Tækniskólinn, nýbygging, erindi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3608
8. september, 2022
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram fyrirspurn Samfylkingarinnar um málefni Tækniskólans auk skipunarbréfs í verkefnastjórn á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarhúsnæði Tækniskólans.
Svar

Lagt fram skipunarbréf í verkefnisstjórn á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarhúsnæði Tækniskólans. Í skipunarbréfinu segir: ,,Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er m.a. að leiða fram niðurstöðu um fjármögnun og eignarhald húsnæðis Tækniskólans. Verkefnisstjórnin skoði leiðir til fjármögnunar verkefnisins og hvernig eignarhaldi á framtíðarhúsnæði skólans verði háttað m.a. út frá rekstrarfyrirkomulagi á skólanum. Kostnaðaráætlanir skulu yfirfarnar og skal verkefnisstjórnin móta framtíðarsýn um verkefnið í samhengi við stefnu og áherslur mennta- og barnamálaráðuneytis í starfsmenntun á Íslandi.“ Hópnum ber að skila tillögum fyrir 1. nóvember nk.

Fyrirspurn Samfylkingarinnar um málefni Tækniskólans og hugsanlegan flutning hans til Hafnarfjarðar.

Undir 2. lið á fundi bæjarstjórnar 31.08.2022 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar styðja þau meginatriði sem finna má í fyrirliggjandi breytingum á Aðalskipulagi/hafnarsvæði. Ljóst er að ein forsenda þessara breytinga á landnotkun er hugsanlegur/áformaður flutningur Tækniskólans til Hafnarfjarðar á hafnarsvæðið. Verkefnið er spennandi en að mörgu er að huga. Eftir umræður í bæjarstjórn telja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar mikilvægt að fá allar staðreyndir upp á borð, svo sem varðandi fjárhagslegar skuldbindingar bæjarins, deiliskipulag, vegamál og fleira. Í því ljósi er óskað eftir ítarlegri greinargerð bæjarstjóra varðandi stöðu málsins í ljósi ofanritaðs, næstu skref og tímasetningar. Greinargerð bæjarstjóra liggi fyrir 1.október.

Í greinargerð bæjarstjóra sem óskað er eftir í bókun Samfylkingarinnar á bæjarstjórnarfundi þann 31. ágúst sl. óskum við m.a. eftir að eftirfarandi fyrirspurnum verði svarað:

1. Hvar er málið statt og hver er tímarammi áforma um flutning Tækniskólans til Hafnarfjarðar?
2. Hefur verið haldinn fundur í samráðsnefnd með ríkisvaldinu og skólayfirvöldum, sem bæjarstjóri á sæti í og hver er verkáætlun þeirrar nefndar?
4. Hver er áætlaður kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við flutning skólans á hafnarsvæðið.
a) m.a. vegna uppkaupa og annars kostnaðar vegna lóðar undir skólann?
b) sem og kostnaður við hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar við nýframkvæmdir Tækniskólans?
5. Er tekið tillit til þessara þátta í breytingatillögu aðalskipulags á hafnarsvæðinu sem var til umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 31. ágúst sl.?
6. Hvernig verður þá aðgengi að skólanum?
7. Er búið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu á svæðinu, ekki síst með tilliti til samgöngu- og bílasæðamála?