Bæjarfulltrúar, kjörgengi og forföll, erindi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1805
9. maí, 2018
Annað
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð forsetanefndar frá 7.maí sl. Til umræðu
Guðlaug Svala víkur af fundi undir þessum lið.
Forsetanefnd leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi drög að svarbréfi vegna erindis samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, dags. 20. apríl sl.
Svar

Guðlaug Kristjánsdóttir víkur af fundi ásamt Einari Birki Einarssyni undir þessum lið.

1. varaforseti Margrét Gauja Magnúsdóttir tekur við fundarstjórn.

Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi bókun:

"Til viðbótar við framlagða umsögn leggur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson fram eftirfarandi bókun og óskar eftir því að hún verði látin fylgja svari bæjarstjórnar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins:
Undirritaður sat ekki fund bæjarstjórnar þann 14. mars sl. þar sem bæjarstjórn afgreiddi ósk bæjarfulltrúa Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur um ótímabundið leyfi frá störfum og tekur því ekki afstöðu til spurninga ráðuneytisins hvað varðar framkvæmd þeirrar afgreiðslu eða undirbúnings hennar.
Varðandi þann hluta sem snýr að kjörgengi annars bæjarfulltrúa, hefur umfjöllun um kjörgengi eða könnun þess aldrei verið tekin fyrir á fundum sem undirritaður hefur setið. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvort formlegar ábendingar eða upplýsingar hafi borist bæjaryfirvöldum sem gefa tilefni til könnunar kjörgengis eins eða fleiri bæjarfulltrúa, né heldur hvort og þá hvernig slíkar ábendingar hafi verið meðhöndlaðar af hálfu bæjarstjórnar, undirnefnda hennar eða framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Tekur undirritaður því heldur ekki afstöðu til svara bæjarstjórnar til ráðuneytisins er varðar þetta tiltekna atriði.
Hvað varðar þriðja lið umsagnarinnar fellst undirritaður ekki á þá skýringu að afgreiðsla bæjarstjórnar þann 11. apríl sl. hafi verið venju samkvæmt. Sú lýsing sem sett er fram í framlagði umsögn vísar til breytinga á skipan í ráð og nefndir sem reglulega eru gerðar og eiga sér án undartekninga þær skýringar að kjörnir fulltrúar hafa annaðhvort misst kjörgengi vegna flutnings úr sveitarfélaginu eða hafa af öðrum málefnalegum ástæðum óskað sjálfir lausnar frá störfum sínum. Um slíkar afgreiðslur hefur ríkt sú venja að ekki þurfi að tilgreina nákvæmlega í fundarboði í hverju breytingarnar felist og afgreiðsla þeirra hefur undantekningalaust farið fram án ágreinings. Breytingarnar sem gerðar voru á nefndarskipan þann 11. apríl sl. voru augljóslega ekki þessa eðlis.
Þá tel ég mikilvægt að árétta að fulltrúar minnihlutans fengu engar leiðbeiningar fyrir bæjarstjórnarfundinn þann 11.apríl sl. um hvernig rétt væri að standa að undirbúningi og framkvæmd svo óvenjulegrar afgreiðslu sem varla á sér mjög mörg fordæmi í framkvæmd núgildandi sveitarstjórnarlaga. Þvert á móti var oddvitum minnihlutaflokkana tilkynnt símleiðis fyrir fundinn að mikilvægt væri af praktískum ástæðum að ekki yrði gerður ágreiningur um afgreiðslu þessa liðar, meðal annars vegna þess að þá þyrfti að kjósa að nýju í viðkomandi ráð og nefndir. Hvorki forseti né embættismenn upplýstu fulltrúa minnihlutans um önnur lagaleg atriði sem varða slíkar afgreiðslur og hefðu í ljósi óvæntrar framvindu fundarins án efa komið sér vel.
Varðandi þann hluta sem snýr að gerð hlés á umræddum fundi getur undirritaður alls ekki tekið undir þá túlkun á samþykktum sveitarfélagsins sem sett er fram í svari bæjarstjórnar. Er þar vísað til b. liðar I. liðar í 15. gr. samþykkta um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar.Tilvísuð heimild forseta til að gera hlé á fundi bæjarstjórnar án afgreiðslu bæjarstjórnar er bundinn við mjög skýrt afmarkaðar aðstæður, þ.e. ef annaðhvort bæjarfulltrúi hlýðnast ekki úrskurði forseta eða slík óregla kemur upp á fundinum að annað sé ekki hægt en að stöðva fundinn. Fyrirliggjandi er að engar slíkar aðstæður voru uppi í því tilviki sem hér er spurt um. Þá er ástæða til að benda á að forseti var sjálfur tillöguflytjandi og hefði því með réttu átt að fela varaforseta fundarstjórn undir þessum tiltekna dagskrárlið.
Undirritaður getur því ekki annað en tekið undir ábendingu varabæjarfulltrúanna þess efnis að með því að gera hlé á fundinum hafi almenningur í reynd verið sviptur rétti til að hlýða á efnislega umræðu, enda fór efnisleg umræða um tillöguna, að undanskilinni upphafsræðu undirritaðs, fram í fundarhléinu en ekki á opnum fundi bæjarstjórnar. Þá liggur sömuleiðis fyrir að eina gesti þessa opna bæjarstjórnarfundar var vísað á dyr áður en efnisleg umræða hélt áfram eftir að ræðu undirritaðs lauk.
Að lokum er rétt að árétta að á fundi bæjarstjórnar þann 11. apríl ríkti allt annað en samstaða um þá ákvörðun að víkja tveimur rétt kjörnum varabæjarfulltrúum úr skipulags- og byggingaráði og úr hafnarstjórn. Eftir ræðu undirritaðs og um klukkustundarlangt fundarhlé hófst opinn fundur að nýju og tilkynnti forseti að atkvæðagreiðsla færi fram um upphaflega tillögu. Lögðu fulltrúar minnihlutans þá fram eftirfarandi bókun: “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sitja hjá og óska bókað. Við treystum okkur ekki til að taka afstöðu til tillögunnar eins og hún er lögð fram."

Til máls tekur Haraldur L. Haraldsson. Til andsvars kemur Gunnar Axel Axelsson.

Bæjarstjórn samþykkir með þremur atkvæðum þeirra Ólafar Inga Tómassonar, Kristins Andersen og Rósu Guðbjartsdóttur fyrirliggjandi drög að svarbréfi bæjarstjórnar vegna erindis samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, dags. 20. apríl sl. og að bæjarstjóri undirriti bréfið f.h. bæjarstjórnar. Sex bæjarfulltrúar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, þ.e. þau Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, Adda María Jóhannsdóttir, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Helga Ingólfsdóttir, Unnur Lára Bryde og Gunnar Axelsson.

Adda María Jóhannsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu sem og Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir. Einnig gerir Kristinn Andersen grein fyrir atkvæði sínu. Einnig Ólafur Ingi Tómasson.

2. varaforseti Kristinn Andersen tekur við fundarstjórn.

Margrét Gauja Magnúsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu og tekur svo á ný við fundarstjórn.