Tækniskólinn, nýbygging, erindi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3578
15. júlí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði fyrir Tækniskólann sem undirrituð var 7. júlí sl.
Svar

Bæjarráð fagnar viljayfirlýsingu milli ríkisins, Tækniskólans og Hafnarfjarðarbæjar um að framtíðarhúsnæði skólans verði í Hafnarfirði. Með nýrri skólabyggingu er ætlunin að sameina starfsemina undir einu þaki, í nútímalegu húsnæði sem uppfyllir þarfir skólans og nemenda hans.
Bæjarráð telur fyrirhugaða byggingu falla vel að því rammaskipulagi sem liggur fyrir á hafnarsvæðinu og að tilkoma skólans yrði mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið.

Fulltrúi Viðreisnar óskar eftir því að upplýst verði um söluverðmæti lóðarinnar sem Hafnarfjarðarbær leggur til ásamt því að upplýst verði hversu mikill annar kostnaður gæti numið sem gæti fallið á Hafnarfjarðarbæ vegna verkefninsins.

Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
Það er mikið fagnaðarefni að Tækniskólinn sjái Hafnarfjörð fyrir sér sem ákjósanlegan stað fyrir framtíðarhúsnæði skólans. Erindi frá skólanum var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 11. febrúar sl. þar sem ákveðið var að fela utanaðkomandi aðila verkefnastjórn varðandi samningaviðræður við lóðarhafa og fulltrúa skólans.
Málið hefur ekki komið inn á borð bæjarráðs síðan en nú er lögð fram undirrituð viljayfirlýsing milli Tækniskólans og Hafnarfjarðarbæjar um samstarf um framtíðarhúsnæði. Ýmsu er þó ósvarað um fjármögnun verkefnisins, kostnaðarþátttöku ríkisins og eignarhald. Þá hefur ekki komið fram hvernig viðræður við lóðarhafa hafa þróast. Allt voru þetta þó atriði sem bæjarráð var sammála um að mikilvægt væri að kæmu fram áður en lengra væri haldið.
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar eftir að þau gögn sem þegar liggja fyrir verði birt bæjarráði og leggur áherslu á að næstu skref verði unnin á opinn og lýðræðislegan hátt þannig að fulltrúar allra flokka sem sæti eiga í bæjarstjórn séu upplýstir um framgang verkefnisins.