Hildur Rós Guðbjargardóttir tekur til máls. Einnig Valdimar Víðisson. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að andsvari sem Valdimar svarar og Árni kemur þá að andsvari öðru sinni.
Þá tekur Stefán Már Gunnlaugsson til máls.
Forseti ber upp fyririggjandi tillögu og er hún felld þar sem sex fulltrúar meirihluta greið atkvæði gegn tillögunni en fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni og fulltrúi Viðreisnar situr hjá.
Fundarhlé kl. 16:18.
Fundi framhaldið kl. 16:29.
Hildur Rós Guðbjargardóttir kemur að svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka mikilvægi uppbyggingar Tækniskólans í Hafnarfirði og benda á frá því viljayfirlýsing var undirrituð fyrir rúmu ári síðan, 8. júlí 2021, hefur málið lítið þokast áfram. Svör bæjarstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar um málið undirstrika kyrrstöðu málsins. Framundan eru miklar breytingar á hafnarsvæði og brýnt að leysa sem fyrst húsnæðisvanda Tækniskólans. Samfylkingin furðar sig því á að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafni tillögu Samfylkingarinnar um að setja á laggir starfshóp sem flýtir fyrir flutningi Tækniskólans til bæjarins og stuðlar að vönduðum vinnubrögðum.
Valdimar Víðisson kemur að svohljóðandi bókun:
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað í verkefnastjórn um þetta verkefni. Í skipunarbréfi kemur m.a. fram að hlutverk verkefnastjórnar sé m.a. að leiða fram niðurstöðu um fjármögnun og eignarhald á húsnæði Tækniskólans. Skoðaðar verði leiðir til fjármögnunar verkefnisins og hvernig eignarhaldi á framtíðarhúsnæði skólans verði háttað. Verkefnastjórn á að móta framtíðarsýn um verkefnið í samhengi við stefnu og áherslur mennta- og barnamálaráðuneytis. Hópnum ber að skila tillögum fyrir 1. nóvember. Það er því mikilvægt fyrir okkur að fá þær tillögur áður en ákveðið er að skipa í starfshóp.
Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks telur því ekki tímabært að stofna starfshóp til viðbótar verkefnastjórn á þessu stigi. Tillögunni er því hafnað.