Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlistans, Viðreisnar og Miðflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
Úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á stjórnarháttum og áætlunargerð fyrir gas- og jarðgerðarstöð Sorpu BS er áfellisdómur. Í úttektinni kemur fram að veikleikar hafi verið í áætlanagerð og að þau eftirlitstæki sem áttu að vera til staðar virkuðu ekki sem skyldi. Mikilvægt er að læra af því og vinna að leiðum til úrbóta.
Þá hefur lengi legið fyrir að stjórnarfyrirkomulag Sorpu hefur marga veikleika og ber með sér talsverða áhættu, sérlega hvað varðar skort á samfellu og stofnanaminni. Þetta alvarlega mál má að minnsta kosti að hluta til rekja til þessa veikleika.
Brýnt er að eigendur Sorpu, sveitarfélögin sem að henni standa, endurskoði þessa stjórnarskipan með það fyrir augum að gera úrbætur og draga úr áhættunni sem fylgir núverandi fyrirkomulagi. Annað væri óábyrgt með öllu.
Einnig er mikilvægt að skoða þörf á að skýra hæfisreglur varðandi samsetningu stjórnar, eins og bent er á í úttekt Innri endurskoðunar, og hvort ástæða sé til að skilyrðum í stofnanasamningi verði breytt þannig að í stjórn sitji einstaklingar sem eru óháðir eigendum.
Adda María Jóhannsdóttir
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigurður Þ. Ragnarsson
Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka eftirfarandi:
Í úttekt Inni endurskoðunar Reykjavíkurborgar hefur komið fram að stjórn Sorpu bs. fékk reglulega framvinduskýrslur sem gert var ráð fyrir að sýndu heildarstöðu verkefnisins; þ.e. allur kostnaður frá upphafi verksins. Líkt og segir í fyrirliggjandi skýrslu Innri endurskoðunar, „Að mati Innri endurskoðunar verður alvarlegur misbrestur í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar þegar Mannvit leggur fram nýja áætlun aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun SORPU 2019- 2023 er samþykkt af stjórn í október 2018 sem er 500 m.kr. hærri en stjórn hafði ráðgert. Stjórn var aldrei upplýst um hina nýju áætlun né kom hún til umfjöllunar á vettvangi hennar.“ Úttektin í heild hefur leitt það í ljós að upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant í ferlinu. Mikilvægt er að brugðist verði við úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á viðeigandi hátt. Sú vinna er þegar hafin á vettvangi stjórnar Sorpu og hjá stjórn SSH þar sem stjórnsýsluleg staða byggðasamlaganna er til endurskoðunar.