Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Adda María svarar andsvari.
Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls. Bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars.
Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Jón Ingi svarar andsvari.
Guðlaug Kristjánsdóttir tekur til máls öðru sinni.
Adda María tekur til máls öðru sinni og ber upp eftirfarandi fyrirspurnir:
Vegna yfirlýsinga bæjarstjóra í Morgunblaðinu laugardaginn 11. ágúst sl. óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar skýringa á ummælum bæjarstjóra þar sem hún segir það tilviljun að þetta mál væri tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þegar til hans var einmitt boðað sérstaklega vegna málsins.
Óskað er eftir að svör við fyrirspurninni liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.
Í ljósi þess hversu skyndilega boðað var til fundar bæjarráðs hinn 8. ágúst sl. með minnsta löglega fyrirvara á grundvelli þess að flýta þyrfti málinu óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir gögnum sem varpað geta ljósi á hina óvæntu framvindu í málinu sem kallaði á slíka flýtimeðferð að ekki mátti bíða þess að ná bæjarstjórn saman.
Óskað er eftir að gögn liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.
Adda María Jóhannsdóttir
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigrún Sverrisdóttir
Einnig leggur Adda María fram svohljóðandi bókun:
Ákvörðun um breytt áform varðandi byggingu knatthúss var tekin á skyndifundi sem haldinn var í bæjarráði þann 8. ágúst sl. þar sem einungis 3 af 11 bæjarfulltrúum samþykktu stefnubreytingu í málefnum er varða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Fulltrúar fengu afar skamman fyrirvara á málinu og skorti verulega á gögn og upplýsingar varðandi forsendur þess.
Fulltrúar þeirra flokka sem sitja í minnihluta bæjarstjórnar draga lögmæti ákvörðunarinnar í efa og hafa leitað álits hjá lögfræðingum Samband íslenskra sveitarfélaga þar að lútandi. Álitið staðfestir þann skilning okkar að ákvörðunin standist ekki sveitarstjórnarlög og því beri að ógilda hana. Í álitinu (sem fylgir málinu) kemur m.a. fram að heimild byggðarráðs til töku fullnaðarákvörðunar eigi einungis við þegar ekki er um að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og að ákvörðunin rúmist innan fjárhagsáætlunar. Í álitinu er áréttað að óheimilt sé að víkja frá formlegu skilyrði sem fram kemur í 1. málsl. 5. mgr. 35. gr. „að ágreiningur má ekki vera innan ráðsins um afgreiðsluna,“ Einnig er í álitinu vísað í dóm sem féll í Héraðsdómi Vesturlands þann 21. mars 2007 þegar ákvörðun bæjarráðs Snæfellsbæjar var talin ólögmæt þar sem ekki hafi verið einhugur um ákvörðunina í bæjarráði.
Á grundvelli þessa álits fara undirritaðir fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar fram á að umrædd ákvörðun bæjarráðs frá 8. ágúst sl. verði ógilt og hún afturkölluð vegna formgalla og ekki aðhafst frekar í málinu þar til spurningum þeim sem lagðar hafa verið fram á fundinum hefur verið svarað. Í kjölfarið getur málið fengið meðferð í samræmi við samþykktir bæjarins og ákvæði sveitarstjórnarlaga.
Adda María Jóhannsdóttir
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigrún Sverrisdóttir
Ágúst Bjarni Garðarsson kemur upp í andsvar.
Fundarhlé kl. 13:08.
Fundi framhaldið kl. 13:16.
Ágúst Bjarni tekur til máls og leggur fram svohljóðandi bókun:
Formaður bæjarráðs óskar eftir að bókað verði að bæjarlögmanni verði falið að kalla eftir áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fulltrúar minnihlutans hafa vitnað hér til á fundi bæjarstjórnar.