taka sem sjálfsögðum hlut og því styður fulltrúi Bæjarlistans fyrirliggjandi samkomulag sem mikilvægt skref í rétta átt. Umhverfisþáttinn þarf þó án efa að endurskoða þegar fram líða stundir, með sterkari áherslu á loftslagsvænni samgöngur og brýnt að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar haldi vöku sinni í umhverfismálum og þrýsti á um nauðsynlegar úrbætur framtíðinni til heilla.
Bæjarfulltrúi Sigurður Þórður Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Með samkomulagi þessu er gert ráð fyrir að íbúar Hafnarfjarðar greiði 2 milljarða á tímabilinu og er gert ráð fyrir að tæplega helmingur samningsupphæðar renni til borgarlínu. Inni í þessari tölu eru ekki uppkaup á fasteignum sem sem nauðsynleg kunna að verða vegna legu borgarlínunnar í bænum. Það er því ljóst að þessi tala 2 milljarðar kann að verða mun hærri. Hvergi hafa komið fram hugmyndir um hvernig sveitarfélagið hyggist afla þessara fjármuna sem og hitt að fari kostnaður fram yfir áætlanir hver eigi að greiða það. Þá liggja engar greiningar fyrir um að hve miklu leyti borgarlína kann að auka hlutdeild íbúa í almenningssamgöngum. Ríkinu ber að greiða fyrir lagningu stofnbrauta í þéttbýli og með þessu samkomulagi er verið að velta hlutfallslegum kostnaði við nauðsynlegar vegaumbætur á vegum ríkisins yfir á sveitarfélagið. Þá liggur engan veginn fyrir hvernig afla skuli 60 milljarða upphæð vegna verkefnins, en þar er talað um óljósar hugmyndir um veggjöld. Hér er því verið að leggja í mikla óvissuför. Fulltrúi Miðflokksins gerir kröfu að upplýst sé samhliða samkomulagi þessu, hvernig þessum gríðarlegu fjármunum verður aflað áður en samkomulagið verður staðfest af kjörnum fulltrúum. Bæjarfulltrúi Miðflokksins greiðir því atkvæði gegn samkomulagi því sem hér liggur frammi.