Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson.
Næst til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram svohljóðandi tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun
Tillaga 1 - Endurskilgreining á ráðningahlutfalli starfsmanna vegna ákvæða um hvíldartíma.
Brögð eru að því að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar sem starfa m.a. á heimilum og starfsstöðvum fatlaðs fólks fái ekki ráðningu í 100% starf vegna ákvæða um hvíldartíma. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að störf hjá Hafnarfjarðarbæ sem vegna ákvæða um hvíldartíma teljast ekki 100% verði endurskilgreind þannig að starfshlutfall sem fer að mörkum um hvíldartíma teljist fullt starf og verði 100%.
Þetta ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa til handa þeim sem á þessum starfsstöðum starfa og sú metnaðarfulla stefna að fjölga fagmenntuðu starfsfólki á heimilum og starfsstöðvum fatlaðs fólks hlýtur að kalla á að starfsumhverfi og launakjör fólks séu eftirsóknarverð. Þetta er ein leið til þess.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs.
Tillaga 2 - Samgöngusamningar mál nr. 1806353
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar fram tillögu um að teknir yrðu upp samgöngusamningar við starfsfólk bæjarins. Þar sem tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu, endurflytjum við hana hér og vísum til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun.
Upphafleg tillaga var svohljóðandi:
Áhersla á lýðheilsu á að vera forgangsmál í hverju samfélagi. Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær gangi fram með góðu fordæmi og stuðli að aukinni lýðheilsu starfsfólks. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að teknir verði upp samgöngusamningar við starfsfólk bæjarins. Það eflir lýðheilsu og styður við umhverfissjónarmið.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Tillaga 3 - Stuðningur við ungt fólk, sálfræðiþjónusta
Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu um stuðning við ungt fólk í Hafnarfirði sem m.a. tók til aukins aðgengis að sálfræðingum. Tillögunni sem slíkri var ekki vísað til fjárhagsáætlunar en gera má ráð fyrir að sú aukning sem fram kemur í áætluninni sé að einhverju leyti viðbrögð við henni. Við teljum hins vegar mikilvægt að gengið verði lengra og leggjum tillögu okkar því fram aftur með áskorun um að gera enn betur og taka einnig fyrir þann hluta sem varðar aðgengi að sálfræðiþjónustu í Ungmennahúsi fyrir ungmenni sem lokið hafa grunnskóla. Það er mikilvægt að tryggja aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu til að sinna þeim fjölmörgu aðkallandi verkefnum sem þarf að sinna m.a. hvað varðar greiningu á vanda, ráðgjöf, stuðningi og ekki síst forvörnum.
Fulltrúar Samfylkingar taka undir bókun sem fulltrúar minnihlutaflokka í fræðsluráði lögðu fram undir umræðum um fjárhagsáætlun og leggja til fjölgun á stöðugildum sálfræðinga í grunnskólum Hafnarfjarðar umfram það sem kemur fram í fjárhagsáætlun sem og aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir 16-18 ára börn í Ungmennahúsi.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs
Tillaga 4 - Stuðningur við ungt fólk, niðurgreiðsla á strætókortum
Fulltrúar Samfylkingar ítreka og endurflytja tillögu sína um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri. Til að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum leggjum við til að Hafnarfjarðarbær niðurgreiði strætókort fyrir börn að 18 ára aldri sem verði þeim að kostnaðarlausu. Þannig minnkum við líka skutl og styðjum við umhverfissjónarmið.
Tillagan var áður flutt á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. og hefur ekki hlotið afgreiðslu. Vísum við henni inn í frekari vinnu við fjárhagsáætlun.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs
Tillaga 5 - Hækkun á frístundastyrkjum
Fulltrúar Samfylkingar leggja til að frístundastyrkir verði hækkaðir, amk til jafns við nágrannasveitarfélögin.
Frístundastyrkir ættu að vera stolt okkar Hafnfirðinga og við eigum að leggja metnað okkar í að vera í forystu þegar kemur að því að jafna og auðvelda aðgengi barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundastarfi.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs.
Tillaga 6 - Stytting vinnuvikunnar mál nr. 1806352
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar fram tillögu um undirbúning á tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku. Þar sem tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu endurflytjum við hana hér og vísum til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun.
Tillagan var svolhljóðandi:
Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær stuðli að aukinni samveru fjölskyldna með skrefum í átt að styttingu vinnuviku ásamt því að stuðla enn frekar að styttri vinnudegi barna með aukinni samþættingu skóla og frístunda. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að hafin verði undirbúningur á tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í stofnunum bæjarins.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Tillaga 7 - Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi
Þar sem fallið hefur verið frá áformum um uppbyggingu leikskóla við Öldugötu og ljóst er að tveggja deilda viðbygging við Smáralund muni ekki svara þeim skorti sem er á leikskólaplássum í skólahverfi Öldutúnsskóla, leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að hafist verði handa við frekari uppbyggingu á leikskóla í hverfinu.
Það er fyrirséð að með frekari áætlunum um lækkun á inntökualdri muni þörfin í hverfinu síst fara minnkandi og því mikilvægt að horfa til framtíðar og byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins með áherslu á að samnýta grunnstoðir leik- og grunnskóla, og draga þannig úr aðgreiningu milli skólastiga.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs.
Tillaga 8 - Uppbygging á félagslegum íbúðum
Í samantekt fjölskylduráðs kemur fram að félagslegar íbúðir í Hafnarfirði eru 7,9 á hverja þúsund íbúa á meðan meðaltalið á landsvísu er 10,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa. Til að hlutfall félagslegra íbúða miðað við íbúafjölda verði það sama og í Reykjavík er ljóst að það vantar um 220 íbúðir inn í kerfið. Ef ekki verður bætt í mun það taka 16 ár að takast á við uppsafnaðan vanda miðað við núverandi stöðu.
Í ljósi þess uppsafnaða vanda sem Hafnarfjarðarbær stendur frammi fyrir þegar kemur að félagslegu húsnæði leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að brugðist verði við með því að forgangsraðað verði í þessa átt og aukið verði við framlög til kaupa á félagslegum íbúðum.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs.
Tillaga 9 - Uppbygging á hagkvæmu húsnæði
Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem er á húsnæðismarkaði leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær leiti leiða til að skoða frekara samstarf við óhagnaðardrifin félög um að byggja upp hagkvæmar leiguíbúðir svo hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum sem og almennum leiguíbúðum á viðráðanlegu verði hraðar en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs
Tillaga 10 - Nýting skattstofna
Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru fjölmörg og mikilvægt að þeim sé sinnt. Þar sem framlögð fjárhagsáætlun sýnir að ekki verði hægt að ráðast í öll þau verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir legga fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall og endurskoði lækkun á álagningarstofni fasteignaskatta á atvinnueignir. Þessir skattstofnar eru sveitarfélaginu mikilvægir til að geta staðið straum af þeim fjölmörgu verkefnum sem fyrir liggja en hafa lítil áhrif á hinn almenna bæjarbúa.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Ólafur Ingi kemur til andsvars öðru sinni. Adda María svarar andsvari öðru sinni.
Næst tekur til máls Jón Ingi Hákonarson.
Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi bókun/tillögur við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun:
Undirrituð ítrekar tillögur frá 20. júní sl, fyrsta fundi bæjarstjórnar á kjörtímabilinu, en þeim var vísað til viðeigandi ráða og hafa hlotið mismikla umræðu eða úrvinnslu.
Stytting vinnuviku hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, tilraunaverkefni (1806352):
Hafið verði verkefni um styttingu vinnuviku í samráði við stéttarfélög og starfsfólk bæjarins. Starfsfólk félagsþjónustu hefur þegar óskað eftir slíkri tilraun og fjallaði bæjarráð um þá tillögu á fundi sínum þann 20. apríl síðastliðinn. Var bæjarstjóra falið að taka málið til skoðunar (1803258 - Stytting vinnuvikunnar, erindi). Einnig verði tekið upp samtal við aðrar stofnanir bæjarins um mögulegan áhuga á sambærilegu verkefni. Þessari tillögu var vísað til bæjarráðs en ekki hefur verið fjallað um hana frá því hún var kynnt í ráðinu í júní. Í greinargerð með fjárhagsáætlun er sums staðar fjallað um stytta vinnuviku, helst á sviði fræðslumála. Þessi tillaga er hér með ítrekuð.
Fjölgun úrræða fyrir fólk með heilabilun (1806356):
Óskað verði eftir samstarfi við félagasamtök (Alzheimersamtökin) um opnun nýrrar dagdvalar fyrir fólk með heilabilun, til viðbótar við þá þjónustu sem veitt er í Drafnarhúsi og í þeim sama anda. Horft verði til þjónustukjarna við Sólvang varðandi staðsetningu. Starfshópur var stofnaður um sambærilegt mál í september 2018 og vonandi ratar niðurstaða þeirrar vinnu í farveg í framhaldinu, þó svo þess sjáist ekki merki í fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun.
NPA samningar, fjölgun (1806357):
Þegar í stað verði opnað fyrir fjölgun NPA samninga á vegum félagsþjónustunnar í Hafnarfirði, í samráði við notendur. Þjónustuformið NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) sem hingað til hefur verið rekið sem tilraunaverkefni hefur nú fengið stoð í lögum og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf verið innleidd í öll ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Jafn réttur íbúa bæjarins til að stjórna eigin lífi er forsenda þess að þjónusta bæjarins standist ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um ,,að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir."
Fjallað hefur verið um þessa tillögu í fjölskylduráði en framlögð fjárhagsáætlun gefur ekki til kynna að til standi að opna aðgang að nýjum NPA samningum, nema hvað varðar fólk sem þegar er með beingreiðslusamning. Því ítreka ég þá tillögu mína að opnað verði fyrir nýjar umsóknir um NPA samninga.
Stefnumótun í búsetumálum fatlaðra (1806358):
Farið verði í heildstæða stefnumótun í samráði við notendur um framtíðarfyrirkomulag búsetumála fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, meðal annars með tilliti til þjónustu í eigin húsnæði. Farið verði yfir kosti og galla ólíkra búsetuúrræða og þarfagreining gerð á hverju úrræði fyrir sig. Niðurstöður vinnunnar verði hluti af húsnæðisstefnu Hafnarfjarðarbæjar, sem nú er í vinnslu.
Þessi tillaga hefur ratað nærri orðrétt í texta í drögum að húsnæðisstefnu og fyrir það er þakkað og áréttað mikilvægi þess að henni verði fylgt eftir sem fyrst.
Atvinnumál fatlaðs fólks (1806359):
Aukinn verði stuðningur við atvinnumál fatlaðra í bænum, þannig að hjá Hafnarfirði sem vinnustað verði störfin fleiri og fjölbreyttari og á öllum sviðum starfseminnar. Gert verði tilraunaverkefni með kaffihús í anda GÆS í anddyri Ásvallalaugar, þar sem aðgengi er eins og best verður á kosið og aðstaða fyrir veitingasölu hefur verið til staðar frá opnun, en ekki verið tekin í notkun sem slík.
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir auknu fjármagni í atvinnumál fatlaðs fólks, aðallega atvinnu með stuðningi, en gaman væri að sjá tilraunaverkefni með vinnustað í anda GÆS kaffihússins í Ásvallalaug og þar með nýta það húsnæði enn betur.
Einnig bætist við ný tillaga: Greiðsla inn á lífeyrisskuldbindingar
Við ofangreindar tillögur sem þegar hafa verið lagðar fram, vil ég í ljósi þess sem hér að ofan kemur fram leggja til að kveðið verði á um það í greinargerð með fjárhagsáætlun og áætlun til 2022 að mögulegar aukatekjur eða aukið svigrúm í rekstri bæjarins verði nýttar til að hefja inngreiðslur á lífeyrisskuldbindingar.
Þá tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson og leggur fram svohljóðandi tillögu:
Tillaga bæjarfulltrúa Miðflokksins Sigurðar Þ. Ragnarssonar:
Fasteignir fyrirtækja eru 20% hússnæðis í bænum. Tekjur af fasteignasköttum fyrirtækja nema hins vegar 50% af fasteignatekjum bæjarins. Það gerir þá kröfu að fyrirtæki fái þjónustu í samræmi við það.
Fyrirtæki á Hraununum vestan Vallahverfis búa við það að ekki hefur verið klárað árum saman að ljúka við frágang við lóðir í hverfinu s.s. gangstíga. Þetta er frágangur sem snýr að Hafnarfjarðarbæ.
Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur til að gert verði sérstakt átak við gerð göngustíga og annars frágangs í hverfinu og eyrnarmerkja 15 milljónir króna til þessa verkefnis. Til fjármögnunar á þessu verði framlög til uppbyggingar Bláfjallasvæðis lækkaðar úr 85 milljónum í 75 milljónir. Er lagt til að málið verði sent umhverfis- og framkvæmdaráði til afgreiðslu og ákvörðunar.
Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:
Viðreisn harmar þá ákvörðun að ekki hafi verið gert ráð fyrir stöðugildi sálfræðs fyrir hvern skóla Hafnarfjarðar, inn í fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019.
Viðreisn telur mikilvægt að tryggt verði aðgengi að geðheilbriðgðisþjónstu innan veggja skólanna til að sinna þeim fjölmörgu og áríðandi verkefnum sem þar þarf að vinna. Felst sú vinna m.a. í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, stuðningsviðtöl við börn og annarskonar forvarnir.
Í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er beinlínis lögð sú skylda á skólayfirvöld að láta fara fram greiningar á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Ljóst er að sú greiningarvinna sem í dag er unnin, nægir ekki til að grípa strax inn í erfiðleika nemenda eða áður en vandinn verður að veruleika. Vegna þessa geta nemendur fallið aftur úr námslega séð, einangrað sig félagslega sem allt eykur á vanlíðan þeirra. Finni nemandi sig ekki í skóla vegna þeirra sálrænu erfiðleika, sem nemandinn fær ekki bót á, getur það verið greiðasta leiðin inn í heim þunglyndis, kvíða eða þaðan af verra.
Að mati Viðreisnar er það fyrirkomulag að bæta við einum sálfræðing í fullt starf í hvern grunnskóla, ekki of dýrt þegar litið er til þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Þurfum við öll að bera ábyrgð á efla allt geðheilbrigði innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Þá fyrst verður hægt að standa við loforð nánast allra flokka um snemmtæka íhlutun.
Við erum þess fullmeðvituð að ekki er hægt að gera allt á sama tíma en við skorum á meirhluta að taka fyrsta skrefið og ráð einn sálfræðing í einn skóla sem tilraunaverkefni og kanna að ári ávinninginn
Forset beru upp tillögu um að framkomnum tillögum verði vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í þeim ráðum sem þar er vísað til og þær eiga heima. Er það samþykkt samhljóða.
Forseti legur þá næst til að tillaga að fjárhagsáætlun 2019 og 2020 til 2022 verði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 12. desember nk. Er tillagan samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.