Tillögur, lagðar fram í bæjarstjórn 20.júní
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1807
20. júní, 2018
Annað
Fyrirspurn
Lagðar fram eftirfarandi tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra:
1. Aukinn afsláttur á gjöldum barnafjölskyldna 2. Uppbygging á hafnarsvæðinu 3. Hreinni og umhverfisvænni bær 4. Menntasetrið við Lækinn 5. Fjölmenningarráð Hafnarfjarðar og móttökuáætlun nýbúa 6. Starfsaðstæður starfsmanna leik-og grunnskóla
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir og leggur til að 1. tillögu, "Aukinn afsláttur á gjöldum barnafjölskyldna", verði vísað í fræðsluráð, en tillagan er svohljóðandi:

"Aukinn afsláttur á gjöldum barnafjölskyldna
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur til að systkinaafsláttur á leikskólagjöldum verði aukinn frá og með næsta fjárhagsári og systkinaafsláttur á skólamáltíðum tekinn upp. Því er beint til fræðsluráðs að vinna að útfærslu tillögunnar. Lægri gjöld í þjónustu til barna er brýnt hagsmunamál barnafjölskyldna í bænum."

Til máls tekur Ólafur Ingi Tómasson og leggur til að 2. tillögu, Uppbygging á hafnarsvæðinu, verði vísað til úrvinnslu í Hafnarstjórn og skipulags- og byggingarráði, en tillagan er svohljóðandi:

"Uppbygging á hafnarsvæðinu
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu í nýlokinni hugmyndasamkeppni um Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í tillögunum eru settar fram hugmyndir til uppbyggingar með iðandi mannlífi í sátt við atvinnustarfsemi á skipulagssvæðinu. Mikilvægt er að fylgja þessum tillögum eftir með áframhaldandi skipulagsvinnu."

Til máls tekur Helga Ingólfsdóttir og ber upp tillögu um að 3. tillögu, Hreinni og umhverfisvænni bær, verði vísað til úrvinnslu í umhverfis- og framkvæmdaráði, en tillagan er svohljóðandi.

"Hreinni og umhverfisvænni bær
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að áfram verði settur aukinn kraftur í hreinsun og fegrun bæjarins. Sérstök áhersla verði á hreinsun og umgengni á iðnaðarsvæðum bæjarins og lóðarhafar hvattir til að huga að umgengni á lóðum sínum. Hafnarfjarðarbær eykur fjármagn til fegrunar í þessum hverfum bæjarins og til viðhalds gatna og mannvirkja bæjarins. Hrein og snyrtileg iðnaðar- og þjónustuhverfi laðað fyrirtæki og viðskiptavini."

Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir og svarar Helga andsvari. Guðlaug kemur í andsvar öðru sinni. Helga Ingólfsdóttir tekur til máls öðru sinni.

Forseti leggur til að tillögur verði afgreiddar jafnóðum og er tillögunni ekki mótmælt og telst þar með samþykkt. Eru allar framangreindar tillögur um vísun tillagna til ráða og stjórna samþykktar samhljóða. Er tillögunni Aukinn afsláttur á gjöldum barnafjölskyldnaverði" því vísað í fræðsluráð, tillögunni "Uppbygging á hafnarsvæðinu" vísað til Hafnarfstjórnar og skipulags- og byggingarráðs og tillögunni "Hreinni og umhverfisvænni bær" vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs.


1. varaforseti Guðlaug Kristjánsdóttir tók þá við fundarstjórn og til máls tók Kristinn Andersen og leggur til að 4. tillögu meirihluta, „Menntasetrið við Lækinn", verði vísað til umræðu í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði, en tillagan er svohljóðandi:
„Menntasetrið við Lækinn
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði úttekt á ástandi byggingar Menntasetursins við Lækinn (gamla Lækjarskóla) og viðhalds- og endurbótaþörf metin og kostnaðargreind. Einnig verði unnar tillögur að framtíðarstarfsemi í húsinu.“
Forseti ber upp framkomna tillögu um að framangreindri tillögu verði vísað til umræðu í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði og er það samþykkt samhljóða.


Þá tekur til máls Ágúst Bjarni Garðarsson og fjallar um 5. tillögu meirihluta, "Fjölmenningarráð Hafnarfjarðar og móttökuáætlun nýbúa", og leggur til að henni verði vísað til frekari úrvinnslu í fjölskylduráði, en tillagan er svohljóðandi:
„Fjölmenningarráð Hafnarfjarðar og móttökuáætlun nýbúa
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði móttökuáætlun fyrir innflytjendur og að fjölmenningarráð verði tekið til skoðunar með það að markmiði að það hafi styrk til að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni og hagsmuni innflytjenda. Fjölskylduráði verði falið að taka málið til frekari skoðunar.“
Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir og Ágúst Bjarni kemur í andsvar. Guðlaug svarar andsvari. Forseti ber næst upp framkomna tillögu um að vísa tillögu til fjölskylduráðs og er hún samþykkt samhljóða.

Til máls tekur Kristín María Thoroddsen og fjallar um 6. tillögu meirihluta, "Starfsaðstæður starfsmanna leik-og grunnskóla", og ber upp tillögu um að tillögunni verði vísað til úrvinnslu í fræðsluráði, en tillagan er svohljóðandi:
„Starfsaðstæður starfsmanna leik- og grunnskóla
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að áfram verði unnið að því að bæta starfsaðstæður kennara í leik- og grunnskólum með það að leiðarljósi að minnka álag í starfi og efla faglega forystu kennara og að farið verði í vinnu við að greina álagsþætti í störfum annarra starfsmanna.“
Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir. Kristín María svarar andsvari. Friðþjófur Helgi Karlsson kemur til andsvars og Kristín María svarar andsvari. Ágúst Bjarni tekur til máls. Forseti ber næst upp framkomna tillögu um að vísa tillögu til fræðsluráðs og það hún samþykkt samhljóða.



Næst tekur til máls Adda María og leggur fram eftirfarandi tillögu:

"Leikskólamál í Suðurbæ
Eftir lokun á starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) hefur verið skortur á leikskólaplássum í Suðurbæ. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að nú þegar verði hafist handa við undirbúning á byggingu leikskóla við Öldugötu eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi. Þá leggjum við einnig til að tekið verði til skoðunar að opna ungbarnaleikskóla í Kató. Byggingin hefur staðið auð frá því að leikskólanum var lokað og lítið ætti að vera því til fyrirstöðu að hefja starfsemi þar á ný. Leggur Adda Til að tillögunni verði vísað til úrvinnslu í fræðsluráði og umhverfis- og framkvæmdaráði.

Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson og Adda María svarar andsvari. Ólafur Ingi kemur til andsvars öðru sinni og Adda María svarar andsvari. Bæði Ólafur Ingi og Adda María koma að lokum að stuttum athugasemdum.

Forseti ber upp framkomna tillögu um að vísa þessari tillögu til úrvinnslu í fræðsluráði og umhverfis og framkævmdaráði og er hún samþykkt samhljóða.

Næst tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson og leggur fram eftirfarandi tillögu:

"Stuðningur við ungt fólk í Hafnarfirði
Til að auka stuðning við ungt fólk í Hafnarfirði leggja fulltrúar Samfylkingar til eftirfarandi: Tryggt verði aðgengi að sálfræðingum í öllum grunnskólum bæjarins ásamt því að boðið verði upp á sálfræðiþjónustu fyrir 16-18 ára börn í Ungmennahúsi.
Til að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum leggjum við til að Hafnarfjarðarbær niðurgreiði strætókort fyrir börn að 18 ára aldri sem verði þeim að kostnaðarlausu. Þannig minnkum við líka skutl og styðjum við umhverfissjónarmið.
Þá leggjum við einnig til að börn að 18 ára aldri fái frían aðgang að Bókasafni Hafnarfjarðar."

Forseti ber upp upp tillögu um að vísa framkominni tillögu til úrvinnlsu í fræðsluráði og bæjarráði og er það samþykkt samhljóða.

Adda María tekur til máls og ber upp svohljóðandi tillögu:

"Stytting vinnuvikunnar
Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær stuðli að aukinni samveru fjölskyldna með skrefum í átt að styttingu vinnuviku ásamt því að stuðla enn frekar að styttri vinnudegi barna með aukinni samþættingu skóla og frístunda. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að hafin verði undirbúningur á tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í stofnunum bæjarins."

Forseti leggur til að tillögunni verði vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði og er það samþykkt samhljóða.

Friðþjófur tekur til máls og ber upp svohljóðandi tillögu:

"Samgöngusamningar
Áhersla á lýðheilsu á að vera forgangsmál í hverju samfélagi. Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær gangi fram með góðu fordæmi og stuðli að aukinni lýðheilsu starfsfólks. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að teknir verði upp samgöngusamningar við starfsfólk bæjarins. Það eflir lýðheilsu og styður við umhverfissjónarmið."

Forseti leggur til að framkominni tillögu verði vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði og er það samþykkt samhljóða.

Þá tekur Adda María til máls og ber upp svohljóðandi tillögu:

"Gæludýrahald í félagslegum íbúðum
Fulltrúar Samfylkingar leggja til að farið verði að dæmi Kópavogs um breytingar á reglum um gæludýrahald í félagslegum íbúðum háð ákveðnum skilyrðum." Leggur Adda María til að tillögunni verði vísað til umfjöllunar í fjölskylduráði. Ólafur Ingi kemur í andsvar og því svarar Adda María. Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir og þá næst Sigurður Ragnarsson.

Forseti leggur til að framkomin tillaga verði vísað til freakri umfjöllunar í fjölskylduráði og er það samþykkt samhljóða.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu:

"Stöðugildi sálfræðings í fullt starf í alla grunnskóla Hafnarfjarðar.
Viðreisn leggur til að Fræðsluráð fjalli um og finni leiðir til að koma á stöðugildi sálfræðings í alla grunnskóla Hafnarfjarða á næsta fjárhagsári."

Forseti leggur til að fram kominni tillögu verði vísað til umfjöllunar í fræðsluráði og er það samþykkt samhljóða.

Jón Ingi leggur einnig til svohljóðandi tillögu:

"Innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna
Viðreisn leggur til að vinnu við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hefjist strax. Viðreisn leggur til að Fjölskylduráði verði falið að taka þetta mál til vinnslu með það að markmiði að innleiðingarferlið geti hafist strax í haust."

Forseti leggur til að fram kominni tillögu verði vísað til umfjöllunar í fjölskylduráði og er það samþykkt samhljóða.

Til máls tekur Guðalug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi tillögu:

"Stytting vinnuviku hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, tilraunaverkefni
Hafið verði verkefni um styttingu vinnuviku í samráði við stéttarfélög og starfsfólk bæjarins. Starfsfólk félagsþjónustu hefur þegar óskað eftir slíkri tilraun og fjallaði bæjarráð um þá tillögu á fundi sínum þann 20. apríl síðastliðinn. Var bæjarstjóra falið að taka málið til skoðunar (1803258 - Stytting vinnuvikunnar, erindi). Einnig verði tekið upp samtal við aðrar stofnanir bæjarins um mögulegan áhuga á sambærilegu verkefni."

Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til bæjarráðs og er það samþykkt samhljóða.


Einnig leggur Gauðlaug fram svohljóðandi tillögu:

"Fjölgun úrræða fyrir fólk með heilabilun
Óskað verði eftir samstarfi við félagasamtök (Alzheimersamtökin) um opnun nýrrar dagdvalar fyrir fólk með heilabilun, til viðbótar við þá þjónustu sem veitt er í Drafnarhúsi og í þeim sama anda. Horft verði til þjónustukjarna við Sólvang varðandi staðsetningu."

Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til fjölskylduráðs og er það samþykkt samhljóða.

Einnig leggur Guðlaug fram svohljóðandi tillögu:

"NPA samningar, fjölgun
Þegar í stað verði opnað fyrir fjölgun NPA samninga á vegum félagsþjónustunnar í Hafnarfirði, í samráði við notendur. Þjónustuformið NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) sem hingað til hefur verið rekið sem tilraunaverkefni hefur nú fengið stoð í lögum og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf verið innleidd í öll ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Jafn réttur íbúa bæjarins til að stjórna eigin lífi er forsenda þess að þjónusta bæjarins standist ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um ,,að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir“."

Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til fjölskylduráðs og er það samþykkt samhljóða.

Guðlaug leggur einnig fram svohljóðandi tillögu:

"Stefnumótun í búsetumálum fatlaðra
Farið verði í heildstæða stefnumótun í samráði við notendur um framtíðarfyrirkomulag búsetumála fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, meðal annars með tilliti til þjónustu í eigin húsnæði. Farið verði yfir kosti og galla ólíkra búsetuúrræða og þarfagreining gerð á hverju úrræði fyrir sig. Niðurstöður vinnunnar verði hluti af húsnæðisstefnu Hafnarfjarðarbæjar, sem nú er í vinnslu."

Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til fjölskylduráðs og er það samþykkt samhljóða.

Þá leggur Guðalug fram svohljóðandi tillögu:

"Atvinnumál fatlaðs fólks
Aukinn verði stuðningur við atvinnumál fatlaðra í bænum, þannig að hjá Hafnarfirði sem vinnustað verði störfin fleiri og fjölbreyttari og á öllum sviðum starfseminnar. Gert verði tilraunaverkefni með kaffihús í anda GÆS í anddyri Ásvallalaugar, þar sem aðgengi er eins og best verður á kosið og aðstaða fyrir veitingasölu hefur verið til staðar frá opnun, en ekki verið tekin í notkun sem slík."

Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til fjölskylduráðs og er það samþykkt samhljóða.