Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3523
4. júlí, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lagður fram viðauki. Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.
Svar

Guðlaug Kristjánsdóttir fulltrúi Bæjarlista leggur fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Bæjarlistans leggur til að ákvörðun um lántökur umfram fjárhagsáætlun verði frestað þar til farið hafi verið yfir möguleika á aðlögun í rekstri og framkvæmdum.
Greinargerð:
Sannarlega hafa forsendur fjárhagsáætlunar breyst, en það ætti ekki sjálfkrafa að koma fram í aukinni skuldsetningu, heldur heildarendurskoðun fjárhagsáætlunar, að útgjaldaliðum meðtöldum.
Slík fjárhagshugsun einkenndi allt síðasta kjörtímabil, þar sem agi var aukinn á rekstri og framkvæmdum og skuldasöfnun snúið í skuldalækkun með virkum aukaafborgunum af lánum. Í bæjarráði/bæjarstjórn í dag liggur fyrir tillaga um viðbótarlántöku upp á 950 milljón krónur en lítil umræða um aðra hagræðingarmöguleika hefur farið fram meðal kjörinna fulltrúa. Fulltrúi Bæjarlistans fer fram á að sú umræða verði tekin og þannig athugað hvort hætta megi við eða í það minnsta lækka upphæð fyrirhugaðrar lántöku.
Í gögnum sem fylgja málinu er fyrst og fremst horft á að ytri aðstæður batni til að draga úr óhagræði af aukinni lántöku, fulltrúi Bæjarlistans saknar þar umræðu um það hvað bærinn getur sjálfur gert í eigin ranni til að forðast aukna skuldasöfnun.

Fulltrúi Bæjarlistans greiðir atkvæði með tillögunni, fulltrúar meirihluta greiða atkvæði gegn henni. Fulltrúi Samfylkingarinnar situr hjá.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir framlagðan viðauka. Fulltrúi Bæjarlistans og fulltrúi Samfylkingarinnar sitja hjá.

Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Það veldur áhyggjum að tekjur vegna sölu lóða m.a. í Skarðshlíð eru talsvert undir væntingum eða aðeins um 400 milljónir kr. það sem af er ári. Gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun að alls yrðu tekjur vegna sölu lóða tæpir 1,5 milljarðar á árinu 2019. Nokkuð ljóst er að þær áætlanir standast ekki og það komi til að muna miklu um það þegar árið verður gert upp. Kólnandi hagkerfi veitir almennt ekki bjartsýni um að tekjuflæði til bæjarsjóðs verði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í áætlunum og ljóst er að það þarf að stíga mjög varlega til jarðar í fjárfestingum á komandi ári og árum. Aukin lántaka vekur einnig ugg og er á skjön við fyrirætlanir núverandi meirihluta.

Jón Ingi Hákonarson fulltrúi Viðreisnar tekur undir bókunina.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram svohljóðandi bókun:
Lántaka nú er fyrst og fremst til að mæta fjárfestingu og framkvæmdum við Skarðshlíðarskóla, sem hófst árið 2017, upp á um 4 milljarða króna, sem áætlanir voru um að lóðarsala í hverfinu myndi standa undir. Bæjarráð leggur áherslu á að við fjárhagsáætlunarvinnu 2020 verði leitað allra leiða til að draga úr kostnaði í rekstri og fjárfestingum í ljósi ytri efnahagslegra aðstæðna sem koma meðal annars fram í lægri útsvarstekjum og minni lóðarsölu en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Guðlaug Kristjánsdóttir fulltrúi Bæjarlistans leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Bæjarlistans tekur undir fram komnar áhyggjur af aukinni lántöku og áherslur um aukið aðhald í rekstri og framkvæmdum í næstu fjárhagsáætlun. Jafnframt er ítrekað það sjónarmið sem undirrituð setti fram í bókun við samþykkt yfirstandandi fjárhagsáætlunar, að sveitarfélag sem er í virkri lántöku hefur ekki forsendur til að lækka skatta og gjöld, sbr. útsvar og fasteignarskatta, líkt og er raunin í núgildandi áætlun.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja áherslu á að engin stefnubreyting hefur orðið gagnvart lántökum sveitarfélagsins. Að koma þurfi til lántöku nú er fyrst og fremst vegna þess að á síðasta kjörtímabili voru gerðar áætlanir um að bygging Skarðshlíðarskóla yrði að fullu greidd með lóðasölu. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var gerð áætlun um 2,5 milljarða lóðasölu sem stóðst ekki, þegar lóðir seldust fyrir 1,1 milljarð króna. Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar eykst ekki við þessa lántöku því jafnframt er verið að greiða niður eldri lán bæjarins og skuldir aukast því ekki. Það er sannarlega áætlun núverandi meirihluta að halda áfram á þeirri braut að ná skuldaviðmiðinu niður og verða eldri, óhagstæðari lán greidd áfram niður eins og verið hefur.


Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur, Framsókn
    Lántaka nú er fyrst og fremst til að mæta fjárfestingu og framkvæmdum við Skarðshlíðarskóla, sem hófst árið 2017, upp á um 4 milljarða króna, sem áætlanir voru um að lóðarsala í hverfinu myndi standa undir. Bæjarráð leggur áherslu á að við fjárhagsáætlunarvinnu 2020 verði leitað allra leiða til að draga úr kostnaði í rekstri og fjárfestingum í ljósi ytri efnahagslegra aðstæðna sem koma meðal annars fram í lægri útsvarstekjum og minni lóðarsölu en áætlanir gerðu ráð fyrir.
  • Sjálfstæðisflokkur, Framsókn
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja áherslu á að engin stefnubreyting hefur orðið gagnvart lántökum sveitarfélagsins. Að koma þurfi til lántöku nú er fyrst og fremst vegna þess að á síðasta kjörtímabili voru gerðar áætlanir um að bygging Skarðshlíðarskóla yrði að fullu greidd með lóðasölu. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var gerð áætlun um 2,5 milljarða lóðasölu sem stóðst ekki, þegar lóðir seldust fyrir 1,1 milljarð króna. Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar eykst ekki við þessa lántöku því jafnframt er verið að greiða niður eldri lán bæjarins og skuldir aukast því ekki. Það er sannarlega áætlun núverandi meirihluta að halda áfram á þeirri braut að ná skuldaviðmiðinu niður og verða eldri, óhagstæðari lán greidd áfram niður eins og verið hefur.