Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1817
12. desember, 2018
Annað
Fyrirspurn
17.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 14.nóv. sl. 1. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 31.október sl. Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri mætir til fundarins.
1. liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 29.október sl. Fjárhagsáætlun 2019-2022 tekin til umræðu.
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir framlagða rekstrar og fjárfestingaráætlun sviðsins og vísar til afgreiðslu bæjarráðs. Fulltrúi Samfylkingar, Friðþjófur Helgi Karlsson, situr hjá við atkvæðagreiðslu og óskar eftir því að eftirfarandi sé fært til bókar: Ég sit hjá m.a. vegna þess að mér finnst sú forgangsröðun sem birtist í henni ekki vera ásættanleg. Það er nauðsynlegt að mínu mati að forgangsraðað sé með skýrari hætti t.d. í þágu viðhalds á fasteignum bæjarins, eflingar á þjónustugetu þjónustumiðstöðvar, umhverfismála og uppbyggingu á grunnþjónustu s.s. eins og á leikskólarýmum í þeim hverfum þar sem vöntun er á slíku. Hvorki sú rekstraráætlun né fjárfestingaráætlun sem liggja hér fyrir sem hluti af fjárhagsáætlun endurspegla þær áherslur nægjanlega vel og þar eru m.a. áætlaðar háar fjárhæðir til framkvæmda í bæjarfélaginu sem ekki teljast til grunnþjónustu. Vil einnig ítreka athugasemdir mínar um það hversu seint gögn eru að berast ráðsmönnum og hversu lítið samráð hefur verið við vinnuna. Drög að fjárfestingaráætlun kom fyrst fyrir augu ráðsmanna síðastliðinn miðvikudag. Það er óásættanlegt og gerir ráðsmönnum erfitt með að setja sig inn í mál og taka afstöðu til þeirra svo vel sé. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram á fundi bæjarstjórnar næstkomandi miðvikudag þannig að tíminn fyrir fulltrúa minnihlutans til að fara yfir fjárhagsáætlunina hefur verið mjög naumur.
Fulltrúar Bæjarlistans, Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, og Viðreisnar, Þórey Svanfríður Þórisdóttir, harma það að bærinn sé hér með að falla frá þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili, að bærinn byggi og eigi íþróttamannvirkin sín sjálfur. Við hörmum það einnig að hluti þeirra greiðslna til FH skuli hafa farið fram án þess að viðaukinn hafi fengið gildi. Einnig finnst okkur það fráleitt að haldið skuli áfram með málið á meðan kæruferli er í gangi. Er þessi leið, sem núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hefur kosið að fara; að greiða FH fyrir eignarhluti, sem virðast vera á reiki hverjir eru, á meðan að virði húsnæðisins sem fjárfesta á í er ekki á hreinu, finnst okkur vítavert kæruleysi með fjármuni bæjarbúa.
3.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 29.október sl. Yfirferð á fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019
Yfirferð fjárhagsáætlunar fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019 lögð fram. Meirihluti fræðsluráð samþykkir fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundasviðs 2019 og samþykkir að vísa fjárhagsáælun fræðslu- og frístundasviðs til bæjarráðs. Fulltrúar Bæjarlistans og Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúar minnihluta í fræðsluráði lögðu fram eftirfarandi bókun; Í fyrsta lagi: Góð vinna við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvægur hluti af vinnu kjörinna fulltrúa. Að geta unnið hana í sátt, með góða yfirsýn og skilning er grundvöllur góðrar stjórnsýslu. Það að gögn berist seint og tímarammi umræðu og vinnslu áætlunarinnar sé jafn þrjöngur og raun ber vitni er kjörnum fulltrúum og bæjarbúum ekki bjóðandi.
Í öðru lagi: Við hörmum þá ákvörðun að ekki hafi verið gert ráð fyrir stöðugildi sálfræðs fyrir hvern skóla Hafnarfjarðar, inn í fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019.
Teljum við mikilvægt að tryggt verði aðgengi að geðheilbriðgðisþjónstu innan veggja skólanna til að sinna þeim fjölmörgu og áríðandi verkefnum sem þar þarf að vinna. Felst sú vinna m.a. í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, stuðningsviðtöl við börn og annarskonar forvarnir.
Í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er beinlínis lögð sú skylda á skólayfirvöld að láta fara fram greiningar á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Ljóst er að sú greiningarvinna sem í dag er unnin, nægir ekki til að grípa strax inn í erfiðleika nemenda eða áður en vandinn verður að veruleika. Vegna þessa geta nemendur fallið aftur úr námslega séð, einangrað sig félagslega sem allt eykur á vanlíðan þeirra. Finni nemandi sig ekki í skóla vegna þeirra sálrænu erfiðleika, sem nemandinn fær ekki bót á, getur það verið greiðasta leiðin inn í heim þunglyndis, kvíða eða þaðan af verra.
Að mati okkar er það fyrirkomulag að bæta við einum sálfræðing í fullt starf í hvern grunnskóla, ekki of dýrt þegar litið er til þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Þurfum við öll að bera ábyrgð á efla allt geðheilbrigði innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Þá fyrst verður hægt að standa við loforð nánast allra flokka um snemmtæka íhlutun.
Skorum við því á bæjaryfirvöld að breyta afstöðu sinni í þessu máli, sem hægt væri að koma í gagnið strax á fyrstu mánuðum næsta árs.
Undir þetta rita fulltrúa minnihluta í fræðsluráði: Vaka ágústsdóttir - Viðreisn Sigrún Sverrisdóttir - Samfylking Birgir Örn Guðjónsson - Bæjarlistinn Bjarney Grendal Jóhannesdóttir - Miðflokkurinn
1.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 26.okt. sl. Yfirferð fjárhagsáætlunar fjölskylduþjónustsu fyrir fjárhagsárið 2019 lögð fram. Fjölskylduráð samþykkir fjárhagsáætlun fjölskylduþjónustu 2019. Fjölskylduráð samþykkir að vísa fjárhagsáælun fjölskylduþjónustu til bæjarráðs.
4.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.okt.sl. Lögð fram tillaga að skipulagsverkefnum 2019-2022.
Skipulags- og byggingarráð vísar tillögu að skipulagsverkefnum 2019-2022 til Bæjarráðs. Ráðið telur jafnframt að nauðsynlegt sé að ráðin sé lögfræðingur til Umhverfis- og skipulagsþjónustu. Skipulagsgerð og vinna tengdri henni er flókin og þarfnast oftar en ekki lögfræðilegrar yfirferðar. Viðkomandi lögfræðingur gæti verið hluti af lögfræðiteymi bæjarins.
Fulltrúi Bæjarlistans leggur fram svohljóðandi bókun: Bæjarfulltrúi Bæjarlistans minnir á tillögu sína frá bæjarstjórnarfundi í júní síðastliðnum, sem vísað var til bæjarráðs en hefur ekki komið hér á dagskrá síðan. Tillagan er eftirfarandi: "Stytting vinnuviku hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, tilraunaverkefni Hafið verði verkefni um styttingu vinnuviku í samráði við stéttarfélög og starfsfólk bæjarins. Starfsfólk félagsþjónustu hefur þegar óskað eftir slíkri tilraun og fjallaði bæjarráð um þá tillögu á fundi sínum þann 20. apríl síðastliðinn. Var bæjarstjóra falið að taka málið til skoðunar (1803258 - Stytting vinnuvikunnar, erindi). Einnig verði tekið upp samtal við aðrar stofnanir bæjarins um mögulegan áhuga á sambærilegu verkefni." Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til bæjarráðs og er það samþykkt samhljóða. Óskað er eftir því að afstaða verði tekin til þessarar tillögu í vinnu við fjárhagsáætlun 2019-2022.
Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson.
Næst til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram svohljóðandi tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun
Tillaga 1 - Endurskilgreining á ráðningahlutfalli starfsmanna vegna ákvæða um hvíldartíma.
Brögð eru að því að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar sem starfa m.a. á heimilum og starfsstöðvum fatlaðs fólks fái ekki ráðningu í 100% starf vegna ákvæða um hvíldartíma. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að störf hjá Hafnarfjarðarbæ sem vegna ákvæða um hvíldartíma teljast ekki 100% verði endurskilgreind þannig að starfshlutfall sem fer að mörkum um hvíldartíma teljist fullt starf og verði 100%. Þetta ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa til handa þeim sem á þessum starfsstöðum starfa og sú metnaðarfulla stefna að fjölga fagmenntuðu starfsfólki á heimilum og starfsstöðvum fatlaðs fólks hlýtur að kalla á að starfsumhverfi og launakjör fólks séu eftirsóknarverð. Þetta er ein leið til þess.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs.
Tillaga 2 - Samgöngusamningar mál nr. 1806353
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar fram tillögu um að teknir yrðu upp samgöngusamningar við starfsfólk bæjarins. Þar sem tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu, endurflytjum við hana hér og vísum til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun. Upphafleg tillaga var svohljóðandi:
Áhersla á lýðheilsu á að vera forgangsmál í hverju samfélagi. Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær gangi fram með góðu fordæmi og stuðli að aukinni lýðheilsu starfsfólks. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að teknir verði upp samgöngusamningar við starfsfólk bæjarins. Það eflir lýðheilsu og styður við umhverfissjónarmið.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Tillaga 3 - Stuðningur við ungt fólk, sálfræðiþjónusta
Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu um stuðning við ungt fólk í Hafnarfirði sem m.a. tók til aukins aðgengis að sálfræðingum. Tillögunni sem slíkri var ekki vísað til fjárhagsáætlunar en gera má ráð fyrir að sú aukning sem fram kemur í áætluninni sé að einhverju leyti viðbrögð við henni. Við teljum hins vegar mikilvægt að gengið verði lengra og leggjum tillögu okkar því fram aftur með áskorun um að gera enn betur og taka einnig fyrir þann hluta sem varðar aðgengi að sálfræðiþjónustu í Ungmennahúsi fyrir ungmenni sem lokið hafa grunnskóla. Það er mikilvægt að tryggja aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu til að sinna þeim fjölmörgu aðkallandi verkefnum sem þarf að sinna m.a. hvað varðar greiningu á vanda, ráðgjöf, stuðningi og ekki síst forvörnum.
Fulltrúar Samfylkingar taka undir bókun sem fulltrúar minnihlutaflokka í fræðsluráði lögðu fram undir umræðum um fjárhagsáætlun og leggja til fjölgun á stöðugildum sálfræðinga í grunnskólum Hafnarfjarðar umfram það sem kemur fram í fjárhagsáætlun sem og aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir 16-18 ára börn í Ungmennahúsi.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs
Tillaga 4 - Stuðningur við ungt fólk, niðurgreiðsla á strætókortum
Fulltrúar Samfylkingar ítreka og endurflytja tillögu sína um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri. Til að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum leggjum við til að Hafnarfjarðarbær niðurgreiði strætókort fyrir börn að 18 ára aldri sem verði þeim að kostnaðarlausu. Þannig minnkum við líka skutl og styðjum við umhverfissjónarmið. Tillagan var áður flutt á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. og hefur ekki hlotið afgreiðslu. Vísum við henni inn í frekari vinnu við fjárhagsáætlun.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs
Tillaga 5 - Hækkun á frístundastyrkjum
Fulltrúar Samfylkingar leggja til að frístundastyrkir verði hækkaðir, amk til jafns við nágrannasveitarfélögin.
Frístundastyrkir ættu að vera stolt okkar Hafnfirðinga og við eigum að leggja metnað okkar í að vera í forystu þegar kemur að því að jafna og auðvelda aðgengi barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundastarfi.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs.
Tillaga 6 - Stytting vinnuvikunnar mál nr. 1806352
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar fram tillögu um undirbúning á tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku. Þar sem tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu endurflytjum við hana hér og vísum til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun. Tillagan var svolhljóðandi:
Mikilvægt er að Hafnarfjarðarbær stuðli að aukinni samveru fjölskyldna með skrefum í átt að styttingu vinnuviku ásamt því að stuðla enn frekar að styttri vinnudegi barna með aukinni samþættingu skóla og frístunda. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að hafin verði undirbúningur á tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í stofnunum bæjarins.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Tillaga 7 - Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi
Þar sem fallið hefur verið frá áformum um uppbyggingu leikskóla við Öldugötu og ljóst er að tveggja deilda viðbygging við Smáralund muni ekki svara þeim skorti sem er á leikskólaplássum í skólahverfi Öldutúnsskóla, leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að hafist verði handa við frekari uppbyggingu á leikskóla í hverfinu.
Það er fyrirséð að með frekari áætlunum um lækkun á inntökualdri muni þörfin í hverfinu síst fara minnkandi og því mikilvægt að horfa til framtíðar og byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins með áherslu á að samnýta grunnstoðir leik- og grunnskóla, og draga þannig úr aðgreiningu milli skólastiga.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs.
Tillaga 8 - Uppbygging á félagslegum íbúðum
Í samantekt fjölskylduráðs kemur fram að félagslegar íbúðir í Hafnarfirði eru 7,9 á hverja þúsund íbúa á meðan meðaltalið á landsvísu er 10,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa. Til að hlutfall félagslegra íbúða miðað við íbúafjölda verði það sama og í Reykjavík er ljóst að það vantar um 220 íbúðir inn í kerfið. Ef ekki verður bætt í mun það taka 16 ár að takast á við uppsafnaðan vanda miðað við núverandi stöðu. Í ljósi þess uppsafnaða vanda sem Hafnarfjarðarbær stendur frammi fyrir þegar kemur að félagslegu húsnæði leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að brugðist verði við með því að forgangsraðað verði í þessa átt og aukið verði við framlög til kaupa á félagslegum íbúðum.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs.
Tillaga 9 - Uppbygging á hagkvæmu húsnæði
Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem er á húsnæðismarkaði leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær leiti leiða til að skoða frekara samstarf við óhagnaðardrifin félög um að byggja upp hagkvæmar leiguíbúðir svo hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum sem og almennum leiguíbúðum á viðráðanlegu verði hraðar en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.
Tillögunni er vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs
Tillaga 10 - Nýting skattstofna
Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru fjölmörg og mikilvægt að þeim sé sinnt. Þar sem framlögð fjárhagsáætlun sýnir að ekki verði hægt að ráðast í öll þau verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir legga fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall og endurskoði lækkun á álagningarstofni fasteignaskatta á atvinnueignir. Þessir skattstofnar eru sveitarfélaginu mikilvægir til að geta staðið straum af þeim fjölmörgu verkefnum sem fyrir liggja en hafa lítil áhrif á hinn almenna bæjarbúa.
Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Ólafur Ingi kemur til andsvars öðru sinni. Adda María svarar andsvari öðru sinni.
Næst tekur til máls Jón Ingi Hákonarson.
Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi bókun/tillögur við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun:
Undirrituð ítrekar tillögur frá 20. júní sl, fyrsta fundi bæjarstjórnar á kjörtímabilinu, en þeim var vísað til viðeigandi ráða og hafa hlotið mismikla umræðu eða úrvinnslu.
Stytting vinnuviku hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, tilraunaverkefni (1806352):
Hafið verði verkefni um styttingu vinnuviku í samráði við stéttarfélög og starfsfólk bæjarins. Starfsfólk félagsþjónustu hefur þegar óskað eftir slíkri tilraun og fjallaði bæjarráð um þá tillögu á fundi sínum þann 20. apríl síðastliðinn. Var bæjarstjóra falið að taka málið til skoðunar (1803258 - Stytting vinnuvikunnar, erindi). Einnig verði tekið upp samtal við aðrar stofnanir bæjarins um mögulegan áhuga á sambærilegu verkefni. Þessari tillögu var vísað til bæjarráðs en ekki hefur verið fjallað um hana frá því hún var kynnt í ráðinu í júní. Í greinargerð með fjárhagsáætlun er sums staðar fjallað um stytta vinnuviku, helst á sviði fræðslumála. Þessi tillaga er hér með ítrekuð.
Fjölgun úrræða fyrir fólk með heilabilun (1806356):
Óskað verði eftir samstarfi við félagasamtök (Alzheimersamtökin) um opnun nýrrar dagdvalar fyrir fólk með heilabilun, til viðbótar við þá þjónustu sem veitt er í Drafnarhúsi og í þeim sama anda. Horft verði til þjónustukjarna við Sólvang varðandi staðsetningu. Starfshópur var stofnaður um sambærilegt mál í september 2018 og vonandi ratar niðurstaða þeirrar vinnu í farveg í framhaldinu, þó svo þess sjáist ekki merki í fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun.
NPA samningar, fjölgun (1806357):
Þegar í stað verði opnað fyrir fjölgun NPA samninga á vegum félagsþjónustunnar í Hafnarfirði, í samráði við notendur. Þjónustuformið NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) sem hingað til hefur verið rekið sem tilraunaverkefni hefur nú fengið stoð í lögum og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf verið innleidd í öll ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Jafn réttur íbúa bæjarins til að stjórna eigin lífi er forsenda þess að þjónusta bæjarins standist ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um ,,að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir."
Fjallað hefur verið um þessa tillögu í fjölskylduráði en framlögð fjárhagsáætlun gefur ekki til kynna að til standi að opna aðgang að nýjum NPA samningum, nema hvað varðar fólk sem þegar er með beingreiðslusamning. Því ítreka ég þá tillögu mína að opnað verði fyrir nýjar umsóknir um NPA samninga.
Stefnumótun í búsetumálum fatlaðra (1806358):
Farið verði í heildstæða stefnumótun í samráði við notendur um framtíðarfyrirkomulag búsetumála fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, meðal annars með tilliti til þjónustu í eigin húsnæði. Farið verði yfir kosti og galla ólíkra búsetuúrræða og þarfagreining gerð á hverju úrræði fyrir sig. Niðurstöður vinnunnar verði hluti af húsnæðisstefnu Hafnarfjarðarbæjar, sem nú er í vinnslu.
Þessi tillaga hefur ratað nærri orðrétt í texta í drögum að húsnæðisstefnu og fyrir það er þakkað og áréttað mikilvægi þess að henni verði fylgt eftir sem fyrst.
Atvinnumál fatlaðs fólks (1806359):
Aukinn verði stuðningur við atvinnumál fatlaðra í bænum, þannig að hjá Hafnarfirði sem vinnustað verði störfin fleiri og fjölbreyttari og á öllum sviðum starfseminnar. Gert verði tilraunaverkefni með kaffihús í anda GÆS í anddyri Ásvallalaugar, þar sem aðgengi er eins og best verður á kosið og aðstaða fyrir veitingasölu hefur verið til staðar frá opnun, en ekki verið tekin í notkun sem slík.
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir auknu fjármagni í atvinnumál fatlaðs fólks, aðallega atvinnu með stuðningi, en gaman væri að sjá tilraunaverkefni með vinnustað í anda GÆS kaffihússins í Ásvallalaug og þar með nýta það húsnæði enn betur.
Einnig bætist við ný tillaga: Greiðsla inn á lífeyrisskuldbindingar
Við ofangreindar tillögur sem þegar hafa verið lagðar fram, vil ég í ljósi þess sem hér að ofan kemur fram leggja til að kveðið verði á um það í greinargerð með fjárhagsáætlun og áætlun til 2022 að mögulegar aukatekjur eða aukið svigrúm í rekstri bæjarins verði nýttar til að hefja inngreiðslur á lífeyrisskuldbindingar.
Þá tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson og leggur fram svohljóðandi tillögu:
Tillaga bæjarfulltrúa Miðflokksins Sigurðar Þ. Ragnarssonar: Fasteignir fyrirtækja eru 20% hússnæðis í bænum. Tekjur af fasteignasköttum fyrirtækja nema hins vegar 50% af fasteignatekjum bæjarins. Það gerir þá kröfu að fyrirtæki fái þjónustu í samræmi við það.
Fyrirtæki á Hraununum vestan Vallahverfis búa við það að ekki hefur verið klárað árum saman að ljúka við frágang við lóðir í hverfinu s.s. gangstíga. Þetta er frágangur sem snýr að Hafnarfjarðarbæ. Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur til að gert verði sérstakt átak við gerð göngustíga og annars frágangs í hverfinu og eyrnarmerkja 15 milljónir króna til þessa verkefnis. Til fjármögnunar á þessu verði framlög til uppbyggingar Bláfjallasvæðis lækkaðar úr 85 milljónum í 75 milljónir. Er lagt til að málið verði sent umhverfis- og framkvæmdaráði til afgreiðslu og ákvörðunar.
Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:
Viðreisn harmar þá ákvörðun að ekki hafi verið gert ráð fyrir stöðugildi sálfræðs fyrir hvern skóla Hafnarfjarðar, inn í fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019. Viðreisn telur mikilvægt að tryggt verði aðgengi að geðheilbriðgðisþjónstu innan veggja skólanna til að sinna þeim fjölmörgu og áríðandi verkefnum sem þar þarf að vinna. Felst sú vinna m.a. í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, stuðningsviðtöl við börn og annarskonar forvarnir.
Í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er beinlínis lögð sú skylda á skólayfirvöld að láta fara fram greiningar á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Ljóst er að sú greiningarvinna sem í dag er unnin, nægir ekki til að grípa strax inn í erfiðleika nemenda eða áður en vandinn verður að veruleika. Vegna þessa geta nemendur fallið aftur úr námslega séð, einangrað sig félagslega sem allt eykur á vanlíðan þeirra. Finni nemandi sig ekki í skóla vegna þeirra sálrænu erfiðleika, sem nemandinn fær ekki bót á, getur það verið greiðasta leiðin inn í heim þunglyndis, kvíða eða þaðan af verra.
Að mati Viðreisnar er það fyrirkomulag að bæta við einum sálfræðing í fullt starf í hvern grunnskóla, ekki of dýrt þegar litið er til þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Þurfum við öll að bera ábyrgð á efla allt geðheilbrigði innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Þá fyrst verður hægt að standa við loforð nánast allra flokka um snemmtæka íhlutun. Við erum þess fullmeðvituð að ekki er hægt að gera allt á sama tíma en við skorum á meirhluta að taka fyrsta skrefið og ráð einn sálfræðing í einn skóla sem tilraunaverkefni og kanna að ári ávinninginn
Forset beru upp tillögu um að framkomnum tillögum verði vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í þeim ráðum sem þar er vísað til og þær eiga heima. Er það samþykkt samhljóða.
Forseti legur þá næst til að tillaga að fjárhagsáætlun 2019 og 2020 til 2022 verði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 12. desember nk. Er tillagan samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Svar

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2019, Þá gerði bæjarstjóri grein fyrir breytingartillögum við fjárhagsáætlun 2019 og lagði til að þær yrðu samþykktar, ásamt framlagðri fjárhagsáætlun.

Einnig tekur til máls Ágúst Bjarni Garðarsson.

Þá tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson. Friðþjófur Helgi svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Ólafur Ingi. Þá kemur Ágúst Bjarni Garðarsson til andsvars við ræðu Friðþjófs. Friðþjófur svarar andsvari. Ágúst Bjarni kemur þá til andsvars öðru sinni. Friðþjófur svarar andsvari öðru sinni. Ágúst Bjarni kemur að stuttri athugasemd. Einnig kemur Guðbjörg Oddný Jónasdóttir til andsvars við ræðu Friðþjófs. Friðþjófur svarar andsvari.

Þá tekur til máls Jón Ingi Hákonarson. Kristín Thoroddsen kemur til andsvars. Einnig kemur Ólafur Ingi til andsvars við ræðu Jóns Inga. Þá svarar Jón Ingi andsvari.

Þá tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram fjórar svohljóðandi tillögur að breytingu á fjárhagsáætlun:

"Tillögur lagðar fram við síðari umræðu

Tillaga 1 - Stuðningur við ungt fólk, niðurgreiðsla á strætókortum

Fulltrúar Samfylkingar ítreka og endurflytja tillögu sína um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri. Til að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum leggjum við til að Hafnarfjarðarbær niðurgreiði strætókort fyrir börn að 18 ára aldri sem verði þeim að kostnaðarlausu. Þannig minnkum við líka skutl og styðjum við umhverfissjónarmið.

Tillagan var áður flutt á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl. og hefur ekki hlotið afgreiðslu. Vísum við henni inn í frekari vinnu við fjárhagsáætlun.
Tillögunni er vísað til fræðsluráðs.

Fræðsluráð vísar tillögunni til seinni umræðu fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn.


Tillaga 2 - Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi

Samkvæmt upplýsingum frá fræðslu- og frístundaþjónustu er ljóst að viðvarandi skortur er á leikskólaplássum í skólahverfi Öldutúnsskóla og sá skortur mun haldast til framtíðar ef ekkert verður að gert.

Tillaga um uppbyggingu leikskóla í Öldutúnsskólahverfi var flutt í bæjarstjórn við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun en þar sem hún hefur ekki hlotið formlega afgreiðslu er óskað eftir því að bæjarstjórn taki afstöðu til hennar nú. Fjárhagsáætlun er stefnumótandi fyrir þau verkefni sem sveitarfélagið mun ráðast í á komandi árum og mikilvægt að fá fram skýra afstöðu bæjarstjórnar um uppbyggingu á leikskólaplássum í þessu hverfi, þar sem hvað mestur skortur er á plássum ef undan eru skilin nýbyggingahverfi á Völlum og í Skarðshlíð.

Fulltrúar Samfylkingar hafa áður bent á að offramboð á leikskólaplássum í öðrum hverfum þurfi að skoða án þess að það bitni á þjónustu við barnafólk í þessu hverfi.
Því endurflytjum við umrædda tillögu sem er svohljóðandi:

Þar sem fallið hefur verið frá áformum um uppbyggingu leikskóla við Öldugötu og ljóst er að fyrirhuguð tveggja deilda viðbygging við Smáralund muni ekki svara þeim skorti sem er á leikskólaplássum í skólahverfi Öldutúnsskóla, leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að hafist verði handa við frekari uppbyggingu á leikskóla í hverfinu.

Það er fyrirséð að með frekari áætlunum um lækkun á inntökualdri muni þörfin í hverfinu síst fara minnkandi og því mikilvægt að horfa til framtíðar og byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins með áherslu á að samnýta grunnstoðir leik- og grunnskóla, og draga þannig úr aðgreiningu milli skólastiga.


Tillaga 3 - Uppbygging á félagslegum íbúðum - hraðari fjölgun félagslegra íbúða

Sú uppbygging á félagslegu húsnæði sem farið hefur verið í á síðustu tveimur árum er af hinu góða. Það er hins vegar ljóst í öllum samanburði að Hafnarfjörður þarf að gera mun betur til að bregðast hraðar við þeirri brýnu þörf sem myndast hefur.

Svör við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði hafa leitt í ljós að 114 umsóknir eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og þar af eru 68 í brýnni þörf. Miðað við fjárhagsáætlun til næstu fjögurra ára má gera ráð fyrir að hægt verði að kaupa 15 íbúðir á ári eða samtals um 60 íbúðir. Það mun því ekki duga til að leysa húsnæðisvanda þeirra sem teljast í brýnni þörf, og er þá ekki tekið tillit til fólksfjölgunar næstu fjögur árin.

Þar sem ekki var fallist á tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar um nýtingu skattstofna m.a. til að bregðast við þessum vanda, leggjum við til að aukið verði við lántökur til að hraða fjölgun félagslegra íbúða svo koma megi sem fyrst til móts við þann hóp sem í mestum vanda er. Leggjum við því til að stefnan verði sett á 700 milljónir á ári í stað þeirra 500 sem þegar er búið að taka ákvörðun um, en þannig má gera ráð fyrir að náist að kaupa u.þ.b. 20 íbúðir á ári í stað 15.


Tillaga 4 - Frítt í sund fyrir yngri en 18 ára.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að farið verði að dæmi Kópavogsbæjar og börnum að 18 ára aldri verði gefin kostur á að nýta sundlaugar bæjarins sér að kostnaðarlausu.
Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum rannsóknarhóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem hefur í yfir áratug fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan íslenskra ungmenna kemur m.a. fram að töluvert dregur hreyfingu hjá 15-17 ára unglingum. Að bjóða hafnfirskum ungmennum upp á frían aðgang að sundlaugum bæjarins gæti verið góð hvatning fyrir meiri hreyfingu og styður vel við markmið um heilsubæinn Hafnarfjörð.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Þá tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Þá kemur Ágúst Bjarni til andsvars öðru sinni sem Guðlaug svarar einnig öðru sinni. Þá kemur Ólafur Ingi Tómasson til andsvars við ræðu Guðlaugar Kristjánsdóttur og Guðlaug svarar andsvari. Þá kemur Ólafur Ingi til andsvars öðru sinni. Einnig kemur Rósa Guðbjartsdóttir til andsvars við ræðu Guðlaugar Kristjánsdóttur og Guðlaug svarar andsvari.

Til máls tekur Sigurður Þ. Ragnarsson. Til andsvars kemur Jón Ingi Hákonarson og Sigurður Þ. Ragnarsson svarar andsvari. Þá kemur Ágúst Bjarni Garðarsson til andsvars við ræðu Sigurðar. Einnig kemur Ólafur Ingi Tómasson til andsvars við ræðu Sigurðar sem og Guðbjörg Oddný Jónasdóttir. Sigurður Þ. Ragnarsson svarar andsvari.

Forseti ber upp framkomnar fjórar tillögur fulltrúa Samfylkingar um breytingar á fjárhagsáætlun til atkvæða. Fyrst er borin upp tillaga nr. 1 og leggur forseti þá um leið til að tillögunni verði vísað til frekari úrvinnslu í fræðsluráði og er það samþykkt samhljóða.

Næst ber forseti upp framkomna tillögu nr. 2 en leggur þá um leið til að tillögunni verði vísað til frekari úrvinnslu í fræðsluráði og er það samþykkt samhljóða. Kristín Thoroddsen gerir grein fyrir atkvæði sínu.

Þá ber forseti upp framkomna tillögu nr. 3 og er tillagan felld með 6 atkvæðum gegn 2 og 3 bæjarfulltrúar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Ágúst Bjarni, Guðlaug, Adda María og Jón Ingi gera grein fyrir atkvæði sínu.

Að lokum ber forseti upp framkomna tillögu nr. 4 en leggur þá um leið til að tillögunni verði vísað til frekari úrvinnslu í fræðsluráði og er það samþykkt samhljóða.

Forseti bar undir fundinn breytingartillögur, dags. 12. desember 2018.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 6 atkvæðum og 5 sitja hjá.

Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 svo breytta með 6 atkvæðum, 5 sitja hjá.

Forseti bar undir fundinn tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árin 2020-2022.

Bæjarstjórn samþykkir þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2020-2022 með 6 atkvæðum og 5 sitja hjá.

Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra:

Agi í rekstri og fjölskylduvænar áherslur
Fjárhagsáætlun ársins 2019 sem nú hefur verið samþykkt sýnir glöggt þann árangur sem náðst hefur í rekstri og fjármálastjórn bæjarins og ber þess merki að haldið verði áfram á braut agaðrar fjármálastjórnunar. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 985 milljónir króna á árinu 2019. Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og verður samkvæmt áætluninni 120% í árslok 2019 í samanburði við 135% í lok árs 2017. Veltufé frá rekstri eyskt um 473 milljónir króna frá síðustu áætlun.

Álagningarstuðull fasteignaskatts verður lækkaður, af atvinnuhúsnæði úr 1,57% í 1,40% og af íbúðahúsnæði úr 0,28% í 0,26%. Dvalargjald á leikskóla mun áfram haldast óbreytt sjötta árið í röð. Aukinn systkinaafsláttur er af dvalargjaldi í leikskólum, afsláttur fyrir annað systkini fer úr 50% í 75% og þriðja systkini úr 75% í 100%. Systkinaafslætti á fæðisgjöldum nemenda í grunnskóla verður komið á. Þriðja systkini fær frítt.

Meginstefið í áætluninni er aukin þjónusta við íbúa á öllum sviðum bæjarfélagsins. Félagslegum íbúðum verður áfram fjölgað markvisst og keyptar verða félagslegar íbúðir fyrir um 500 milljónir króna á ári næstu fjögur ár. Auknum fjármunum verður varið í að halda áfram að þróa og festa Hafnarfjarðarlíkanið/Brúna í sessi en unnið hefur verið að verkefninu allt árið 2018. Verkefnið snýr að því að finna leiðir til að bæta félags-, skóla- og geðheilbrigðisþjónustu við leik- og grunnskólabörn bæjarins og fjölskyldur þeirra.

Unnið verður áfram að verkefni um fjölþætta heilsurækt 65 ára og eldri í Hafnarfirði. Haldið verður áfram að þróa og bæta þjónustu við eldri borgara í heimahúsum svo sem með nýtingu velferðartækni, auk þess sem greind verður þörf fyrir aukið þjónustustig með viðurkenndu mælitæki.
Stöðugildum sálfræðinga til að sinna leik- og grunnskólum var fjölgað á árinu og eru nú um 800 nemendur á hvert stöðugildi en voru um 1200 áður. Markmiðið er að sinna forvarnarhlutverki enn frekar, halda námskeið og ganga á biðlista.

Fjárheimild til framkvæmda nemur 4.468 milljónum króna og ber þar hæst áframhaldandi uppbygging Skarðshlíðarskóla, bygging fjögurra deilda leikskóla í Skarðshlíð auk þess sem byggingu við nýtt hjúkrunarheimili verður fram haldið. Fjárveitingar verða áfram auknar til viðhalds húsnæðis og búnaðar, gatnasvæða og opinna svæða en fjármagn til viðhalds var aukið um 200 milljónir króna á milli áranna 2017 og 2018. Árangur þeirra framkvæmda er þegar orðinn sýnilegur og verður uppsafnaðri viðhaldsþörf áfram svarað á nýju rekstrarári.

Fjárhagsáætlun 2019 er vegvísir að áframhaldandi uppbyggingu og velsæld í Hafnarfirði.

Einnig kemur Adda María Jóhannsdóttir að svohljóðandi bókun fyrir hönd fulltrúa Samfylkingarinnar:

Bókun fulltrúa Samfylkingar vegna fjárhagsáætlunar 2019 12. desember 2018

Rekstur Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur farið batnandi allt frá árinu 2013 eftir erfið ár frá hruni. Ytri aðstæður hafa verið hagfelldar síðustu ár og sveitarfélög hafa notið góðs af því. Nú virðast hins vegar blikur á lofti og mögulega sér fyrir endann á þeirri uppsveiflu sem við höfum verið í sl. ár. Það er því miður að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki nýtt hagsveiflu seinasta kjörtímabils til meiri uppbyggingar en raun ber vitni.

Stefnuyfirlýsing og forgangsröðun
Fjárhagsáætlun er pólitísk stefnuyfirlýsing. Í henni birtist stefna og forgangsröðun þeirra flokka sem sitja í meirihluta. Í þessari fjárhagsáætlun eru vissulega þættir sem ber að fagna. Um annað erum við ósammála og þá helst forgangsröðun.

Það er jákvætt að haldið verði áfram með átak í kaupum á félagslegum íbúðum sem hófst á seinasta kjörtímabili. Í ljósi þess hversu langt að baki mörgum nágrannasveitarfélögum Hafnarfjörður stendur viljum við sjá enn stærri skref tekin til að bregðast hraðar við þeirri brýnu þörf sem myndast hefur. Sveitarfélagið hefur lögbundnum skyldum að gegna við að leysa húsnæðisþörf þeirra sem þarfnast aðstoðar við. Mikilvægt er að þeim skyldum sé sinnt áður en farið er í fjárfrekar framkvæmdir á öðrum vettvangi.

Það er ekki einungis félagslegt húsnæði sem þarf að fara í uppbyggingu á heldur er skortur á fjölbreyttu húsnæði í bæjarfélaginu fyrir ýmsa hópa og mikilvægt að bregðast við því. Það er því miður að ekki hafi verið talin ástæða til að taka undir og samþykkja tillögur fulltrúa Samfylkingarinnar um aukna uppbyggingu bæði hvað varðar félagslegt húsnæði og annað hagkvæmt húsnæði, m.a. við óhagnaðardrifin félög.

Breytingartillögur Samfylkingarinnar
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tíu breytingatillögur við fjárhagsáætlun sem hafa verið til umfjöllunar á milli umræðna. Með þeim vildum við draga fram ákveðin atriði sem við teljum mikilvægt að sinna. Þar af voru tvær tillögur varðandi uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði eins og vikið hefur verið að. Tvær tillögur voru lagðar fram sem vörðuðu stuðning við ungt fólk, með auknum aðgangi að sálfræðiþjónustu og niðurgreiðslu á strætókortum. Tvær tillagnanna sneru að barnafjölskyldum, annars vegar um hækkun frístundastyrkja og hins vegar uppbyggingu leikskóla í Öldutúnsskólahverfi. Þrjár tillögur voru lagðar fram sem varða aðbúnað starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar, um endurskilgreiningu á ráðningarhlutfalli starfsfólks vegna ákvæða um hvíldartíma, samgöngusamninga og styttingu vinnuviku. Þá var einnig lögð fram tillaga um nýtingu skattstofna til að tryggja að lögbundnum hlutverkum sveitarfélagsins sé sinnt og koma til móts við þá hópa sem á stuðningi þurfa að halda.

Það eru gífurleg vonbrigði að tillaga okkar um hækkun á frístundastyrkjum sem fræðsluráð samþykkti einróma hefur verið vísað aftur til ráðsins og er því ekki hluti af fjárhagsáætlun. Hins vegar ber að fagna því að tekið hafi verið undir tillögu okkar um að skoðaðar verði leiðir til að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í Ungmennahúsi. Afdrif annarra tillagna sem fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram við fyrri og síðari umræðu, og voru sumar hverjar lagðar fram á fyrsta fundi bæjarstjórnar í júní sl., eru óljós og er það miður. Fjárhagsáætlun er stefnumarkandi og þar þarf að gera ráð fyrir fjármagni í þau verkefni sem ráðast á í. Þegar ekki er gert ráð fyrir fjármagni í verkefni eru það skýr skilaboð um að ekki sé vilji til að ráðast í þau.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Einnig kmeur Jón Ingi Hákonarson að svohljóðandi bókun fyrir hönd Viðreisnar:

Bæjarfulltrúi Viðreisnar harmar þá forgangsröðun meirihlutans að hafa ekki þann metnað að hefja þá vegferð að ráða starfandi sálfræðing í alla grunnskóla Hafnarfjarðar. Tillaga okkar um að taka fyrsta skrefið og ráða einn sálfræðing í einn skóla sem tilraunaverkefni hefur ekki hlotið náð fyrir augum meirihlutans. Það er ljóst að mest vaxandi heilbrigðisvandi er herjar á unga fólkið okkar er virtur að vettugi. Þetta er þyngra en tárum taki.

Bæjarfulltrúi Viðreisnar telur að handbært fé frá rekstri sé amk helmingi lægra en þyrfti að vera þannig að hægt sé að tala um ábyrga fjármálastjórn. Það má lítið út af bera þannig að greiðslubyrði verðtryggðra lána verði okkur of þungbær.

Einnig kemur Guðlaug Kristjánsdóttir að svohljóðandi bókun fyrir hönd Bæjarlistans:

Bókun bæjarfulltrúa Bæjarlistans:

Í þessari fyrstu fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að finna mörg gríðarlega góð verkefni og þjónustuúrbætur fyrir bæjarbúa. Árið 2019 mun einkennast af óvissu í rekstri sveitarfélaga, ekki síst vegna heildstæðrar endurnýjunar kjarasamninga. Þrátt fyrir það leggur meirihlutinn hér þær línur að útsvar og fasteignaskattar fari áfram lækkandi, en setja um leið á dagskrá nýja lántöku. Þar er um að ræða stefnubreytingu frá síðasta kjörtímabili þar sem annars vegar var áætlað sérstaklega fyrir umframgreiðslum inn á lán og hins vegar áskilið að mögulegar ófyrirséðar umframtekjur færu í sama farveg. Báðir þessir þættir hafa nú fallið brott en þess í stað aukið í hvað lántökur varðar, um rúma 3 milljarða næstu 3 ár. Lækkun gjalda hér og nú er því í raun tekin að láni inn í framtíðina. Þegar óvissu í ytra umhverfi léttir, þá gerir bæjarfulltrúi Bæjarlistans þá kröfu að meirihluti bæjarstjórnar taki til endurskoðunar áætlanir sínar með tilliti til þess að nýta mögulega bættar aðstæður til að falla frá þeim lántökum sem nú eru boðaðar, en horfist ella í augu við það að forsendur til að lækka útsvar og fasteignaskatta séu þá ekki lengur til staðar. Það er ekki ábyrgt að afsala sér tekjum í nútíma en varpa þess í stað álögum inn í framtíðina á formi skulda.

Að lokum kemur Sigurður Þ. Ragnarsson að svohljóðandi bókun fyrir hönd Miðflokksins:

Bókun bæjarfulltrúa Miðflokksins, Sigurðar Þ. Ragnarssonar.
Þó margt sé jákvætt í ytri skilyrðum Hafnarfjarðarkaupsstaðar liggur fyrir að töluverð óvissa er í forsendum fjárhagsáætlunarinnar. Varðar þetta einkum hússnæðis- og lóðamál. Áþreifanlegur skortur er á 2ja og 3ja herbergja íbúðum er fyrir hendi og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð. Ennfremur gengur sala lóða hægt. Bæjarfulltrúi Miðflokksins telur því mikilvægt að bregðast við því með afgerandi hætti með endurskipulagningu á skipulagi lóða í Skarðshlíð sem og að líta til svæðis vestan við Krísuvíkurveg, sunnan Hellnahraunsverfis. Án aðgerða veðrur fólksfjölgun mun hægari en áætlanir gera ráð fyrir.